16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (4044)

391. mál, fæðingarorlof

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd sem samdi frv. sem hér liggur fyrir um fæðingarorlof og frv. til l. um breytingu á almannatryggingalögum vegna fæðingarorlofsins þarf ég í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Eins og hæstv. heilbrmrh. gat um hafði ég nokkrar athugasemdir við þetta frv. að gera í nefndinni og nokkur afbrigði sem ég hefði viljað sjá í þessum lagafrv. sem ekki náðist samstaða um og ég vil gjarnan gera grein fyrir hér.

Með frv. sem hér liggja fyrir eru vissulega stigin veigamikil skref til að ná fram meira réttlæti í fæðingarorlofi. Tvö atriði eru þar veigamest. Það er í fyrsta lagi að réttur heimavinnandi kvenna er aukinn og í annan stað er lenging fæðingarorlofsins mikilvæg og mikil réttarbót fyrir foreldra og börn þeirra. Þó vissulega hefði ég kosið að sex mánaða lenging á fæðingarorlofi tæki gildi fyrr en hér er lagt til ber því vissulega að fagna að ákvörðun hefur verið tekin í þessu efni og sex mánaða fæðingarorlof mun verða að veruleika í áföngum á þrem árum.

Ég vil að það komi hér skýrar fram en mér fannst í máli hæstv. heilbrmrh. að fæðingarorlofsnefndin sem samdi þetta frv. taldi mjög brýnt að reyna að samræma fæðingarorlof í stað þess að hér giltu mjög misjafnar greiðslur að því er varðar konur sem vinna hjá hinu opinbera og konur á almenna vinnumarkaðnum. Þar er verulegur munur á eins og við vitum, en hið opinbera greiðir sínum starfsmönnum full laun í fæðingarorlofi jafnframt sem tryggt er að enginn opinber starfsmaður njóti lægra fæðingarorlofs en greitt er hjá almannatryggingum. Fjöldi kvenna á almenna vinnumarkaðnum þarf hins vegar að sæta því að lækka verulega í tekjum í fæðingarorlofi meðan konur hjá hinu opinbera halda fullum sínum launum. Nefndin gerði sér hins vegar ljóst að slík kerfisbreyting, að koma á samræmdum fæðingarorlofsgreiðslum, yrði vart gerð nema í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Nefndin var um það sammála og það var einhugur um það í nefndinni að rétt og eðlilegt væri að koma á samræmdum fæðingarorlofsgreiðslum í tengslum við fyrirhugaða lengingu á fæðingarorlofi. Í niðurstöðu nefndarinnar til ráðherra voru lagðir fram nokkrir valkostir um hvernig slík kerfisbreyting gæti átt sér stað. Vil ég nefna þrjá kosti sem komu fram hjá nefndinni.

Í fyrsta lagi að greitt yrði ákveðið hlutfall launa upp að ákveðnu þaki sem sett yrði líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Í öðru lagi að greidd yrðu full laun til allra eins og nú tíðkast hjá hinu opinbera. Í þriðja lagi að atvinnurekendur greiddu hver og einn sínum starfsmanni, en ættu endurkröfurétt á greiðslum að ákveðnu marki. Í tengslum við þessa kerfisbreytingu yrði stofnaður fæðingarorlofssjóður, en sjóðurinn yrði fjármagnaður í fyrsta lagi með iðgjöldum atvinnurekenda sem væru ákveðið hlutfall greiddra launa, í öðru lagi með framlögum ríkisins. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í það sem fram kom í greinargerð nefndarinnar til ráðherra um slíka kerfisbreytingu.

Nefndarmenn eru einhuga um að leggja áherslu á nauðsyn þess að koma á þeirri breytingu á fyrirkomulagi fæðingarorlofsmála sem hér hefur verið lýst. Ljóst er hins vegar að slík breyting verður ekki gerð nema í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og atvinnurekendur. Nefndarmenn telja að kanna þurfi afstöðu þeirra til þess nú þegar. Samhliða slíkri kerfisbreytingu kæmi til lenging fæðingarorlofs í áföngum.

Það er því ljóst að vilji nefndarinnar stóð til þess að koma á alhliða kerfisbreytingu í tengslum við lengingu fæðingarorlofs, en samhliða því að upp yrði tekin lenging fæðingarorlofs sætu allar konur við sama borð að því er fæðingarorlof varðar.

Nú liggur fyrir að hæstv. heilbrmrh. hefur kosið að fara aðra leið í þessu efni, þ.e. að lögfesta lengingu fæðingarorlofs án þess að fyrir liggi hvernig og með hvaða hætti væri hægt að ná fram sama rétti til fæðingarorlofs til allra kvenna á vinnumarkaðnum. Ég óttast að þar sem þannig er staðið að málum muni reynast erfiðara að tryggja öllum konum sama rétt eftir að lenging á fæðingarorlofi hefur verið lögfest og ekki síst að tryggja samfara lengingunni að konur missi ekki svo mikils í launum sem þær margar gera nú vegna barneigna.

Þegar til þess er litið að þessi frv., verði þau að lögum, eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót er það mín skoðun að hyggilegra hefði verið að málum staðið að nýta þann tíma til að reyna að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um þá kerfisbreytingu sem hér hefur verið lýst og reyna að ná samstöðu um sama rétt allra kvenna á vinnumarkaðnum til fæðingarorlofs og lögfesta síðan lengingu á fæðingarorlofi sem ég undirstrika að ekki hefði þurft að seinka lengingunni þar sem þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Í því sambandi vil vísa ég aftur til þess, sem fram kom hjá nefndinni í greinargerð til ráðherra, að nefndarmenn töldu að kanna þyrfti nú þegar afstöðu aðila vinnumarkaðarins til þess að koma á þeirri kerfisbreytingu sem hér hefur verið lýst. Vil ég í þessu sambandi spyrja hæstv. heilbrmrh. hvort fyrirhugað sé að taka upp þessar viðræður við aðila vinnumarkaðarins eins og nefndin lagði til.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það sem fram kemur í öðru þessara frv., þ.e. um breytingu á lögum um almannatryggingar. Þar kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ákvæði greinar þessarar tekur ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma er óskert laun eru greidd.“

Ég spyr ráðherra hvort hann telji að þrátt fyrir þetta ákvæði sé það tryggt í starfsgreinum eins og til að mynda hjá flugfreyjum, sem verða að leggja niður störf 3-4 mánuðum fyrir fæðingu, að þær haldi fullum rétti samkvæmt ákvæðum þessara laga. Ég spyr að gefnu tilefni þar sem í kjarasamningi flugfreyja eru ákvæði um að láti flugfreyja af störfum vegna þungunar skuli hún halda launum sínum í þrjá mánuði eftir að hún lætur af störfum. M.ö.o. eru flugfreyjum greidd full laun þótt þær láti af störfum síðustu þrjá mánuðina fyrir fæðingu. Þegar lögin um fæðingarorlof voru samþykkt 1980 þurftu flugfreyjur að standa í stappi til að fá greiðslur í sjálfu fæðingarorlofinu hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessa ákvæðis sem er í þeirra samningum um full laun þótt þær láti af störfum síðustu þrjá mánuði fyrir fæðingu. Niðurstaðan varð þó sú að þær fengu greitt fæðingarorlof samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga.

Í núgildandi lögum er ekki að finna ákvæði um að konur sem eru opinberir starfsmenn séu undanþegnar ákvæðum laganna. Það kemur einungis fram í reglugerð. Í þessu frv. á aftur á móti að binda þetta í sjálf lögin og í frv. er kveðið á um að ákvæði almannatryggingalaga varðandi fæðingarorlof taki ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga, og það er nýtt, er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma sem óskert laun eru greidd.

Í mínum huga eiga flugfreyjur þrátt fyrir þetta ákvæði tvímælalaust þann rétt að fá fæðingarorlof samkvæmt ákvæðum þessa frv. jafnvel þótt þær hafi full laun á hluta meðgöngutímans af því að þær verða að leggja niður störf eðli starfsins vegna. En vegna þess að nokkur ágreiningur var um þetta þegar núgildandi lög voru samþykkt tel ég rétt að hæstv. heilbrmrh. taki af allan vafa í þessu efni, hvaða skilningur býr að baki þessu ákvæði þegar um er að ræða stéttir eins og flugfreyjur sem verða eðli starfsins vegna að leggja niður vinnu nokkrum mánuðum fyrir fæðingu barns og halda þó fullum launum í þrjá mánuði fyrir fæðingu.

Annað atriði vil ég nefna. Það er ákvæði í frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem kveður á um að fæðist barn andvana eða ef um er að ræða fósturlát eftir 20 vikna meðgöngu greiðist fæðingarstyrkur aðeins í tvo mánuði. Ég held að það sé brýnt að það komi fram í þessari hv. deild að hér er um skerðingu að ræða frá því sem gilt hefur. Í tíð Matthíasar Bjarnasonar sem heilbrmrh. var með reglugerð kveðið á um að réttur til fæðingarorlofs væri þrír mánuðir þegar barn fæðist andvana. Þessi reglugerð var gefin út 13. febr. 1985 og endurútgefin aftur 22. sept. 1986 og þá undirrituð af Ragnhildi Helgadóttur núv. heilbr.- og trmrh., en það stendur í 5. gr. þessarar reglugerðar, með leyfi forseta: „Greiða skal fæðingarorlof í þrjá mánuði ef um er að ræða andvana burð. Sé um að ræða fósturlát eftir 20 vikna meðgöngu greiðist fæðingarorlof í tvo mánuði.“

Það er því ljóst að hér á að skerða rétt að því er varðar fæðingarorlof þegar um andvana fæðingar er að ræða frá því sem gilt hefur. Ég tel óeðlilegt að þessi réttur sé skertur frá því sem gilt hefur og lagði til í fæðingarorlofsnefndinni að þessi réttur héldist, en um það náðist ekki samkomulag.

Í hv. Ed. flutti Kolbrún Jónsdóttir brtt., en í þeim brtt. fólst að leiðrétta þetta þannig að sá réttur sem nú er, þ.e. þrír mánuðir, héldist. Ég tel að það sé nauðsynlegt að gera grein fyrir hvernig þessum brtt. reiddi af í Ed. vegna þess að ég tel að þar hafi ekki verið rétt að málum staðið og komi fram nokkurt misrétti í þessum málum ef þetta frv. verður að lögum með þeim hætti sem Ed. hefur afgreitt málið.

Í fyrsta lagi er í 1. gr. frv. til l. um breytingu á almannatryggingalögum kveðið á um fæðingarstyrk sem allar konur fá, líka þær sem eru heimavinnandi. Í 2. gr. er kveðið á um fæðingardagpeninga sem þær konur einungis fá greidda sem eru á vinnumarkaðnum. Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir lagði til að þegar um væri að ræða að barn fæddist andvana yrðu greiddir þrír mánuðir, bæði til þeirra sem eru þá heimavinnandi og eins til þeirra sem eru á vinnumarkaðnum. Einungis sú tillaga sem lýtur að fæðingardagpeningunum var samþykkt, þ.e. að þeir skuli greiddir í þrjá mánuði, en eftir stendur samt í frv. að því er varðar fæðingarstyrkinn að fæðingarstyrkur þegar um er að ræða að barn fæðist andvana er einungis greiddur í tvo mánuði. Þetta þýðir m.ö.o. að konur sem eru á vinnumarkaðnum og fæða andvana börn fá fullt fæðingarorlof samkvæmt þessum lögum í tvo mánuði, en þriðja mánuðinn fá þær aðeins fæðingarorlof að hluta til, þ.e. bara fæðingardagpeningana en ekki fæðingarstyrkinn. Þær sem eru heimavinnandi fá einungis fæðingarorlof í tvo mánuði þegar um er að ræða að barn fæðist andvana, en alls ekki þriðja mánuðinn vegna þess að það var ekki samþykkt í Ed.till. að taka inn þriðja mánuðinn varðandi fæðingarstyrkinn í þeim tilfellum sem um ræðir. Þetta tel ég mjög óeðlilegt, ekki síst þegar í ákvæði 1. gr. þessa frv. er kveðið á um eins og hér segir, með leyfi forseta: „Greiðslur fæðingarstyrks falla niður frá þeim degi er foreldri lætur frá sér barn vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnunum. Þegar um er að ræða tilvik samkvæmt þessari mgr. skal fæðingarstyrkur þó aldrei greiddur skemur en í tvo mánuði eftir fæðingu.“

Þetta þýðir m.ö.o. að kona sem lætur barn frá sér strax eftir fæðingu getur fengið þriggja mánaða fæðingarorlof samkvæmt ákvæðum frv., þ.e. einn mánuð fyrir fæðinguna og tvo mánuði eftir fæðinguna eða samtals þrjá mánuði, en kona sem fæðir andvana barn fær aðeins tvo mánuði ef hún er heimavinnandi og ef hún er á vinnumarkaðnum fær hún fullt fæðingarorlof í tvo mánuði og að hluta til í einn mánuð, þ.e. aðeins fæðingardagpeningana en ekki fæðingarstyrkinn, samkvæmt þeirri breytingu sem gerð var í Ed. Ég tel að hér sé um stóran galla á frv. að ræða og tel brýnt að það verði reynt að ná samstöðu um leiðréttingu á þessu atriði. Hér er ekki um stórt fjárhagsspursmál að ræða en mikið réttlætismál fyrir þær konur sem verða fyrir því að fæða andvana börn. Ég tel fráleitt að konur sem eru heimavinnandi hafi í þessu sambandi eins mánaðar skemmra fæðingarorlof en þær sem eru á vinnumarkaðnum. Því vil ég beina því til þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar að hún leiðrétti þennan galla á frv. sem ég vil kalla svo. Ég tel að það ætti ekki að tefja að þessi frumvörp verði að lögum á þessu þingi ef um þetta getur náðst samstaða sem ég tel mjög brýnt. Að öðrum kosti, náist ekki samstaða um það í nefndinni, mun ég flytja brtt. til að reyna að ná fram leiðréttingu á þessum galla á frv. í hv. deild þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu vegna þess að ég tel ófært að það sé afgreitt með þessum hætti frá Alþingi.

Í fæðingarorlofsnefndinni talaði ég fyrir því að með þessum nýju lögum væri rétt að koma inn ákvæði sem tryggði foreldrum rétt í fæðingarorlofi til að taka launalaust leyfi lengur en þann tíma sem fæðingarorlofsgreiðslur vara. Ég tel rétt að slíkt ákvæði sé fyrir hendi og að ekki sé skemmra gengið í því efni en að foreldrar eigi rétt til launalauss leyfis frá störfum þrjá mánuði umfram venjulegan fæðingarorlofstíma. Væri slíkt ákvæði til staðar í þessum lögum væri tryggt að frá næstu áramótum, þegar lög þessi taka gildi og fjórði mánuðurinn bætist við þriggja mánaða fæðingarorlof, eigi foreldrar einnig rétt á þriggja mánaða launalausu leyfi frá störfum, sem þá þegar frá næstu áramótum gæfi rétt til sjö mánaða fæðingarorlofs, þ.e. fjögurra mánaða greiðslu og þriggja mánaða launalauss leyfis. Um þetta náðist ekki samkomulag í fæðingarorlofsnefndinni og tel ég rétt að heilbr.- og trn., sem fær málið til meðferðar, athugi vel hvort ekki sé rétt að fella inn í fæðingarorlofsfrv. slíkt ákvæði um launalaust leyfi.

Til vara bendi ég á till. sem hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir flutti í Ed. um ákvæði til bráðabirgða þess efnis að heilbr.- og trmrh. skuli þegar í stað skipa nefnd með aðild samtaka vinnumarkaðarins sem hafi það verkefni að gera tillögur um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna.

Vegna þeirra breytinga sem Ed. gerði á frv. varðandi það við hvað skuli miða fæðingardagpeninga vil ég að það komi fram að fæðingarorlofsnefndin hafði af því nokkrar áhyggjur að í sumum tilfellum mundu fæðingarorlofsgreiðslur skerðast frá því sem nú er ef sömu útreikningsreglur giltu um fæðingardagpeninga og um atvinnuleysistryggingar þó slík viðmiðun sé að mörgu leyti eðlilegri en þær útreikningsreglur sem gilt hafa. Á það var lögð áhersla í nefndinni að þetta yrði sérstaklega skoðað í meðferð Alþingis á málinu þar sem ekki gafst tími til slíkra útreikninga meðan nefndin hafði málið til meðferðar. Það hefur nú komið í ljós að í einhverjum tilfellum er um skerðingu að ræða og því óhjákvæmilegt að breyta þessari viðmiðun eins og Ed. hefur lagt til og samþykkt við afgreiðslu málsins þar.

Ég get farið að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil að lokum benda á það sem fram kemur í frv. um fæðingarorlof, 7. gr., en um það atriði gerði ég einnig athugasemd í fæðingarorlofsnefndinni. Í 7. gr. segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldri í fæðingarorlofi.“

Síðan kemur eftirfarandi: „Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæði 1. mgr. skal hann greiða bætur. Við ákvörðun bóta skal m.a. taka mið af ráðningartíma starfsmanns hjá viðkomandi atvinnurekanda.“

Ég tel að hætta sé á að hér geti verið um skerðingu að ræða frá því sem er nú í framkvæmd. Í svona máli hefur einmitt fallið dómur. Um var að ræða stúlku sem verið hafði mjög skamman tíma í vinnu og hafði einungis áunnið sér eins mánaðar uppsagnarfrest. Dómur sem féll í þessu máli úrskurðaði að hún ætti að fá bætur út meðgöngutímann sem varð töluvert lengri en sem nam ráðningartíma viðkomandi. Þetta ákvæði gæti því þýtt skerðingu frá því sem er í framkvæmd og hefur verið og dómsúrskurður liggur fyrir um ef hérna á að taka mið af ráðningartíma starfsmanns eins og hér er lagt til. Ég vil alla vega að komi fram að hér geti hugsanlega verið um skerðingu að ræða frá því sem gilt hefur.

Að lokum, herra forseti, tel ég það mjög réttmætar ábendingar sem koma fram, en áður en ég vík að því vil ég vitna til þess sem ég var að segja um ákvæðið í 7. gr. að það koma einmitt fram í umsögn Alþýðusambands Íslands áhyggjur af því sem fram kemur varðandi viðmiðun við ráðningartímann, en þar segir:

„Þá er rétt að benda á að í 7. gr. frv. um fæðingarorlof er ráðningartíma á óeðlilegan hátt blandað inn varðandi bótaskyldu atvinnurekanda.“

Sú setning ætti að falla út. Þetta er álit Alþýðusambands Íslands.

Í lokin vil ég benda á mjög réttmætar ábendingar sem koma fram í nál. frá heilbr.- og trn. Ed., en þar segir, með leyfi forseta:

„Eins telur nefndin rétt að vekja athygli á því, þótt ekki snerti það sjálft frv., að tryggja þarf að lífeyrisréttindi foreldra í fæðingarorlofi skerðist ekki, t.d. með því að heimila foreldrum að greiða lífeyrissjóðsframlög þann tíma. Þetta kallar á breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Á sama hátt væri eðlilegt að gera breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins varðandi lánarétt svo að foreldrar missi ekki réttindi í fæðingarorlofi.“

Hér er um mjög réttmætar ábendingar að ræða ef foreldri í fæðingarorlofi missir lífeyrisréttindi einhvern tíma. Ég spyr hæstv. ráðh. í lokin hvort eitthvað hafi verið hugað að þessu og hvort hún muni beita sér fyrir því að þessi mál verði sérstaklega athuguð.

Ég sé ekki ástæðu til að tefja tíma deildarinnar lengur, en ég mun koma frekari athugasemdum mínum á framfæri í heilbr.- og trn. sem ég á sæti í. Ég vona að lokum að þetta mál fái greiðan gang í gegnum þingið og verði að lögum á þessu þingi, þó með þeim breytingum sem ég hef lagt áherslu á og lýst í þessari umræðu.