30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

1. mál, fjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það væri vissulega ástæða til að gera athugasemdir við ýmislegt af því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan. Ég ætla að láta það bíða betri tíma. Vegna þess að þá hygg ég að þetta frv. hans hafi tekið á sig skýrari mynd, það verði fleira ljóst um þau tekjufrumvörp óséðu sem frv. byggir á, og það verði búið að fjalla um fjárhagsvanda ýmissa þeirra stofnana sem ég minntist á hér áðan. En ég hafði í rauninni alls ekki ætlað mér að kveðja mér hljóðs hér að nýju, en það var eitt atriði sem gerir það að ég finn mig knúinn til þess. Það var hvernig hæstv. fjmrh. fann sig í því að snúa út úr og rangtúlka afstöðu mína í atkvæðagreiðslu um útvarpslög.

Satt best að segja hefur hæstv. fjmrh. hæfileika til að koma mér á óvart. Ég verð að játa það. Og vegna þess hversu mikla áherslu hann lagði á það, hvílíka ofuráherslu hann lagði á það að ég hefði sagt nei við nafnakall um útvarpslögin, þá ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hvernig ég gerði grein fyrir atkvæði mínu við þessa atkvæðagreiðslu, þannig að ekkert fari nú á milli mála. Ég sagði, með leyfi forseta:

„Ég hugsa að vinnubrögðin í kringum allt þetta mál verði lengi í minnum höfð. Í fyrsta lagi tel ég að þau vinnubrögð sem viðhöfð voru í nefnd í Nd. muni verða í minnum höfð um það hvernig eigi ekki að starfa að málum eða hvernig eigi að starfa að málum til að skapa sem mestan glundroða í kringum þau. Nú er nærfellt víst að þetta mál verður afgreitt frá Alþingi, það horfir a.m.k. í það, með minni hluta atkvæða þannig að þessi útvarpslög, sem á að fara að samþykkja, njóti ekki stuðnings meiri hluta þingsins. Mér sýnist allt stefna í það. Það er afar óheppilegt og það er afar slæmt. Ég er fylgjandi því frelsi sem þessi lög gera ráð fyrir að verði aukið frá því sem var þegar ríkisútvarp og sjónvarp hafði eitt rétt til að útvarpa og sjónvarpa. Ég er fylgjandi því að þannig skuli að því staðið. En þessi lög, sem nú er verið að samþykkja, eru þannig úr garði gerð, ég hef áður bent á það hér, að mörg ákvæði þeirra eða sum fá ekki staðist. Gildistökuákvæðin eru út í hött og rugl. Þess vegna er ekki hægt að segja já. Samviska manns segir að ef Alþingi lætur lög þessi fara frá sér með þeim hætti sem nú gerist sé það því til ævarandi háðungar. Þess vegna, herra forseti, ekki vegna þess að ég sé á móti því frelsi, síður en svo, sem lögin gera ráð fyrir, heldur vegna þess hvernig þessi lög eru tæknilega úr garði gerð, þá segi ég nei.“

Satt best að segja, herra forseti, ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta. En það verð ég að segja um málflutning hæstv. fjmrh. að ég hélt satt að segja að menn töluðu ekki svona í íslenskri pólitík lengur. Mér fannst þessi útúrsnúningur ráðherrans færa hina pólitísku umræðu mjög langt aftur í tímann og mér fannst hann satt að segja færa umræðuna og hæstv. ráðh. niður á ævintýralega lágt plan.