16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4281 í B-deild Alþingistíðinda. (3991)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur spurst fyrir um útreikninga Þjóðhagsstofnunar á efnisatriðum tekjustofnafrumvarpsins og áhrifum þeirra á einstaka tekjuhópa. Ég kannaði hvort fjmrn. hefði borist þeir útreikningar frá Þjóðhagsstofnun. Svo var ekki. Ég hafði nú laust fyrir kl. 9 samband við forstöðumann Þjóðhagsstofnunar, Þórð Friðjónsson. Hann tjáði mér að Þjóðhagsstofnun hefði unnið að þessum útreikningum. Þeir væru á lokastigi en væru ekki tilbúnir enn, en gætu orðið það væntanlega á morgun. Ég hygg að að því er þessi mál varðar sé mjög eðlilegt að þessir útreikningar komi til skoðunar, ekki síst í þeirri nefnd sem falið hefur verið að fylgjast með framkvæmd staðgreiðslulaganna, og að þingflokkum verði sendir þessir útreikningar um leið og þeir eru tilbúnir af hálfu Þjóðhagsstofnunar. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að niðurstöður þeirra muni hafa áhrif á þau efnisatriði þeirra frv. sem hér um ræðir því að af augljósum ástæðum, sem mér sýnist að menn séu nokkuð sammála um, er ekki hægt að endurmeta ákvæði frv. um skatthlutföll og fjárhæðir fyrr en álagning á þessu ári liggur fyrir, en eins og kunnugt er byggjast útreikningar Þjóðhagsstofnunar á framreikningi launa frá árinu 1985 til ársins 1987 og óyggjandi niðurstöður að þessu leyti fást ekki fyrr en álagning liggur fyrir. Ég vil fyrir mitt leyti greiða fyrir því að þingflokkarnir fái niðurstöður Þjóðhagsstofnunar um leið og þær liggja fyrir, en eins og sakir stóðu fyrir tæpum 15 mínútum átti forstjóri Þjóðhagsstofnunar síður von á því að verkinu lyki í kvöld, en því gæti lokið á morgun. Ég vænti þess að þetta verði ekki til að trufla framgang þessara mála í þinginu í kvöld, enda augljóst að það er fyrst og fremst niðurstaðan af álagningunni á þessu ári sem getur leitt til raunhæfrar endurskoðunar á þeim þáttum sem hér um ræðir.