16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (4082)

352. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir er samið samkvæmt skyldu sem staðfest er í ákvæði núgildandi laga, en þar segir að endurskoðun laganna skuli lokið fyrir 1. ágúst þessa árs. Breytingarnar eru í raun og veru ekki miklar efnislega, ekki eins miklar og ætla mætti af því stóra skjali sem hér liggur fyrir. Meginbreytingarnar eru fólgnar í því að lagt er til að stjórn stofnunarinnar og skipulag verði með dálítið öðrum hætti. Tilgangurinn er að gera starfsemina skilvirkari og enn fremur er gert ráð fyrir auknu sjálfstæði heilbrigðiseftirlitssvæðanna. Gert er ráð fyrir að stofnunin fái betri tök á því að sinna eiturefnaeftirliti og eftirliti með aukaefnum í matvælum. Þessi atriði eru þau sem mikilvægust eru í frv. Að öðru leyti vísa ég til framsöguræðu sem haldin var í Ed. 18. febrúar, en þar er gerð nánari grein fyrir aðdragandanum að endurskoðuninni og því hvernig lögin hafa raunverulega reynst.

Nefndin í hv. Ed. skilaði áliti um að afgreiða skyldi frv. óbreytt og svo var gert og því er það hingað komið fyrir áhuga hv. þm. Ég vona vissulega að svo verði í þessari hv. deild líka og ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.