16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (3959)

119. mál, umferðarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér við 3. umr. ásamt hv. þm. Páli Péturssyni, Kristínu Halldórsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur að bera fram brtt. við 114. gr. umferðarlaga 2. mgr. svohljóðandi, en þessa till. er að finna á þskj. 954:

„Við 114. gr. 2. mgr. bætist: Í hóp þeirra sem rétt eiga á að tilnefna fulltrúa í Umferðarráð bætist orðin: Náttúruverndarráð og landlæknir.“

Það er sem sagt lagt til að inn í hóp þeirra sem hafa rétt á að tilnefna fulltrúa í Umferðarráð og annan til vara komi Náttúruverndarráð og landlæknir.

Ég taldi nauðsynlegt að hreyfa þessu máli og við flm. vegna þess að Náttúruverndarráði er ætlað að fylgjast með að umferð um landið valdi ekki spjöllum á náttúru þess og þá sérstaklega varðandi akstur utan vega, að koma í veg fyrir óæskilegan akstur utan vega eða merktra slóða. Það virðist nauðsynlegt að mati okkar að Náttúruverndarráð eigi aðild að Umferðarráði til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fylgjast jafnframt með því sem er að gerast á þessum vettvangi varðandi umferðarlögin og þá hagsmuni sem Náttúruverndarráði er ætlað að sinna. Sama gildir um landlæknisembættið. Við teljum eðlilegt að landlæknir eigi þess kost að fylgjast með reynslunni af umferðarlögum og mótun stefnu varðandi umferðarlögin, sérstaklega með það í huga að koma í veg fyrir slys í umferðinni, og því eðlilegt að hann eigi kost á að eiga fulltrúa eða eiga sjálfur sæti í Umferðarráði og tilnefna einnig varamenn.

Mér finnst þetta svo sjálfsögð atriði að það þarf ekki langan rökstuðning fyrir þessari till. okkar. Auðvitað koma alltaf upp sjónarmið um að það sé álitamál hvað eigi að vera margir í ráðum af þessu tagi, en mér finnst alveg sérstaklega að þar eigi að kveðja til aðila sem hafa hlutverki að gegna varðandi framkvæmd viðkomandi laga.

Ég vil geta þess að mér barst um það vitneskja í dag að Náttúruverndarráð hefði sent sérstakt erindi til allshn. Nd. dags. í dag, 16. mars, þar sem ráðið sérstaklega fjallar um reglur um torfærutæki í frv. til l. um umferðarmál og varar mjög við till., sem raunar eru nú komnar til afgreiðslu hér eftir 2. umr., í sambandi við torfærutæki og torfæruakstur. Ég ætla ekki að fara að lesa þetta erindi Náttúruverndarráðs, enda hefur það ekki borist mér í hendur nema mér hefur verið léður aðgangur að þessu erindi, sem fór til formanna þingflokka auk allshn., en það er vissulega umhugsunarefni að við meðferð þessa máls skuli aðila eins og Náttúruverndarráði ekki gert kleift að koma athugasemdum sínum að á eðlilegum tíma við meðferð málsins, en það er seint og um síðir sem ráðið fékk í hendur þetta frv. og brtt. og var ekki umsagnaraðili eins og svo margir aðrir í sambandi við frv.

Ég óttast það og vakti athygli á því við 1. umr. þessa máls í deildinni að ákvæði varðandi torfærutæki í frv. væru óeðlileg og óæskileg og ekki nógu skynsamlega hugsuð að mér finnst. Nú hafa verið greidd atkvæði um þetta og fallið með þeim hætti sem gerðist í dag þar sem brtt. hafa verið samþykktar og það var ekki með mínum stuðningi sem tillögur voru afgreiddar varðandi þær greinar. Ég ætla ekki að fara að taka þau mál frekar upp, en tel að það sé verulega til bóta að Náttúruverndarráð eigi aðild að Umferðarráði og geti þar komið sínum sjónarmiðum á framfæri, eins og ráð er fyrir gert í frv. eins og það nú liggur fyrir svo og landlæknir, og við flm. væntum þess að þessi till. okkar fái brautargengi að lokinni þessari umræðu.