16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4311 í B-deild Alþingistíðinda. (4053)

423. mál, vísitala byggingarkostnaðar

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um vísitölu byggingarkostnaðar sem er 423. mál Ed. Meginefnisbreyting þessa frv. frá gildandi lögum er sú að frv. gerir ráð fyrir að byggingarvísitala verði nú reiknuð út mánaðarlega, en formlega hefur byggingarvísitala verið reiknuð á þriggja mánaða fresti. Í framkvæmd hefur vísitalan þó verið reiknuð út í hverjum mánuði og það er meginefnisbreyting þessa frv. að gera þá skipan mála lögformlega. Að auki er hér mælt fyrir um minni háttar breytingar sem miða að því að löggjöf um byggingarvísitöluna verði varanleg en ekki með tímabundnu sniði eins og verið hefur.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um efni frv., en vísa að öðru leyti til athugasemda með því, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.