16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4316 í B-deild Alþingistíðinda. (4071)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Þau lög sem voru sett á síðasta þingi, lög nr. 41 frá 1986, eru kannske einmitt dæmigerð fyrir síðustu daga þingsins þar sem við sitjum, eins og við höfum gert síðan kl. 11 í morgun, og afgreitt aragrúa af málum um hina óskyldustu hluti, og fer ekki á milli mála að eitthvað fari úrskeiðis. Þessi lög, sem sett voru í fyrra, voru breyting á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga þar sem meðlagsskuldurum, sem ekki greiddu meðlagskröfu innan mánaðar, var gert að greiða dráttarvexti. Áður hafði verið heimild til að taka 7% ársvexti, en sú heimild var nær aldrei notuð má ég segja. Vitaskuld hefur komið í ljós að meðlagsskuldir eru flestum nógu erfiðar þó ekki bætist við dráttarvextir. Hér segir síðan í grg., með leyfi forseta:

„Þessir dráttarvextir eru nú 2,25% á mánuði og byrjaði Innheimtustofnunin að reikna þá frá 1. júlí 1986. Frá þeim tíma hefur beiðnum um lækkun eða niðurfellingu meðlagsskulda farið ört fjölgandi, enda hefur vanskilavaxtatakan gert meðlagsskuldurum miklu erfiðara fyrir en áður var með að standa í skilum. Erindum einstakra meðlagsskuldara um lækkun eða niðurfellingu meðlagsskulda hefur stjórn Innheimtustofnunarinnar synjað með vísan til heimildarskorts samkvæmt lögum um stofnunina.“

Hér er verið að veita stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga þá heimild að meta í hverju tilviki hverjir skuli losna við dráttarvexti. Og hverjir sitja svo í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga sem nú á að fara höndum um einkahagi fólks í þessu tilliti og félagslegar aðstæður? Það eru samkvæmt lögum sem nýlega hafa tekið gildi tveir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og einn sem ráðherra skipar. Nú tilkynnti ráðherra mér áðan að hann hefði ekki skipað samkvæmt nýjum lögum, en áður sat fulltrúi ráðuneytisins í stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga, Hallgrímur Dalberg, starfsmaður ráðherra.

Eru það nýtísku vinnubrögð að fólk fari með slíkar heimildir sem hefur nákvæmlega enga menntun og enga kunnáttu til að fara með slík mál? Þeir sem eru menntaðir til að fara með mat á einkahögum og félagslegum aðstæðum fólks heita félagsráðgjafar í þessu þjóðfélagi, hefði ég haldið.

Ég hef því, herra forseti, leyft mér að bera fram þá tillögu að við björgum okkur út úr þessum vandræðum og hef flutt þá brtt. að lögin frá síðasta þingi verði einfaldlega felld úr gildi og öll dráttarvaxtaheimild afnumin. Nú hefur það færst nokkuð í vöxt með breyttum þjóðfélagsháttum að konur eru meðlagsskyldar og feður halda börnum sínum og reka með þeim heimili. Ég vil spyrja: Láglaunakonur í landinu eiga áreiðanlega nógu erfitt um vik með að borga meðlög með einu eða fleiri börnum þó ekki bætist dráttarvextir við eða hvað finnst hv. þm.?

Ég held að uppfinning eins og þetta sé öllum til háborinnar skammar og ég skora á þingheim, þó hann sé orðinn þreyttur og syfjaður, að hugsa þetta mál aðeins og ef menn treysta sér ekki til að taka ákvörðun um þetta núna verði málinu frestað til morguns. Þá koma þeir frískir til starfa og geta hugsað alvarlega um hvort ekki er nær að fella þetta ákvæði niður.

Ég þekki þessi rök fram og til baka, sem ég hef oft heyrt t.d. úr röðum kvenna, að það eigi að hækka meðlög. Karlmennirnir séu réttir til ef þeir eru ekki með börnin að borga há meðlög. Mín skoðun er sú að öll börn séu meira og minna á ábyrgð þjóðfélagsins og okkar allra. Ég þekki það allt of vel frá fyrri störfum mínum í Tryggingastofnun ríkisins að jafnvel þessum óskaplega kynstofni, karlmönnum, hversu há laun sem þeir hafa, er næstum ógerlegt að lifa nokkru fjölskyldulífi ef þeir eiga að standa skil á kannske fjórum, fimm meðlögum. Og þegar komnir eru við þetta dráttarvextir sem Seðlabankanum þóknast að ákveða hverju sinni er þetta satt að segja orðið fáránlegt. Við erum ekki hér til að gera fólki illt. Við eigum heldur að gera fólki kleift að lifa nokkurn veginn eðlilegu fjölskyldulífi hvort sem það býr saman eða sundur eða kýs að eiga aðra fjölskyldu. Aðalatriðið er að börnin fái sitt. Þess vegna vil ég leggja til að þessi brtt. mín verði samþykkt og þetta smánarákvæði frá því á síðasta þingi, lög nr. 41/1986, verði fellt niður. Þá er málið leyst.