16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4319 í B-deild Alþingistíðinda. (4073)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Rétt einu sinni heyrir maður að það eigi að fara að endurskoða einhver lög. Við virðumst ekki setja nokkur lög hér lengur sem þola eitt, tvö ár. Að vísu eru lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga frá 1971 og ég veit ekki betur en það sé allt í lagi með þau. Innheimtustofnun sveitarfélaga er eins og nafnið bendir til engin félagsmálastofnun. Hún er einfaldlega innheimtustofnun. Það er engin ástæða til að fela henni að meta hag fólks. Til þess hefur hún ekkert starfsfólk og engan sem nokkurt vit hefur á slíkri vinnu. Ég skal viðurkenna að með því litla frv. sem hér liggur fyrir er verið að berja í brestina vegna þess fáránlega ákvæðis sem samþykkt var í fyrra. En skilyrðið væri þá að fagfólk væri sett í það að meta hvenær þessari heimild, sem hér er verið að veita, yrði beitt. Það eru einfaldlega ekki nokkur vinnubrögð að einhverjir lögfræðingar úr félmrn. og einhverjir bæjarfulltrúar eigi að fara að setjast í þriggja manna nefnd og ákveða þetta. Ég er ansi hrædd um að þjóðin frábiðji sér slíka þjónustu.

Það er stundum erfitt að vita hvað Alþingi ætlar sér. Hér voru fyrir fjórum árum samþykkt barnalög sem áttu að tryggja réttindi barna á allan hátt og hæstv. þáv. dómsmrh. talaði fjálglega fyrir. Og það var vel. Það studdum við auðvitað, allt vel hugsandi fólk á hinu háa Alþingi. Síðan koma lög sem varða ekki minna réttindi mæðra, feðra og barna og þá talar hæstv. félmrh. um þau mál í einhverju óræðu hugtaki sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og að innheimst hafi svo miklu meira vegna þessara laga frá því í fyrra. Ég efa það ekki því að á skrifstofu minni hefur verið stríður straumur af fólki sem þetta hefur verið að gera út af við vegna þess að fólk ræður ekkert við greiðslurnar.

Nú er það svo, eins og hæstv. félmrh. veit, að allflestir meðlagsgreiðendur greiða mánaðarlega af vinnutekjum sínum því að barnsmeðlag hefur forgang og má draga það af mánaðarlaunum manna. Hverjir eru það svo sem ekki standa í skilum? Það eru þeir sem erfiðast eiga, sem hafa kannske óstöðugar tekjur, standa í margfrægum húsnæðisvandræðum og eiga enga peninga. Alls konar fólk sem er heilsulaust, nýtur sjúkradagpeninga sem ég hef að vísu lagt fram frv. um að yrðu hækkaðir en enginn hefur hlustað á og enginn ætlar sér að afgreiða. Það er þetta fólk sem er að sligast undir þessu. Fangar sem koma úr afplánun með eins árs, tveggja ára meðlagsskuldir plús dráttarvexti. Þessir menn sjá aldrei sólina meir. Það er alveg sama hvað þeir gera. Þeir komast aldrei út úr þessu aftur og jafnvel þótt engir dráttarvextir kæmu til. Þess vegna hlýt ég að spyrja hið háa Alþingi: Í hvers þágu er þetta? Jú, Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Til hvers er þá Jöfnunarsjóður sveitarfélaga? Er hann alls ekki í þágu lifandi fólks? Það er ekki vit í þessu, hv. þm. Ég bið ykkur lengstra orða að fella þetta ákvæði niður með því að samþykkja brtt. mína og hætta að þrautpína fólk með þessum dráttarvaxtaákvæðum. Ég er alveg sannfærð um að það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að það hefur innheimst meira. En frá hverjum, hv. þm.?

Frv. sem hér um ræðir, sem átti að vera til bóta, er svo illa unnið að það er ógerningur að samþykkja það. Þess vegna held ég að einfaldara væri að leggja þetta alveg af.