03.11.1986
Neðri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

102. mál, skógrækt

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég hygg að hér sé um nauðsynlega lagasetningu að ræða, þ.e. svið þar sem nauðsynlegt er að lagarammi sé sniðinn að nýju, og að því leyti til er hér hreyft þörfu og merkilegu máli. Margt í þessu frv., af þeim nýmælum sem þar eru, er góðra gjalda vert, en sumt mætti betur fara.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni varðandi samstarf við sveitarfélögin, sem er mjög nauðsynlegt að leggja aukna áherslu á, og enn fremur varðandi styrk við áhugamannastarf. Skógrækt á Íslandi hefur fyrst og fremst verið borin uppi af fórnfúsu áhugamannastarfi og það ber að viðurkenna í verki við lagasetningu en ekki eingöngu skorða þetta við sjónarhorn Skógræktar ríkisins þó að hún sé að sjálfsögðu góðra gjalda verð líka.

Ég vek athygli á því að í þessu frv. eru töluverðar kvaðir lagðar á búfjáreigendur. Ég vitna til niðurlags 8. gr.:

„Komist búfé inn í skógræktargirðingu utan heimalands jarða er ráðherra heimilt samkvæmt tilmælum skógræktarstjóra að fyrirskipa að þau sveitarfélög, sem líklegast er að eigi búfé innan skógargirðinga, annist smölun og fjallskil innan þeirra á sinn kostnað.“

Í 9. gr. segir:

„Um girðingar um skóglendi og hlið á þeim fer eftir ákvæðum girðingarlaga nr. 10 25. mars 1965.“

Í girðingarlögum og í þessu frv. er talað um svokallaða löggirðingu. Það mun vera girðing sem hefur verið löglega upp sett. Hins vegar er hvergi að finna í þessu frv. og við fljótan yfirlestur ekki í girðingarlögum heldur ákvæði um viðhaldsskyldu á girðingum. Þó að girðing sé vel upp sett og lögum samkvæmt getur hún raskast. Staurar lyftast í frosti og runnið getur undan girðingu og hún sligast af snjó o.s.frv. Ég hygg því að það þurfi að gera þá kröfu að þarna sé um fjárhelda girðingu að ræða.

Í 10. gr. er fjallað um búfé sem sækir í skógræktarsvæði og mig langar til að lesa þessa grein, með leyfi forseta:

„Komist búfé inn á skógræktarsvæði, sem girt er löggirðingu, má umsjónarmaður svæðisins taka það í gæslu og láta merkja það. Skal hann tafarlaust tilkynna hreppstjóra hverjir séu eigendur búfjárins og hvernig það sé merkt. Hreppstjóri skal gera eigendum eða umsjónarmönnum boð ef búfé þeirra er tekið í gæslu og gefa þeim kost á að vitja þess innan ákveðins tíma. Sé búfjárins ekki vitjað ákveður hreppstjóri hvar því skuli sleppt.“

Þetta er gott og blessað, en síðan kemur atriði sem mér finnst ástæða til að velta aðeins vöngum yfir: „Komist sama búfé aftur inn á skógræktarsvæðið, án þess að snjóalögum verði um kennt, getur umsjónarmaður svæðisins tekið það í sína vörslu og gert kröfu um að eigendur greiði kostnað af smölun, svo og uslagjald samkvæmt mati tveggja manna er hreppstjóri tilnefnir. Hafi eigendur búpeningsins ekki sinnt þessu innan tveggja sólarhringa getur umsjónarmaður krafist þess að fénaðurinn verði seldur á opinberu uppboði. Uppboðsandvirði, að frádregnu uslagjaldi, smölun og öðrum kostnaði, greiðir hreppstjóri búfjáreiganda.

Nú verða óvenjuleg snjóalög svo að hætta er á að löggirðingu fenni í kaf. Getur þá umsjónarmaður girðingarinnar tilkynnt búfjáreigendum í nágrenni hennar á hvaða svæði girðingin sé ótrygg vörn og ber þá búfjáreigendum að hafa gætur á gripum sínum og halda þeim frá þessum svæðum uns girðing telst gripheld á ný. Á sama hátt ber búfjáreigendum að gera skógareiganda eða umboðsmanni hans aðvart ef þeir verða þess varir að skógargirðing sé ótrygg vörn.“

Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir svo um 10. gr. að hér sé um að ræða mun einfaldari ákvæði í framkvæmd en eru í núgildandi lögum. Hér er lagt til að heimilt verði að selja það búfé á uppboði sem fer inn á girt skógræktarsvæði, a.m.k. í tvígang, vitji eigandi þess ekki og greiði smölunargjald og uslagjald. Samkvæmt eldra ákvæði þurfti búfé að gera enn frekari usla á skógræktarsvæði áður en umsjónarmaður gat krafist uppboðssölu.

Nú er ég ekki að mæla því búfé bót sem sækir í skógræktarsvæði og virðir ekki girðingar Skógræktarinnar, en ég hygg að það sé ástæða til að velta aðeins vöngum yfir því hvort þarna sé ekki farið nokkuð frjálslega að ráði sínu.

Ég ætla líka að vekja athygli á ákvæðum 12. gr.

Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú er yfirvofandi hætta á að skóglendi eyðist og alger friðun þess er nauðsynleg að mati skógræktarstjóra, en eigendur eða notendur landsins treystast ekki til að standa straum af friðun þess. Skógræktarstjóra er þá heimilt, með samþykki ráðherra, að kosta girðingu um landið gegn því að eigendur eða notendur ábyrgist um ákveðið árabil umsjón og viðhald girðingar, svo og friðun fyrir ágangi búfjár. Gera skal sérstakan samning um slíka friðun lands.“

Þessu er ég hjartanlega sammála, en síðan segir enn í greininni:

„Takist ekki samningar um friðun landsins samkvæmt framansögðu getur Skógrækt ríkisins tekið skóglendið til fullrar umsjár og friðunar í 20 ár eða lengur ef þörf krefur. Við afhendingu landsins aftur til landeiganda ber að meta til verðs friðunarárangur þann sem orðið hefur og ber landeiganda að greiða matsverð til Skógræktar ríkisins. Skirrist landeigandi við því er Skógrækt ríkisins heimilt að taka hluta af skóglendinu sem greiðslu, allt eftir mati dómkvaddra manna.

Alþingi heimilar fé í þessu skyni með sérstakri fjárveitingu, enda liggi fyrir Alþingi tillögur skógræktarstjóra um friðun ásamt kostnaðaráætlun.“

Þarna finnst mér ástæða til að velta því fyrir sér hvort ekki sé farið nokkuð frjálslega með eignarréttinn. Það er auðvitað nauðsynlegt að hafa tæki til að koma í veg fyrir það að skóglendi sé eyðilagt af draslarahætti eða trassaskap eða vankunnáttu landeiganda, en ég tel að þarna séu skógræktarstjóra eða Skógrækt ríkisins gefnar ansi frj álsar hendur þar sem Skógræktin getur tekið skóglendi til fullrar umsjár og friðunar í 20 ár eða lengur ef þörf krefur. Mér fyndist að það væri það minnsta að ráðherra samþykkti þennan gerning. Skógræktinni er með þessu falið ansi víðtækt vald.

Ég vonast til þess að landbn. hugleiði þau atriði sem ég hef hér komið inn á. Eðlilegt væri að búnaðarþingi gæfist einnig kostur á að fjalla um þetta mál. Ég held að það fari best á því að setja svona lög með víðtækri samstöðu allra aðila. Þetta frv. til l. um skógvernd og skógrækt er fyrst og fremst frv. til l. um skógvernd og Skógrækt ríkisins í mörgum greinum.

Hv. 4. þm. Reykv. vakti athygli á því að í 5. gr. er ákvæði um að skógræktarstjóra skyldi skipa úr hópi fastra starfsmanna Skógræktar ríkisins. Þetta kemur mér ekki á óvart í samanburði við annað í frv. því mér sýnist að þetta frv. sé samið af Skógrækt ríkisins.