16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4322 í B-deild Alþingistíðinda. (4076)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það var viss framför hjá hv. 10. landsk. þm. Að vísu kom gleymskan háskalega inn í því að það er undarlegt ef starfsmaðurinn, sem var hjá Tryggingastofnun ríkisins á sínum tíma og er kominn það vel til ára sinna að hún ætti að muna eftir því þegar Kvíabryggja var starfrækt, hafi ekki haft hugmynd um hvaða menn hrukku við og fóru að borga sín barnsmeðlög þegar blasti við að þeir ættu að fara þar inn. Það má merkilegt minnisleysi vera ef hún hefur ekki vitað þetta á sínum tíma. (GHelg: Hvenær var þetta?) Þarna kemur fram, hæstv. forseti, hvað svefninn getur leikið menn grátt. Þetta hefur sennilega verið á 18. öldinni.

En hitt vekur undrun að hér kemur fram að hv. 10. landsk. þm. telur að fulltrúar sveitarfélaganna og fulltrúi félmrn. séu ófærir um að meta hverjir eigi að fá niðurfellingu. (GHelg: Að sjálfsögðu.) Að sjálfsögðu, segir hv. ræðumaður. Hvaða aðilar í þessu landi skyldu lengst hafa átt að meta framfærsluþörf í þjóðfélaginu? (Menntmrh.: Félagsfræðingar.) Félagsfræðingar, er sent frá hæstv. menntmrh. og er þó ekki borin á hann gleymska. Ætli það séu ekki sveitarfélögin í landinu, hv. 10. landsk. þm.? Veit hv. 10. landsk. þm. að löngu áður en nokkrir félagsfræðingar voru til í þessu landi sátu menn við að meta þetta? Og það voru fulltrúar sveitarfélaganna sem gerðu það. (GHelg: Það tókst nú ekki vel.) Tókst ekki vel. Það var billeg niðurstaða. Ég verð að segja eins og er að ég ber ekki mikla virðingu fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Ég hef ekki tekið það svo að það sitji þau séní þar innan dyra að það þurfi alveg sérstaklega að hressa upp á aðra þegna þjóðfélagsins með ráðgjöf úr þeirri stofnun.

Ég verð að bæta því við að ef félmrh. er ekki fær um að skipa fulltrúa í þessa blessaða innheimtustofnun, sem er fær um að meta félagslegar aðstæður, finnst mér ákaflega mikil spurning hvort það sé ekki hreint vantraust á félmrh. almennt. Það hafa margir menn setið í þessum stöðum í gegnum tíðina og mér er spurn: Ef hv. 3. þm. Reykv. hefði setið í þessum stól, hefði þá ræðan hljóðað eins hjá hv. 10. landsk. þm.? (GHelg: Nákvæmlega. En sennilega hefði ekki gefist tilefni til þess því að hann hefði verið ráðherra í fyrra líka.) Þetta kallar maður að bjarga sér á hundavaði. Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa ræðu.