16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4276 í B-deild Alþingistíðinda. (3972)

321. mál, vaxtalög

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Örfá orð. Ég hef flutt brtt. um að 12. gr. í frv. til vaxtalaga verði endurorðuð. Hún er svona í frv.:

„Áfallnir dráttarvextir skulu Lagðir við höfuðstól skuldar og nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en 12 mánuði. Aldrei skal reikna slíka vaxtavexti oftar en á 12 mánaða fresti.“

Ég legg til að greinin verði þannig orðuð: Óheimilt er að bæta dráttarvöxtum við höfuðstól skuldar og mynda þannig nýjan höfuðstól sem vextir skulu reiknast af.

Ekki skal ég hafa um þetta mörg orð. En með tilskipan frá 1859, konunglegri sjálfsagt, var óheimilt að bæta vöxtum við höfuðstól og þar til Seðlabankinn ákvað annað 1979 og 1985 að breyta þessari reglu.

Það er óþarfi að hafa um þetta mörg orð.

Við höfum verið að ræða hér um húsnæðismál lengri vetrar. Við höfum verið að ræða um erfiðleika skuldara og ég ætla fyrir alla muni að biðja menn að fara ekki að brigsla mér um að ég ætli að fara að halda einhverri verndarhendi yfir þeim. En það sem ég hef í hyggju með þessari till. er að fjöldi fólks lendir í vanskilum og ef dráttarvextir koma ofan á dráttarvexti í allri þeirri skuldasúpu sem stór hluti almennings stendur í er með þessu verið að staðfesta hækkun vaxta. Mér finnst nóg af slíku. Þó Seðlabankinn hafi illu heilli tekið þetta upp eru mörkin ákaflega skýr um afstöðu til þessa máls. Bankar eru með því, en dómstólar og lögfræðingar eru almennt á móti því að bæta dráttarvöxtum við höfuðstól skuldar og mynda þannig nýjan höfuðstól sem vextir skulu reiknast af. Ég er að reyna að draga úr vaxtafarganinu með þessari till. og ég vildi biðja hv. þm. að láta mig ekki verða einan á bát með þessa tillögu.