16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4330 í B-deild Alþingistíðinda. (4088)

321. mál, vaxtalög

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til vaxtalaga. Þetta frv. er að verulegu leyti samið af Jónatan Þórmundssyni prófessor en ég leitaði til hans í lok síðasta árs til þess að kanna stöðu vaxta- og okurmála, m.a. í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 19. des. á s.l. ári og óskaði eftir því að hann semdi nýtt frv. til heildstæðrar löggjafar á þessu sviði. Árangur þess starfs er þetta frv. til vaxtalaga sem hér liggur fyrir. Það er unnið í samráði við viðskrn. og Seðlabanka Íslands. Enn fremur var rætt um einstaka þætti þess við sérfróða menn á þessu sviði.

III. kaflinn í frv., um dráttarvexti, er í stórum dráttum byggður á frv. til sérstakra laga um dráttarvexti o.fl. sem lagt var fram á síðasta þingi og náði þá ekki fram að ganga. Það frv. var að verulegu leyti samið af Benedikt heitnum Sigurjónssyni, fyrrv. hæstaréttardómara, og Viðari Má Matthíassyni. Að dráttarvaxtafrv. var síðan unnið áfram í viðskrn. og varð að ráði að fella dráttarvaxtaþáttinn inn í hið nýja vaxtalagafrv. með nokkrum breytingum og úrfellingum. Það hefur að vissu leyti ótvíræða kosti að setja ein heildarlög um vaxtamál. Við það fæst betri heildarsýn yfir þessi mál, reglurnar verða einfaldari og markvissari, og um sum atriði má setja sameiginleg ákvæði án tillits til vaxtaforms.

Við samningu dráttarvaxtakaflans var höfð hliðsjón af umsögnum ýmissa aðila um það dráttarvaxtafrv. sem ég lagði hér fram á síðasta þingi, svo og eldri frumvarpsdrögum hæstaréttarlögmannanna Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Baldurs Guðlaugssonar um bætur vegna rýrnunar á verðgildi gjaldkræfra peningakrafna, sem kallaðar eru verðgildisbætur, og um dráttarvexti, ásamt grg. og umsögnum nokkurra aðila. Enn fremur var litið til erlends réttar og þá einkum dönsku vaxtalaganna.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, tekur mið af þeim forsendum:

Að viðhalda því takmarkaða vaxtafrelsi sem við búum nú við eftir þróun síðustu ára til aukins vaxtafrelsis.

Að treysta og samræma lagaheimildir um ákvörðun vaxta, refsiábyrgð og viðurlög við okri.

Að tryggja upplýsingar um öll almenn vaxtakjör hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og reglulega birtingu þeirra á sem aðgengilegastan hátt, eins og t.d. í Lögbirtingablaði.

Að gera vaxtareglur þannig úr garði að þær verði einfaldari og meðfærilegri í allri framkvæmd en gildandi reglur, m.a. í dómsmálum.

Og að lokum að tryggja efnisleg málalok í þeim okurmálum sem enn eru til meðferðar fyrir dómstólum, sbr. ákvæði til bráðabirgða.

Nd. gerði nokkrar breytingar á þessu frv. sem ekki eru efnislega mikilvægar. Þær breytingar voru með þeim hætti sem ég gat vel sætt mig við og greitt atkvæði um. Ég tel að það sé mikið atriði að afgreiða þetta frv. með þessum hætti eins og hér er lagt til. Hins vegar er mér ljóst að dráttarvextir þurfa frekari endurskoðunar við og það hefur orðið að samkomulagi að þau atriði verði könnuð til hlítar með það fyrir augum að flytja frv. á hausti komanda í sambandi við þau efnisatriði þessa frv.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frv. öllu ítarlegar hér, en vísa til ítarlegrar framsöguræðu minnar sem fyrir löngu síðan er komin í þingtíðindum. Mér er það ljóst að Nd. afgreiddi þetta mál úr nefnd mjög seint og það er til mikils mælst við hv. nefnd hér í Ed. að afgreiða mjög fljótt þetta frv. því að bæði ég og ríkisstjórnin leggjum áherslu á það að þetta frv. verði að lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.