30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

1. mál, fjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að gera veigamiklar athugasemdir við þær ræður sem hafa verið fluttar við umræðuna. Þær gefa ekki tilefni til langrar svarræðu af minni hálfu. Ég lét þess getið í lok framsöguræðu minnar fyrir frv. að ég mundi láta talsmönnum stjórnarandstöðunnar ábyrgðarleysið eftir og það hefur sannarlega komið í ljós í þeim umræðum sem hér hafa farið fram ef ég undanskil ræðu hv. 7. landsk. þm. sem í alla staði var málefnaleg þó ég sé ekki sammála öllum þeim athugasemdum er þar komu fram.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. flutti ágæta ræðu sem lýsir vel því ábyrgðarleysi sem flokkur hans boðar og ekki síst í ríkisfjármálum. Ræða hans var, ef henni er lýst með hæfilegri einföldun, áhyggjur yfir því að halli skyldi vera á ríkissjóði en síðan upptalning á öllum þeim útgjöldum sem vantar í frv. Með öðrum orðum, niðurstaðan var sú að hann vildi í reynd hafa hallann miklu meiri. Sem dæmi um ábyrgðarleysið í málflutningnum var sú yfirlýsing í upphafi ræðunnar að stefnan í þessu frv. væri andfélagsleg eins og hann orðaði það. Síðan voru tiltekin nokkur dæmi, tekin af handahófi úr fjárlagafrv., og auðvitað er það svo að í hverju fjárlagafrv. eru liðir ýmist að hækka eða lækka. Og það má auðvitað finna liði sem teljast til félagsmála sem hafa lækkað í þessu frv. Auðvitað er það svo eins og jafnan þegar fjárlagafrv. er lagt fram. En ef menn ætla að draga ályktanir og fullyrða í þessu efni verða menn að horfa á fjárlagafrv. í heild og útgjöld þess og stefnumörkun til þessara málaflokka. Það gerði hv. þm. ekki, hann vék sér undan því, enda alveg ljóst að ef menn gera það þá hrynur fullyrðingin. Við skulum horfa á hlutdeild mennta- og menningarmála í heildarútgjöldum ríkisins. Það kemur fram í athugasemdum með frv. sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefði getað lesið en hefur að öllum líkindum ekki gert. Hlutdeild mennta- og menningarmála í heildarútgjöldum ríkissjóðs á þessu ári er talin vera 15% en með frv. hækkar hún í 16,1%. Ef við horfum á hlutdeild heilbrigðis- og tryggingamála í útgjöldum ríkisins á þessu ári, þá eru þau talin vera 37,3% en þau verða rétt rúmlega 40% skv. tillögunum í frv. Og svo kemur hv. þm. og segir: Stefnan er andfélagsleg. Það er sko aldeilis alveg augljóst að annaðhvort er hann vísvitandi að blekkja menn með því að tína til einstök dæmi sem gefa enga heildarmynd af stefnumörkuninni í þessum efnum eða hv. þm. hefur hreinlega ekki lesið frv. og ég ætla að vona hans vegna að það sé heldur skýringin á þessu máli.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék nokkuð að skattamálum. Í fyrsta lagi hélt hann því fram að aðeins væri skilað að hálfu þeirri skattahækkun sem hann fullyrti að hefði orðið á þessu ári með áformum um 300 millj. kr. lækkun tekjuskatts. Hann gleymir því alveg að það voru birtar nákvæmar upplýsingar um það hvernig tekjuaukningin sundurliðaðist vegna meiri tekna af tekjuskatti í ár en áætlað hafði verið. Hann gleymir því að stærsti hluti þeirrar tekjuaukningar stafaði af því að skattstjórar gengu lengra fram í að áætla þeim tekjur sem ekki hafa skilað inn skattskýrslum, þeim sem ekki fóru að skv. lögum og skiluðu skattskýrslunum á réttum tíma. Og hann gleymir því að annar hluti þessa tekjuauka stafar af því að reiknaðar tekjur atvinnurekenda voru vegna nýrra viðmiðunarreglna mun hærri en ráð var fyrir gert. Menn voru að ná auknum skatttekjum af þeim hópum sem menn hafa helst horft til að greiddu ekki til ríkisins það sem þeim ber. Þetta var annar stærsti hluti útgjaldaaukningarinnar. Þriðji hlutinn stafaði af því að tekjur höfðu í raun hækkað á árinu áður og skv. eðli skattkerfisins leiðir það til þess að ríkið fær fleiri krónur í sinn hlut. En það hefur engin áhrif að sjálfsögðu á skattbyrðina, engin áhrif. Nokkur hluti, eða um 100 millj. kr., ef ég man rétt, var tilkominn vegna þess að skattvísitalan var ekki nákvæm þegar hún var ákveðin vegna ófullnægjandi upplýsinga. En það stendur ekki á hv. þm. að fara með rangt mál. Þó hefur hann allar þessar upplýsingar undir höndum.

Það stóð heldur ekki á þingflokki Alþfl. í sumar sem leið að senda mér skeyti og heimta að ég endurgreiddi tekjuaukann sem fékkst vegna þess að reiknaðar tekjur atvinnurekenda voru hærri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, vegna þess að viðmiðunarreglur voru virtar. Þeir sendu mér skeyti norður á Sauðárkrók, þingflokkur Alþfl., til þess að heimta að þetta yrði endurgreitt. Svo koma þeir og flytja langar ræður um það að þeir vilji og séu nú allra manna viljugastir til þess að draga úr skattsvikum og sækja fé í raðir þeirra sem minnst hafa greitt fram til þessa í hlutfalli við tekjur. Það er mikið samræmi í þessum málflutningi. Ég á þetta skeyti og geymi það vel.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék einnig að þeim umræðum sem fram hafa farið að undanförnu um raungildi tekna ríkissjóðs. Því var haldið fram fyrir fáum dögum að raungildi tekna ríkissjóðs hefði aukist um allt að 8% á þessu ári og er það býsna mikið ef satt væri. Og hv. þm. taldi að það væri rétt viðmiðun sem þar væri stuðst við. Það væri rétt að miða raungildi ríkissjóðsteknanna við framfærsluvísitölu eða byggingarvísitölu. Hann veit þó allra manna best, hafandi verið fjmrh., að tekjur ríkissjóðs eru ekki leiddar af kostnaði í þjóðfélaginu, ekki kostnaði heimilanna, ekki kostnaði atvinnufyrirtækjanna. Þær eru leiddar af tekjum bæði að því er varðar beina og óbeina skatta. Og ef menn ætla að miða raungildi skatta við einhverja stærð hlýtur sú viðmiðun að byggjast á viðmiðun við tekjuþróun en ekki kostnaðarþróun. Það liggur í augum uppi. Auðvitað eru þetta réttir útreikningar ef miðað er við framfærsluvísitölu. Spurningin er bara sú, er það rétt viðmiðun? Ég hef bent á að það væri nær lagi að reikna þessa viðmiðun út við hæðina á Morgunblaðshúsinu, m.a. vegna þess að Morgunblaðshúsið er þó föst stærð. En ríkisvaldið var á þessu ári að greiða niður framfærsluvísitöluna. Það var með auknum útgjöldum að lækka þá viðmiðun sem þarna er stuðst við. Þannig að með því að fara þannig að því að mæla raungildi skatttekna ríkissjóðs eru menn að svindla tvisvar sinnum. Og það var sérstaklega athyglisvert að hv. 3. þm. Norðurl. v. skyldi taka undir útreikning af þessu tagi.

Ég minnist þess að þegar ég var í starfi sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins vorum við stundum að hjálpa þeirri ríkisstjórn sem þá sat við völd, og ekki veitti af. Allt gekk þá á afturfótunum, sundurlyndið svo mikið að ekki veitti af að hún fengi stuðning úti í þjóðfélaginu. Ég minnist þess að einhverju sinni lét ég hafa eftir mér, þegar hæstv. þáv. fjmrh. hafði sagt eitthvað sem ástæða var til að taka undir, að orð hans væru eins og töluð út úr mínu hjarta. Þessi yfirlýsing var birt í Morgunblaðinu og ég held að það hafi tekið hæstv. þáv. fjmrh. einar þrjár vikur að skrifa sig frá þessari ástarjátningu og var þetta þó allt í góðri meiningu sagt. Honum þótti eitthvað óþægilegt að halla sér upp að Vinnuveitendasambandinu. Nú er Vinnuveitendasambandið þekkt fyrir vandaðan og góðan málflutning og nú gerist það einu sinni, í fyrsta skipti sem ég man eftir, að þeim verður fótaskortur í því efni, en þá kemur hv. 3. þm. Norðurl. v. og leggur höfuð sitt í kjöltu þeirra, þá fyrst. Það er einkar athyglisvert.

Sannleikurinn er sá að tekjur ríkisins hafa haldist í hendur við tekjuaukninguna í þjóðfélaginu á þessu ári, enda eru tekjurnar leiddar af tekjunum og þess vegna eðlileg viðmiðun. Þær tölur sýna að engin raungildisaukning hefur orðið. Þessi viðmiðun við tekjuþróunina í þjóðfélaginu er ein viðmiðun sem við getum stuðst við í þessu efni. Önnur, sem er mjög hefðbundin, er að miða við landsframleiðslu. Það er hin almennt viðurkennda viðmiðun og þá kemur auðvitað hið sama í ljós. Og á næsta ári er að því stefnt, með þessu fjárlagafrv., að útgjöldin lækki heldur í hlutfalli af landsframleiðslu en tekjurnar standi í stað. Þessar fullyrðingar hafa því ekki við nein rök að styðjast.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. vék einnig að skuldahala. Þó er það staðreynd að þetta frv. miðar að því að lækka ríkissjóðshallann um þriðjung. Hv. þm. hefði frekar átt að rifja upp erlendu skuldasöfnunina sem sú ríkisstjórn stóð fyrir sem hann átti sæti í og hann sjálfur bar auðvitað mesta ábyrgð á. Það hefði verið nær að rifja það upp.

Hér eru menn að ná þeim árangri að erlendar skuldir opinberra aðila eru í fyrsta skipti í áraraðir að dragast saman, að minnka, menn eru að grynnka á skuldunum. Ég held að hv. þm. hefði fremur átt að rifja upp eigin sögu í þessu efni. Hann hélt því fram að verið væri að skilja eftir vanda handa þeim sem við ættu að taka. Ég get fullyrt það hér og nú að ekki eru miklar líkurnar á því að honum verði treyst til að taka við þeim verkefnum á nýjan leik eins og reynslan hefur dæmt verk hans og félaga hans í fyrri ríkisstjórn og eins og flokkur hans er nú kominn. Þar er hver höndin upp á móti annarri og verið að þrýsta þeim út af þingi sem hafa helst mælt af raunsæi í þeim þingflokki á undangengnum árum. Upplausnarmennirnir eiga að sitja áfram og vera í framboði en þeim einum sem talað hafa af raunsæi og skynsemi er verið að þrýsta út úr hverju kjördæminu á fætur öðru. Og ekki eru miklar líkurnar á því að sá draumur rætist að þessi ábyrgð falli hv. 3. þm. Norðurl. v. aftur í skaut.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. vék í ræðu sinni að nokkrum atriðum sem hann persónulega gerði fyrirvara um að því er varðaði stuðning af hans hálfu og hugsanlega Framsfl. sem er forustuflokkur ríkisstjórnarinnar, leiðir ríkisstjórnina. Í því sambandi vil ég aðeins minna á það að full samstaða hefur verið um gerð þessa fjárlagafrv., það hefur verið full samstaða milli stjórnarflokkanna að ganga ekki lengra í því að reka ríkissjóð á næsta ári með halla. Þar voru stjórnarflokkarnir sammála um að finna eðlilegt jafnvægi, ná niður halla þessa árs verulega án þess að ganga of nærri skattgreiðendum eða þeim sem opinberrar þjónustu njóta með niðurskurði. Ég þykist þess fullviss að samstarfsflokkur sjálfstæðismanna í ríkisstjórn muni standa við þessa stefnu og ekki standa að útgjaldatillögum sem auka á þennan halla þegar að lokaafgreiðslu frv. kemur.

Nokkuð hefur verið rætt í þessari umræðu um aðgerðir til þess að stemma stigu við skattsvikum. Af hálfu þessarar ríkisstjórnar hefur ýmislegt verið gert í því efni m.a. til þess að styrkja skattstofur í því hlutverki með sérstökum aðgerðum og heimildum til þess að ráða víðbótarmannafla í því skyni. Samin var sérstök skýrsla um umfang skattsvika hér á landi. Hún sýndi að þau eru of mikil en þó kom fram í þeirri skýrslu að skattsvik eru síst meiri hér á landi en í öðrum Evrópulöndum og reyndar bendir flest til þess skv. þessari skýrslu að við stöndum okkur jafnvel og þær þjóðir sem best standa sig í því að innheimta skatta og koma í veg fyrir að neðanjarðarhagkerfi geti grafið um sig. Í þessari skýrslu voru nokkrar ábendingar um aðgerðir til þess að stemma stigu við skattsvikum. Þar var bent á að athuga þyrfti með refsiákvæði vegna skattsvika og af hálfu fjmrn. hefur verið óskað eftir því að dómsmrn. vinni að tillögugerð í samræmi við þetta. Bent var á nauðsyn þess að breyta einstökum ákvæðum í bókhaldslögum og af hálfu ríkisskattstjóra er verið að kanna það mál. Bent var á að hugsanlega gætu skipulagsbreytingar í skattkerfinu stuðlað að bættri innheimtu. Um það eru hins vegar skiptar skoðanir en rétt er að hafa það í huga eigi að síður. Og það sem kannske var mikilsverðast í ábendingum nefndarinnar var að það væri býsna mikilvægt í baráttunni gegn skattsvikum að fækka undanþágum í skattkerfinu. Og einmitt sú ákvörðun að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts byggir á því að fækka undanþágum stórlega og verður veigamikið skref í þessu efni. Þannig er í flestum atriðum verið að vinna í samræmi við þessar ábendingar.

Ég minni líka á eins og ég hef þegar tekið fram að þegar á þessu ári skilaði það árangri að herða viðmiðunarreglur varðandi reiknaðar tekjur atvinnurekenda og það skilaði auknum tekjum umfram það sem áætlað var. Og ég hygg að það hafi verið meira fyrir mistök að Alþfl. sendi skeyti um það að þetta ætti nú allt að endurgreiða. Ég hygg að það hafi á þeim tíma stafað af upplýsingaskorti en úr honum hefur verið bætt.

Hv. 5. landsk. þm. fór um það ýmsum orðum að frv. sem nú liggur fyrir móti enga meginstefnu að því er varðar þróun efnahagsmála eða áhrif á efnahagslífið í landinu almennt. Hann gleymdi því auðvitað þegar sú fullyrðing var sett fram að þetta frv. markar þau þáttaskil að erlendar skuldir opinberra aðila eru nú í fyrsta skipti að minnka. Hann gleymdi því auðvitað að með þessu frv. er verið að minnka ríkissjóðshallann um þriðjung. Og hann gleymdi því auðvitað að það er álit Þjóðhagsstofnunar að með þessu frv., og ef önnur útgjaldaáform Þjóðhagsstofnunar ganga upp, stefnir í viðskiptajöfnuð eða því sem næst á næsta ári. Auðvitað eru þetta mikilvæg atriði sem öll hafa áhrif á efnahagslífið í heild.

Hv. þm. minntist á ráðstefnu sem félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hélt um ríkisfjármálin og áhrif þeirra á þjóðarbúskapinn og ræðu prófessors Þorvaldar Gylfasonar sem þar var flutt. Það er alkunna að hann hefur talið að ríkisfjármálin hafi verið þensluvaldandi á undanförnum árum. Hann setti þá skoðun einnig fram í fyrra þegar fjárlög voru til umræðu en það eru auðvitað ekki allir á einu máli í þessu efni. Á þessari ráðstefnu talaði til að mynda aðstoðarforsjóri Þjóðhagsstofnunar og með leyfi forseta vil ég lesa upp úr niðurlagi erindis aðstoðarforstjórans, en það fjallaði einmitt um áhrif fjárlaga á efnahagslífið. Þar segir:

„Niðurstaðan af þessari umfjöllun um áhrif hallabúskapar hins opinbera á efnahagslífið almennt er því sú að á undanförnum árum hafi hann fremur aukið þenslu í þjóðarbúskapnum en dregið úr henni. Þessi þróun hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni, ekki síst í ljósi þeirra þrálátu vandamála sem einkennt hafa íslensk efnahagsmál þetta tímabil, verðbólgu, viðskiptahalla og erlendrar skuldasöfnunar. Aftur á móti er rétt að taka fram að síðustu áætlanir benda til þess að verulega muni draga úr lánsfjárþörf hins opinbera á þessu ári. Gildir þá einu hvort litið er á þrönga skilgreiningu þess eða í víðara samhengi, þ.e. að meðtöldum opinberum fyrirtækjum og sjóðum. Þannig virðast í fyrsta sinn um alllangt skeið allgóðar líkur á að ríkisfjármálin færist nær því marki að stuðla að bættu jafnvægi í efnahagsmálum. Þetta yrði mikilsverður árangur ekki síst þegar þess er gætt að nú stefnir í verulegan hallarekstur á ríkissjóði vegna kostnaðarauka í tengslum við kjarasamninga fyrr á árinu.“

Þetta voru ummæli aðstoðarforstjóra Þjóðhagsstofnunar. Nú er það svo að Alþfl. hefur ekki, að minnsta kosti ekki upp á síðkastið, sýnt þeirri stofnun óvirðingu. Þvert á móti hefur hann nú sett svo mikið traust sitt á Þjóðhagsstofnun að hann hefur ákveðið að kalla forstjóra þeirrar stofnunar til þess að leiða kosningabaráttuna. Flokkurinn virðist ekki treysta formanni flokksins til þess að leiða kosningabaráttuna hér í Reykjavík og hefur kallað aðalefnahagssérfræðing og aðstoðarmann ríkisstjórnarinnar í þeim efnum til þess að leiða kosningabaráttuna. (ÓÞÞ: Nema hann ætli að reka hana.) Og það var aðstoðarforstjóri þessarar stofnunar sem komst að þessari niðurstöðu á þeirri sömu ráðstefnu og prófessor Þorvaldur Gylfason lét ummæli falla.

Auðvitað má um þessi efni deila og öllum ljóst að ríkissjóður er rekinn með halla. Spurningin er auðvitað sú hversu stórt skref er hægt að stíga á næsta ári til þess að stefna í átt að jöfnuði án þess að skera svo niður þjónustu ríkisins í einu vetfangi að það komi alvarlega niður á þeim sem þeirrar þjónustu njóta eða leggja meiri skatta á borgarana í landinu. Og við höfum fundið þessa leið. Við náum hallanum niður um þriðjung. Við komumst hjá því að hækka skatta sem hlutfall af landsframleiðslu. Við komumst að því marki að lækka útgjöldin sem hlutfall af landsframleiðslu. Við náum því marki að erlendar skuldir eru ekki að aukast heldur eru þær að minnka. Og það er mat Þjóðhagsstofnunar að ef önnur útgjaldaáform á næsta ári standast skv. þjóðhagsáætlun eigi að vera mögulegt að ná viðskiptajöfnuði.

Á þessu er byggt og engum dylst að auðvitað er teflt á tæpasta vað. En hér er um talsverðan árangur að ræða og ef okkur tekst á öðrum sviðum efnahagslífsins að halda útgjöldum í hófi og auka sparnað mun þetta takast, það liggur fyrir. Spurningin er auðvitað hins vegar sú hjá þeim sem gagnrýna þessa niðurstöðu: Hvaða leið vildu þeir fara? Hvar eru skattahækkanirnar sem þeir vildu leggja á til þess að ná meiri jöfnuði? Eða hvar er niðurskurðurinn sem þeir vildu beita til þess að ná jöfnuði? Það er rétt og skylt að lýsa eftir því þegar þessi gagnrýni er fram borin. En ótvírætt má fullyrða að með þessu frv. er stefnt að því að ríkisfjármálin verði virkari þáttur í því að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum en áður hefur verið.

Hv. 5. landsk. þm. vék einnig að því að fjárlagafrv. fylgja eins og oft áður ýmis önnur frv. sem mæla fyrir um tekjur og gjöld. Sum þessara frv. eru þegar komin fram og önnur koma innan skamms tíma en efni þeirra hefur í meginatriðum verið lýst og þess vegna er unnt að ræða þessi efni hér á þeim grundvelli sem fyrir liggur. Alveg á næstu dögum mun frv. um breytingar á skattalögum, tekjuskattslögum, koma fram og enn fremur frv. sem lýtur að aukinni tekjuöflun vegna álags á innflutt eldsneyti. Síðan eru, eins og lýst hefur verið, að koma fram tillögur um nýtt kerfi til innheimtu á óbeinum sköttum, virðisaukaskattur í stað söluskatts. En eins og menn vita tekur allnokkurn tíma að koma þeim breytingum í framkvæmd eftir að lög hafa verið samþykkt, þannig að ekki er ráðgert að sú breyting taki gildi fyrr en í byrjun árs 1988. Hins vegar er að því stefnt að á næsta ári taki ný tollskrá gildi og svo mun væntanlega verða. Og fljótlega verður hægt að leggja fram tillögur í því efni. Rétt er að taka fram að þær tillögur miða við óbreyttar tekjur frá því sem þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir varðandi tolltekjur og vörugjaldstekjur.

Hv. þm. fullyrti að ríkið ætlaði sér með þessu frv. stærri hlut þjóðartekna en áður. Þetta er alrangt. Það kemur skýrlega fram í athugasemdum með frv. að útgjöld ríkisins í hlutfalli af landsframleiðslu eru að minnka úr 27,4% niður í 27% þannig að fullyrðingin hefur við engin rök að styðjast. Menn geta kannske talað svona á lokuðum fundum hjá Alþfl. og látið klappa fyrir sér fyrir vikið en það þýðir ekki að koma með svona málflutning inn á hið háa Alþingi þegar menn hafa fjárlagafrv. með öllum þessum upplýsingum undir höndum.

Hv. 5. landsk. þm. vék einnig að því að til lítils væri að auka framlög til skólabygginga þegar fólk fengist ekki til þess að kenna í skólunum. Mér skildist helst að hann væri að taka undir þann áróður að fólk væri að flýja út úr skólunum í stórum stíl. Ef horft er á tölur um fjölda opinberra starfsmanna kemur í ljós að opinberum starfsmönnum innan BSRB hefur ekkert fjölgað frá síðasta ári. Þeir voru 9728 á síðasta ári og eru það enn á þessu ári. Hins vegar hefur orðið nokkur fjölgun háskólamenntaðra manna. Þeim hefur fjölgað úr 2639 í 2678. Ef við horfum hins vegar á kennarana, sem hv. þm. sagði að fengjust nú ekki til þess að starfa í skólunum sem er verið að byggja, er rétt að minna á að háskólamenntaðir kennarar í framhaldsskólum voru 641 1984, eru 736 núna. Í grunnskólunum voru þeir 177 1984 en eru 254 núna. Og innan Kennarasambandsins voru þeir í grunnskólum 2392 1984 en eru núna 2443 og í framhaldsskólum voru kennarar innan Kennarasambandsins 238 en eru nú 255 þannig að þessi fullyrðing um að kennarar séu að hlaupa út úr skólunum fær auðvitað ekki staðist frekar en flest annað sem hv. þm. minntist á í ræðu sinni.

Ég get hins vegar tekið undir að því er varðar áhyggjur hans af fjármálum Pósts og síma að þau eru auðvitað erfið. Það kemur fram í athugasemdum með frv. Eigi að síður þótti rétt að miða við að ríkissjóður fengi eins og fjárlagafrv. þessa árs gerði ráð fyrir nokkrar tekjur af þeirri starfsemi. Auðvitað má setja á langar ræður um það álitaefni hvort opinber fyrirtæki eigi að skila ríkissjóði einhverjum hagnaði. Það ætla ég ekki að gera að þessu sinni en mér er ljóst að Póstur og sími á við nokkurn fjárhagsvanda að etja sem ekki verður komist hjá að horfa á.

Hitt er annað með útvarpið. Það hefur farið nokkuð hraðar í framkvæmdum en lánsfjárlög hafa gert ráð fyrir og hefur verið að byggja mikla höll hér í Reykjavík. Ekki veit ég hvort sú mikla hallarbygging þjónar sérstaklega hagsmunum landsbyggðarinnar. Ég hef ekki orðið var við það. Mér er tjáð af fróðum mönnum til að mynda að það offors sem sumir stjórnenda Ríkisútvarpsins beittu þegar samkeppnin fór í gang og hv. 5. landsk. þm. var aðalforustumaður fyrir með því að breyta fréttatímum og þar fram eftir götunum hafi leitt til þess að Ríkisútvarpið hafi misst verulegar auglýsingatekjur. Þegar ríkissjónvarpið fór að sjónvarpa fréttum á aðalauglýsingatíma hljóðvarpsins á kvöldin missti hljóðvarpið auðvitað auglýsingatekjur. Mér er tjáð að þetta hafi einnig haft áhrif á auglýsingatekjur sjónvarpsins í kvölddagskrá. Þarna geta þeir sjálfum sér um kennt sem fóru fram með mestu offorsi vegna nýrrar samkeppni. Það þarf ekki að vera að skella þeirri skuld á aðra.

Hv. þm. vék einnig að þeirri ákvörðun að fella niður gjöld af svokölluðum afruglurum sem nýja sjónvarpsstöðin byggist raunverulega á. Það var álit kunnugra manna að sú heimild sem er í fjárlögum á þessu ári til þess að fella niður gjöld af dreifikerfi taki til þessa atriðis einnig og á því var ákvörðunin byggð. Hún hefði auðvitað ekki verið tekin ef menn hefðu ekki talið og túlkað ákvæðið á þann veg að lagaheimildin væri fyrir hendi með þessum hætti.

Ég ætla ekki að fara að setja á langar umræður um útvarpsmál þó að hv. 5. landsk. þm. komi þeim að í nánast öllum ræðum sem hann flytur burtséð frá því hvert umræðuefnið er. Hann er hins vegar ákaflega sár yfir því að það er stundum minnt á andstöðu Alþfl. við frjálst útvarp. Hún var ekki svo lítil hér á hinu háa Alþingi á sínum tíma. Þjóðin fagnar þessari breytingu og ég skil að það er ósköp erfitt fyrir Alþfl., sem stundum er að tala um að hann sé ekki kerfisflokkur, að sitja uppi með það að hafa þvælst fyrir því að þessi réttarbót náði fram að ganga. Og þingtíðindin bera það ótvírætt með sér. Það vill svo til að það var nafnakall þegar frv. var borið undir atkvæði í Ed. og þingtíðindin bera það ótvírætt með sér að hv. 5. landsk. þm. greiddi atkv. gegn frv. Hann getur talað um það að hann sé í hjarta sínu með frjálsu útvarpi en það eru athafnirnar sem skipta máli. (Gripið fram í.) Hv. þm. var ekki að sitja hjá af því að hann væri óánægður með tæknileg atriði frv. eins og kannske hefði verið eðlilegt ef einhver útfærsluatriði eða tæknileg atriði í frv. hefðu ekki fallið honum í geð. Þá hefði kannske verið eðlilegt að sitja hjá. En þeir einir greiða atkvæði gegn svona frv., hvað sem þeir segja í útskýringum, sem í hjarta sínu vilja koma í veg fyrir að útvarpið yrði frjálst og það gerði hv. þm. mjög rækilega og reri að því auðvitað öllum árum að frv. næði ekki fram að ganga og varð hinn reiðasti við þegar það varð. Og auðvitað væri ekkert frjálst útvarp í dag ef fyrir það hefði verið brugðið fæti hér á hinu háa Alþingi og það munaði ekki miklu að það tækist. En neiið sem hv. þm. sagði við afgreiðsluna er staðfest í þingtíðindum og hann getur ekki undan því hlaupist þó að ég skilji að það sé ósköp erfitt þegar flokkur eins og Alþfl. er að ganga til kosninga að þurfa að sitja uppi með það að hafa barist gegn þessu.

Hv. 5. landsk. þm. vék einnig að, og það kom mér verulega á óvart, svokölluðum tillögum Alþfl. við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári. Þeir hafa mikið fjallað um þessar tillögur, haldið um þær langar ræður hér á Alþingi. Ég held að forustumennirnir hafi gert víðreist um landið til þess að segja frá þessum miklu tillögum og skýra þjóðinni frá því hvernig væri nú komið í þjóðfélaginu ef Alþingi hefði samþykkt þessar tillögur. Þá væri nú allt annað uppi á teningnum. Þá væri ekki hallarekstur á ríkissjóði, þá hefði nú aldeilis verið hægt að auka tryggingabæturnar, auka framlögin til húsnæðismálanna og þá væri nú skattakerfið réttlátara og allt þetta. Allir þekkja þessar ræður. Niðurstaðan úr þeim öllum hefur verið þessi: Þá væri ekki halli á ríkissjóði, þá væri ríkissjóður virkilegur þátttakandi í því að ná jöfnuði í efnahagslífinu. Það hefur verið lokastefið í öllum þessum ræðum.

Hvað segir úttekt á þessum tillögum? Niðurstaðan er sú, þegar allt er dregið saman, að hallinn væri 478 millj. kr. meiri ef þetta hefði allt verið samþykkt. Þeir ætluðu að auka tekjur ríkisins af söluskatti um 2800 millj. kr. rúmar. 2800 millj. átti að taka inn í auknum söluskattstekjum. Það voru tillögur Alþfl. Það var fyrsta upphafskerfisbreytingin. Þeir ætluðu m.a. að gera það með því að fækka undanþágum í þessu kerfi sem hefði leitt til enn verri uppsöfnunarvandamála en söluskatturinn gefur þó í dag. Það hefði leitt til meiri mismununar á milli atvinnugreina og auðvitað hækkunar á vöruverði. Svo ætluðu þeir að stórhækka eignarskattana sem er uppáhaldsviðkvæði þeirra, einkanlega þó á atvinnufyrirtækjum. Þeir töldu að atvinnureksturinn byggi við þær aðstæður að það væri sérstaklega auðvelt að hækka eignarskatt á atvinnufyrirtækjum, sennilega sérstaklega á fiskvinnslufyrirtækjum. Þeir ætluðu að hækka launaskattinn og svo mætti lengi telja. Sumt ætluðu þeir að lækka. Þeir ætluðu að lækka tekjuskattinn um 930 millj. kr. og vörugjaldið um 330, en í heild ætluðu þeir að auka tekjur ríkisins um 2300 millj. kr. rúmar. 2300 millj. var ný heildarskattheimta í tillögum Alþfl.

Síðan ætluðu þeir að halda veislu. Þeir ætluðu að auka lífeyristryggingarnar um 2200 millj., sjúkratryggingarnar um tæpar 800 millj. Þeir ætluðu að auka framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna um 950 millj. og Lánasjóðs ísl. námsmanna um 225 og þannig mætti lengi telja. Þeir ætluðu að afnema niðurgreiðslur, 978 millj., bara afnema það á einu bretti og hækka þar með vöruverð að sama skapi á brýnustu neysluvörum almennings. Það var ein höfuðtillagan. Niðurstaðan er sú að gjöldin áttu að aukast um 2805 millj. skv. þessum tillögum en tekjurnar um 2327 og niðurstaðan aukinn halli upp á 478 millj. kr. Nú skora ég á forustumenn Alþfl., formann flokksins sérstaklega, að fara nú í fundaherferð um allt landið í vetur og segja þjóðinni sannleikann um þessar miklu kerfisbreytingartillögur, segja þjóðinni satt og rétt frá því hvað í þessum tillögum fólst. Það væri athyglisvert. Svo gæti hv. þm. pantað skoðanakönnun í Helgarpóstinum á eftir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um ræður hv. stjórnarandstæðinga sem hafa talað eða gera að svo stöddu fleiri athugasemdir við þann málflutning sem þeir hafa fært fram.