30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög 1987

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Það er að vísu mjög skiljanlegt að hæstv. fjmrh. skuli standa hér í ræðustól á þeim degi sem hann hefur framsögu fyrir fjárlögum sínum og auglýsa eftir tillögum um betri hugmyndir. Það er skiljanlegt þegar jafnhugmyndasnauður pappír liggur á borðum okkar og þessi fjárlög eru. En vegna síðustu orða hæstv. fjmrh. leyfi ég mér að gera smáathugasemd.

Fjmrh. segir: Alþfl. vill hafa hallann miklu meiri. Alþfl. lagði fram tillögur í fyrra sem hefðu þýtt aukningu á rekstrarhalla um 478 millj. kr. Um þetta er það að segja að það er leiðinlegt að sjá og heyra virðulegan hæstv. ráðh. standa í ræðustól og segja ósatt bæði frammi fyrir þingheimi og frammi fyrir þeim hluta þjóðarinnar sem hlustar á eða les þær umræður sem hérna fara fram. Fjmrh. styðst við plagg frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun þar sem sagt er að um sé að ræða athugun á áhrifum breytingartillagna Alþfl. við 3. umr. um fjárlagafrv. 1986 á rekstrarhalla ríkissjóðs 1987. Fölsunin liggur í því að tillögur sem Alþfl. flytur haustið 1986 eru teknar og bornar saman við frv. til fjárl. ársins 1987 eins og ekkert hefði gerst þar á milli. Sem dæmi um það hvað þessi fölsun hefur í för með sér er hægt að benda á að þar er talað um tillögur Alþfl. um framlög til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og þá er gert ráð fyrir því að menn horfi algjörlega fram hjá þeim breytingum á grundvelli fjármögnunar byggingarsjóðanna sem orðið hafa á þessu ári. (Fjmrh.: Það gerði Alþfl. í umræðum um lánsfjárlögin í Ed.) Með leyfi, hvenær við lánsfjárlögin? (Fjmrh.: Þegar þau voru til umræðu í Ed.) Núna? (Fjmrh.: Núna, já.) Nei, Alþfl. horfði ekkert fram hjá þeirri breytingu sem orðið hafði á fjármögnun sjóðanna í umræðum um lánsfjárlög. Það er líka út í hött. Enda erum við að tala um tillögurnar sem gerðar voru við fjárlög 1986 og verið er að bera saman við fjárlög núna.

Með þessu móti, einföldum fölsunum og ósannindum, er auðvitað hægt að framleiða hverja þá niðurstöðu sem menn vilja. Það breytir því ekki að þegar þessar tillögur voru lagðar fram var fengið mat á þeim hjá Fjárlaga- og hagsýslustofnun og niðurstaða þess mats sýndi þá miðað við þáv. frv. til fjárl. og miðað við þáv. tillögur Alþfl. og miðað við þáv. verðlagsforsendur að rekstrarafgangur ríkissjóðs yrði um 1,2 milljarðar kr.

Síðan til þess að styðja mál sitt og röksemdafærslu sína um hugmyndasnauðan málflutning stjórnarandstöðu heldur fjmrh. áfram að kalla á tillöguflutning stjórnarandstöðunnar, en staðreynd er að þessi málflutningur hans sýnir náttúrlega mjög glögglega að hann hefur engan áhuga á þeim tillöguflutningi frekar en hann hefur nokkurn áhuga á tillöguflutningi annarra manna, jafnvel þeirra sem standa honum miklu nærri og þá á ég við tillögu t.d. ungra sjálfstæðismanna um ráðdeild í ríkisrekstri sem honum eru fullkunnugar en hann hefur að því er ég best veit lítið tillit tekið til. En ég kem að því síðar.

Til þess að sýna félagslega góðvild þessarar ríkisstj. segir fjmrh. að hlutur menntamála hafi vaxið úr 15% í 16,1% milli fjárlagagerða. Þetta er mikil rausn þegar hugsað er til þess að skv. málflutningi Finns Geirssonar, eins af stuðningsmönnum þessarar ríkisstjórnar, kemur fram að hlutur velferðarkerfis atvinnufyrirtækjanna mun vera um 30%, mældur á sömu mælistiku og beri menn það þá saman við þennan hlut menntamála sem fjmrh. er að stæra sig af. Eitthvað kom það við kaunin á hæstv. fjmrh. að hafa fengið skeyti frá Alþfl. vegna þess að hafa ekki staðið við sín fyrirheit um lækkun tekjuskatts og hann reyndi að kasta ábyrgðinni af þessari óhóflegu skattheimtu sinni yfir á skattstjóra og embættismenn eins og þeir réðu því hver skattvísitalan væri og eins og þeir réðu yfir höfuð ákvörðunum og framkvæmdum ríkisstjórnar. Auðvitað var fjmrh. í lófa lagið að breyta skattvísitölunni þegar sýnt var að hún mundi skila miklu meiri tekjum en menn höfðu upprunalega gert ráð fyrir. Hæstv. fjmrh. getur ekki snúið sig út úr þeirri staðreynd að hann hafði öll tök til þess. Og af því að hann ekki vildi það, vegna þess að hæstv. fjmrh. er eftir allt saman enn einn ríkisrekstrarpostulinn sem stendur við að stjórna þessu landi, hefur hann einfaldlega gengið á bak þeirra orða þar sem hann hafði lofað kjósendum því að draga úr tekjuskattsinnheimtu og efndi það einfaldlega með því að stórauka hana.

Hæstv. fjmrh. finnur líka mikla þörf fyrir að reyna að réttlæta sig og gerðir sínar og orð vegna ummæla Vinnuveitendasambandsins og fullyrðir hér að Vinnuveitendasambandið sé í fyrsta sinn á löngum ferli að segja ósatt eða fara með rangt mál og það verður vonandi í síðasta sinn. Ég held að það dyljist engum, sem hefur hlustað á þessa umræðu og röksemdafærslu beggja aðila, að Vinnuveitendasambandið fer þarna algerlega með rétt mál. Auðvitað er um útgjaldavanda að ræða en ekki tekjuvanda, eins og hæstv. fjmrh. er að reyna að telja þjóðinni trú um til að reyna að draga úr þeirri stöðu, sem hann er kominn í, að vera hreinlega lentur úti á köldum klaka með þennan ríkisrekstur sinn. Auðvitað er staðreyndin sú að ríkisstjórnin hleypti launaskriðinu inn í ríkisbúskapinn gersamlega án þess að setja því nokkrar hömlur, algerlega án þess að sýna þá ráðdeild sem þeir sífellt hafa verið að stæra sig af og sífellt að lofa fólki. Og við spyrjum bara: Ráðdeild? Hvenær og hvernig?

Það duldist engum þegar samningarnir voru gerðir í vetur að þeir aðilar sem að þeim stóðu utan ríkisstjórnar, þá á ég við aðila vinnumarkaðarins, gengu út frá því sem gefnu að þeir sem færu með ríkisfjármálin sýndu aðhald og ráðdeild í rekstri á móts við þær fórnir sem þeir voru að færa. Staðreynd er að ríkið gerði það ekki. Staðreynd er að ríkið hélt áfram að pusa út peningum og fjármunum aðhaldslaust eins og það gerir. Þess vegna er þetta ekki tekjuvandamál, eins og hæstv. fjmrh. vill halda fram, heldur útgjaldavandamál. Ástæðan fyrir því að hann neitar því að þetta sé útgjaldavandamál er sú að þá ber hann ábyrgð á því, en með því að kalla það tekjuvandamál er hægt að reyna að kasta því ryki í augu fólks að það séu einhverjir aðrir sem beri ábyrgð á því.

Síðan segir hæstv. fjmrh.: Menn eru að grynnka á skuldunum. Ég vildi skilja hann þannig að með því væri hann að halda því fram að hann væri og þessi ríkisstjórn að grynnka á skuldunum. Í þjóðhagsáætlun á bls. 30 eru tvær litlar töflur þar sem spáð er um árlega aukningu landsframleiðslu og erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu til næstu ára, þ.e. árin 1988, 1989, 1990 og 1991. Með því að árleg aukning landsframleiðslu verði um 2,6% á ári hverju næstu fjögur ár eftir komandi ár má reikna með því að viðskiptajöfnuður verði 0-0,1% af landsframleiðslu, að erlendar skuldir minnki á þessum fjórum árum úr 45% af landsframleiðslu niður í 38% og að greiðslubyrði sem hundraðshlutatala af útflutningstekjum lækki úr 17,3 niður í 14,8%. Þetta allt saman gerist ef ytri skilyrði halda sér eins og þau eru í dag, þ.e. við hagstæðustu ytri skilyrði. Ef þau skilyrði breytast með einhverjum hætti til hins verra, ef árleg aukning landsframleiðslu er mismunandi milli áranna næstu fjögur árin, ýmist neikvæð eða jákvæð, má alveg eins gera ráð fyrir því að greiðslubyrði sem hlutfall af útflutningstekjum verði meiri 1990-1991 en hún er í ár, að viðskiptajöfnuðurinn geti jafnvel farið niður í -6% af landsframleiðslu og að erlendar skuldir vaxi úr 46% af landsframleiðslu upp í 57.

Það sem þessar tvær litlu töflur segja okkur er það að þeir sem hér eru að spá reikna með því að við stjórnvölinn sitji sömu hugmyndasnauðu stjórnvöldin og sitja núna, þ.e. þeir gera aldrei neitt og þeir gera ekki neitt til að breyta stöðu ríkisins. Ef þeir ekki gera neitt hafa ytri skilyrði svo gífurlega mikil áhrif á afkomu okkar. Ef hægt er að finna einhvern rökstuðning fyrir því að það þurfi að taka rækilega til í stjórnkerfinu og það þurfi þá sérstaklega að taka til í þeim hluta sem snýr að fjárlögunum, þ.e. að breyta fjárlagagerðinni gersamlega, breyta markmiðasetningunni, breyta vinnubrögðunum og flytja ákvarðanavald og ábyrgð á fjárlögunum til í þessu þjóðfélagi þannig að þau séu ekki öll á einni hendi, ef hægt er að finna dæmigerðari rökstuðning fyrir því annan en þennan hugsa ég að það sé vandleitað því að þessar tvær litlu töflur segja í raun og veru: Við verðum að breyta því hvernig við stjórnum því ef við ekki breytum því erum við algerlega háð veðri, vindum, hita sjávar og þar fram eftir götunum og þá skiptir ekki nokkru máli hvaða stjórnvöld sitja hér. Ef við hegðum okkur næstu fjögur, fimm árin eins og við höfum gert, ef við breytum ekkert til, getum við verið komin með landið á kaf, botnlaust, í skuldir eftir fjögur ár eða við getum hugsanlega verið að upplifa gullið góðæri. En það er þá bara vegna þess hvernig ytri skilyrði hafa verið.

Sem dæmi um hvað lítið mark er takandi á því plaggi sem við erum að tala um hérna er t.d. það að hæstv. fjmrh. segir: Ný tollskrá tekur gildi á næsta ári. Ég var ekki alveg viss um hvort ég hafði heyrt rétt, en tollskrá er lög sem verður að samþykkja hér á þingi og tollskráin er líklega einhver viðamestu og flóknustu lög sem við fáum upp í hendurnar einfaldlega vegna þess hversu þetta er umfangsmikið verk. Og að mörgu þarf að gæta og að mörgu þarf að huga þegar farið er í gegnum þessi lög. Ég get nefnt sem dæmi að það eru um tvö ár síðan frv. til umferðarlaga, sem er snöggt um minni bálkur, var lagt fyrir þingi og það er enn þá í meðhöndlun þingsins og allsendis óvíst hvort það verður afgreitt á þessu ári. Að fullyrða að ný tollskrá taki gildi hér á næsta ári er hreint og beint eins og að segja að hæstv. fjmrh. ætli einfaldlega að rúlla yfir þingið þessum lögum algerlega án tillits til þess hvaða skoðanir þingið hefur á þeim.

Þetta er því miður enn þá og enn og aftur aðaleinkennið á frv. af því tagi sem við erum nú að fjalla um, þ.e. fjárlögunum. Þau eru í raun og veru ekkert annað en loðin stefnumörkun. Þau tengjast og eiga tilveru sína í flutningi fjölda annarra lagafrv. sem ekki eru komin fram þegar fjárlögin sjálf eru rædd. Ég held að það sé vel hægt að taka undir við Vilhjálm Egilsson sem tók fjárlögin fyrir, en Vilhjálmur Egilsson er, eins og menn vita, ungur og upprennandi maður í sama flokki og fjármálaráðherra og vegna þess að menn óttuðust að hann væri of mikið upprennandi sameinuðust menn um að sjá til þess að hann kæmist ekki í framboð í Reykjavík og eru jafnvel að hugsa um að flytja hann í útlegð norður á land. Hann metur fjárlögin þannig að þau séu nánast marklaust plagg því að í þeim séu svo gífurlega margir óvissuþættir að ekki sé hægt að líta á fjárlögin öðruvísi en sem veika viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi bendir hann á að allar áætlanir manna um áhrif skatta á tekjur ríkisins standist yfirleitt aldrei. Annars vegar bendir hann á að útgjöld séu alltaf vanáætluð og það þrátt fyrir þá miklu endurbót sem orðið hefur í vinnubrögðum, á framsetningu og undirbúningi fjárlaga. Auðvitað liggur gallinn í vanaáætlununum. Hann liggur ekki í störfum þeirra einstaklinga, og þá á ég við embættismanna, sem að þessu plaggi vinna. Hann liggur í því að menn leita ekki réttra upplýsinga. Hann liggur í því að menn eiga þarna eins og svo oft áður við stjórnmálamenn að eiga, stjórnmálamenn sem helst ekki vilja láta binda sig um of og leyfa sér að fara út fyrir alla þá ramma sem þeir sjálfir hafa sett sér. Síðan segir hann að þriðji veiki hlekkurinn séu einfaldlega þær efnahagslegu forsendur sem menn gefi sér sem yfirleitt byggist á pólitískri bjartsýni.

Enn fremur segir sami maður, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt er næsta öruggt. Útkoma á ríkissjóði verður ekki eins og sagt er í fjárlagafrv. Við skulum skoða nokkrar tölur“, segir hann, „sem ættu að færa okkur heim sanninn um það. Þessar tölur sýna fyrir A-hluta ríkissjóðs fyrir 1984 niðurstöðutölur fjárlagafrv., haustáætlun og útkomu á greiðslugrunni og svo niðurstöðutölur rekstrarjafnaðar á ríkisreikningnum. Fyrir árið 1985 sjáum við svo niðurstöðutölur fjárlagafrv. og haustáætlun.

Lítum fyrst á áætlun 1983. Þá er lagt upp með 82 milljónir í plús í fjárlagafrv. Haustáætlun um afkomu ríkissjóðs á greiðslugrunni er upp á 978 milljónir í mínus og útkoman á greiðslugrunni er 1498 milljónir í mínus. Niðurstaða rekstrarjafnaðar á rekstrargrunni í ríkisreikningi er 1435 milljónir í mínus.

Á árinu 1984 er lagt upp með 9 milljónir í plús í fjárlagafrv., haustáætlunin er 70 milljónir í plús og útkoman á greiðslugrunni er 783 milljónir í plús. Niðurstaða á rekstrargrunni er svo 1614 milljónir í plús.

Fyrir árið 1985 er lagt upp með 532 milljónir í mínus, sem er orðið 1859 milljónir í mínus á haustáætlun, og fyrir 1986 er byrjað með 122 milljónir í plús.

Þessar tölur sýna“, segir þessi maður, og ég minni menn á að hér er ekki maður úr Alþfl. að tala heldur gallharður sjálfstæðismaður, „að margt á eftir að breytast áður en yfir lýkur fyrir árið 1986. Á hvorn veginn þessar breytingar verða er ekki hægt að segja um á þessari stundu.“

Þessi maður, sem hér er verið að vitna í, átti mjög ríkan þátt í gerð samninganna í vetur og það verður að viðurkennast að hann sýndi þar mjög mikla bjartsýni miðað við það mikla raunsæi sem hann sýnir í þessu erindi sínu. En það er líka mjög greinilegt að bjartsýni hans stóðst ekki. Hann trúði eða bara vonaði að hæstv. fjmrh., þessi nýi fjmrh. sem við fengum í fyrra og allir bjuggust við svo miklu af, mundi sýna þá ráðdeild í ríkisrekstri sem fyrrverandi fjmrh. ekki sýndi. Fyrrverandi fjmrh., sem bar ábyrgð á fjárlögum ársins 1984 og 1985, sýndi ekki ýkjamikla ráðdeild í ríkisrekstri og enga hugkvæmni í framsetningu fjárlaga, hvað þá að hægt væri að væna hann um kerfisbreytingar, en þessi nýi fjármálaráðherra tók sig til og bætti um betur eins og sagt er. Sú stóra breyting sem hann stóð að er ekki kerfisbreyting í meðferð ríkisfjármála. Nei, hún er sú að skapa halla, áður óþekktan halla um nokkurra ára skeið, í ríkisrekstri, halla sem virtir menn, virtir sérfræðingar á þessu sviði hafa kallað þensluhalla og segja: Þessi fjárlög eru verðbólgufjárlög. Hvers vegna? Ef við göngum út frá því að þessi halli sem gerist umfram þá lánsfjárþörf sem gera verður ráð fyrir vegna lántöku, ef við segjum að þessi þensluhalli, þessi umframlántaka sé 3,5 milljarðar kr., eins og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur heldur fram, og ef við berum það svo saman við þær staðreyndir sem hinn hagfræðingurinn, Vilhjálmur Egilsson, bendir á, þá getum við notað röksemdafærslu Vilhjálms þar sem hann segir: Eitt er næsta öruggt. Útkoman á ríkissjóði verður ekki eins og sagt er í fjárlagafrv. Það þýðir að þessi tala, þessi 3,5 milljarða lántaka umfram það sem nauðsynlegt var, á örugglega eftir að hækka verulega. Ég yrði ekkert mjög hissa þó hún hækkaði um 50% og ég yrði jafnvel ekkert hissa þó hún hækkaði um 100% því það er greinilegt að þessir peningar eru þannig til komnir að menn ætla sér að nota þá í það sem almennt er kallað gæluverkefni ríkisins, gæluverkefni stjórnmálamanna.

Það sem er þó kannske sorglegast þegar þetta er skoðað, og þá á ég við fjárlög, lánsfjárlög og öll góðu áformin sem þessi ríkisstjórn, eins og kannske flestar aðrar, lýsir yfir á tyllidögum og í ræðum hér á þingi, er að þau lýsa kannske mest mjög mikilli vanvirðu á löggjöf. Það lýsir þar af leiðandi líka mikilli vanvirðu á því starfi sem hér fer fram og því kannske engin furða að menn kvarti undan því að Alþingi hafi sett niður í hugum fólks. Þegar ríkisstjórnin virðir ekki þau lög sem samþykkt eru hér á Alþingi, og þá á ég við þegar hún ekki stendur við lögin, þegar menn fara út úr og fram úr þessum lögum eins og um bráðabirgðaáætlanir væri að ræða, er það vanvirða við lög.

Það var greinilegt á málflutningi hæstv. fjmrh. að mjög höfðu farið í taugarnar á honum tillögur Alþfl. frá í fyrra við fjárlög, brtt. eða þær yfir 70 till. sem lagðar voru fram sem brtt. við fjárlögin og mátti í raun og veru líta á sem nokkurs konar fjárlög til að hafa áhrif á það kerfi sem menn höfðu unnið eftir og vinna enn eftir og greinilega hafa ekki nokkurn áhuga á að breyta. Þessi tilraun til kerfisbreytingar virðist fara fádæma mikið í taugarnar á hæstv. fjmrh. Og maður spyr hvað það er sem ýfir svona á honum hárin.

Ef maður hefur fyrir því að lesa Morgunblaðið t.d. frá miðvikudegi 4. desember 1985 á maður nokkuð auðvelt með að átta sig á hvað það er sem var svo óþægilegt í till. Alþfl., svo óþægilegt að ráðherrann kinokar sér ekki við að koma hér í stól og snúa út úr þessum till. með hreinum og beinum strákslegum útúrsnúningi. Ástæðan fyrir því að þetta fer svona mikið í taugarnar á honum er að það er verið að minna hann á hvaðan hann kemur. Það er verið að minna hann á að bak við hann standa dyggir stuðningsmenn, ungir sjálfstæðismenn, og bíða með brostin augu eftir því að hann fari að gera eitthvað af því sem hann hefur svo ótal, ótal sinnum gefið undir fótinn með að hann ætli að gera í þessum ríkisrekstri.

Það væri, herra forseti, of langt mál að lesa þessar tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna um ráðdeild í ríkisrekstri. Ég læt mér nægja, með leyfi hæstv. forseta, að tæpa á nokkrum atriðum í þessum tillögum. Í fyrsta lagi er spurningin um markmið þeirra. Það er skemmtileg og fersk hugmynd að hugsa sér að leggja fram fjárlög sem hafa eitthvert markmið annað en það endilega að bókhaldið stemmi, sem er ekkert annað en sjálfsagt tæknilegt atriði, heldur að menn setji fram fjárlög með raunverulegum tilgangi og markmiðum. Fyrsta markmiðið er að draga úr ríkisumsvifum. Annað markmiðið er að koma á skýrri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Þriðja verkefnið er að auka kostnaðarhlutdeild notenda opinberrar þjónustu. Og loksins að minnka skattaálögur og auka þar með kaupmátt heimilanna í landinu. Síðan koma tillögur upp á nokkrar síður um hvaða breytingar megi gera á fjárlögum 1986, því þetta er skrifað í jólamánuði á síðasta ári, og segir m.a. um þessar tillögur að í fjárlagafrv., sem lagt var fram á síðasta ári, sé reiknað með því að innheimtur tekjuskattur einstaklinga brúttó nemi 3800 millj. kr. á næsta ári. Auðvitað vitum við að það voru tölur sem breyttust mjög mikið. En með því að nýta alla fjárhæðina sem fæst með ráðdeildartillögum ungra sjálfstæðismanna til tekjuskattslækkunar stæðu aðeins um 1200 millj. eftir af innheimtum tekjuskatti. Mundi hann þá einungis leggjast á raunverulegt hátekjufólk.

Þetta er sýnishorn um hvaða áhrif raunverulegar kerfisbreytingar, þ.e. breytingar sem felast í einhvers konar hugsjónalegri markmiðasetningu í framlagningu fjárlaga, geta haft. Og að standa svo hér í stól og snúa út úr og lýsa síðan eftir tillögum eins og engar hafi verið fluttar, það er leiðinlegur viðræðumáti og sýnir ekki að mínu mati mikla reisn í málflutningi hæstv. fjmrh.

Hvar eru t.d. hugmyndir um breytingar á skattheimtu? Eftir því sem hæstv. fjmrh. lýsti áðan eigum við í vændum einhvers konar tillögur um lagfæringar á tekjuskatti. Ég undirstrika orðið „lagfæringar“ því það er ekki um það að ræða að breyta álagningunni, það er ekki um að ræða að taka raunverulega tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið á tekjuskattsinnheimtuna heldur er enn eina ferðina verið að reyna að klóra í bakkann, að sauma enn eina bótina á þá götóttu flík sem tekjuskattskerfi okkar er orðið. Síðan eigum við líklega í vændum frv. um virðisaukaskatt, en að tala um það frv. á þessu þingi vitum við vel að er sýndarmennskan ein einfaldlega vegna þess að það er eitt af þessum frv. sem grundvallarumræða þarf að fara fram um. Það er eitt af þessum frv. sem allir stjórnmálaflokkar verða að skoða mjög vandlega. Hæstv. fjmrh. veit alveg eins vel og ég og alveg eins vel og hvert mannsbarn að menn gefa sér ekki tíma til þess á þessum kosningavetri. Öll loforð um frv. sem hugsanlega verði að lögum og hafi einhverjar breytingar í för með sér fyrir landsins þegna eru því loforð upp í ermina á sér. Hæstv. fjmrh. veit að hann á ekki eftir að sitja nema visst marga daga enn þá í sínu ráðuneyti. Hann situr ekki nema fram á hálft næsta ár. Hann þarf ekkert að standa við þessi loforð, hvað þá heldur að framkvæma nema lítinn hluta af þeim loðnu hugmyndum sem fram koma í fjárlögunum.

Menn hafa, t.d. í Alþfl., stungið upp á því, og það var reyndar samþykkt um það tillaga á síðasta flokksþingi Alþfl., að breyta tekjuskattsinnheimtu í grundvallaratriðum þannig að hætt verði við alla frádrætti sem nú tíðkast. Það er til þess að gera mönnum samhengið milli skattanna og teknanna gegnsætt þannig að menn viti einfaldlega hvar þeir standa og aðrir standa. Þá verði skatturinn sem á verði lagður bara ein prósenta á allar tekjur manna sem náð hafa ákveðnu tekjulágmarki. Þá er náttúrlega miðað við að þetta tekjulágmark miðist við framfærslu eða lífeyri og þessi eina prósenta verði líka um leið bara eitt gjald á laun manna og í þessu gjaldi séu þá líka fólgin öll þau réttindi sem menn ávinna sér núna með því að greiða allt að 15 gjöld tengd launum sem skapa þeim réttindi til orlofs og alls kyns þjónustu hins opinbera.

Nú eru þetta í sjálfu sér ekki nýjar hugmyndir því að hliðstæð skattheimta er stunduð annars staðar í veröldinni. Það sem þessi tegund skattheimtu hefur í sér fólgið er hvað hún er sáraeinföld, hún er réttlát vegna þess að menn hafa yfirsýn yfir hana og vegna þess að hún ákveður þeim mönnum sem hæstar hafa tekjurnar þyngstar byrðar og þeim sem lægstar hafa tekjurnar léttastar byrðar, öfugt við það, sem við upplifum í dag, að í sumum bæjarfélögum sem ég þekki til úti á landi - það er kannske ekki eins áberandi í Reykjavík eins og sums staðar annars staðar - greiða nánast engir skatta nema opinberir starfsmenn og þá ekki nema þá hafi skort þá hugkvæmni að koma sér jafnframt fyrir í einhvers konar sjálfstæðum atvinnurekstri til að sleppa undan skattheimtu. Menn sjá þetta kannske ekki eins vel í stórum bæjarfélögum eins og hér í Reykjavík, en úti á landi verður þetta mjög áberandi.

Til að menn hafi lauslegar hugmyndir um hvað ég er að ræða um mundi t.d. 20% skattur leggjast á segjum við allar tekjur sem hærri væru en 300 þús. kr. Það þýðir að ef maður hefði 600 þúsund kr. tekjur væri skattstofn hans 300 þús. kr. og skattur 60 þús. kr. Ef maður hefði 1200 þús. kr. í tekjur væri skattstofn hans 900 þús., skattgreiðslur 180 þús. Skattbyrði þess sem hafði hærri tekjurnar væri 15% af tekjum hans og skattbyrði þess sem hafði lægri tekjurnar yrði 10% af tekjum hans. Maður sem hefði 300 þús. kr. tekjur hefði engan skattstofn, hann greiddi engan skatt og þar af leiðandi bæri hann enga skattbyrði.

Sams konar vinnubrögð er hægt að nota við skattlagningu fyrirtækja. Það eina sem menn þyrftu að gera sér ljóst og lýsa yfir er hver áform þeirra eru með því að innheimta skatta, þ.e. hvaða tekjum ætla þeir að ná í upphæðum og hver er tilgangur þeirra með því að taka þessar tekjur. Það er akkúrat þetta grundvallaratriði sem vantar í þessi fjárlög sem við höfum hérna fyrir okkur. Menn setja einhverjar tölur á blað en við vitum að þær standast ekki, þ.e. við vitum að það verður ekki þessi tala sem menn taka í tekjur. Og við vitum líka að það verður ekki þessi tala, sem sýnd er hér í fjárlögum, sem menn leggja út. Og við vitum líka að það verður ekki þessi tala sem tekin verður að láni. Og það er þetta sem fyrst og fremst ber að gagnrýna við gerð þessara fjárlaga.

Það liggur eiginlega beinast við að segja við hæstv. fjmrh. að koma aftur og vera búinn að gera sér grein fyrir því hvað hann raunverulega er að fara fram á að við samþykkjum. Hvaða peninga ætlar hann að taka af þegnunum? Af hvaða þegnum? Og hverjum ætlar hann að skila þessum peningum aftur? Og með hvaða hætti? Eins að menn segi, ég ætla að taka þetta að láni, og taki ekki krónu meira. Þetta eru grundvallaratriði til þess að yfir höfuð sé hægt að ræða um einstaka liði þessara fjárlaga. Þessir einstöku liðir segja í sjálfu sér ekki nema mjög takmarkað vegna þess að við vitum að þeir eru álíka mikið breytingum háðir og öll fjárlögin í heild.

Þess vegna, herra forseti, hef ég ekki beint augum mínum að einstökum fjárlagaliðum, einfaldlega vegna þess að það er einmitt að færa umræðuna yfir á þann vettvang, sem fjmrh. helst og gjarnan vildi að þessi umræða færi fram, vegna þess að þar getur hann beitt hæfileikum sínum til þess að snúa út úr bæði tölum og orðum manna. Þar getur hann drekkt bæði viðmælendum sínum og sjálfum sér í umræðum um keisarans skegg. Þar getur hann líka dregið athygli manna frá þeim himinháu vanefndum sem þessi fjárlög eru vitnisburður um. Vanefndum sem einkennast af því einfaldlega að þessi fjmrh. hefur ekki og mun ekki sýna neina þá ráðdeild í ríkisrekstri sem flokksmenn hans, sem landsmenn og sem jafnvel sumir hérna inni áttu von á að hann mundi sýna þegar hann settist í ráðherrastólinn fyrir ári síðan.