16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (4092)

249. mál, listmunauppboð

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Meginmarkmiðið með frv. þessu um listmunauppboð er að gera reglur um listmunauppboð frjálslegri en verið hefur. Samkvæmt þessu frv. er ekki lengur gert ráð fyrir takmörkuðum fjölda leyfishafa sem aðeins geti haldið uppboð í ákveðnum kaupstað hver fyrir sig, heldur er hér verið að færa þetta út eins og fram kemur.

Hv. fjh.- og viðskn. Nd. gerði nokkrar breytingar á frv. og ég fyrir mitt leyti féllst á þær allar og er ánægður með frv. eins og það kom frá Nd. Það voru ekki mjög róttækar breytingar. T.d. var við 1. gr. frv. í stað orðanna „bækur og frímerki“ bætt: bækur, frímerki og aðra muni sem söfnunargildi hafa. Og í stað orðanna í 2. gr. að „halda opið eða lokað uppboð“ komi: halda lokað uppboð. Sömuleiðis er eins og menn sjá sú breyting gerð á 3. gr. frv. að söluskattur leggst ekki á málverk, myndir né listmuni, heldur 10% gjald sem rennur til listamanna, en sé höfundaréttur fallinn niður eða fénu verður ekki ráðstafað þá rennur það til starfslauna myndlistarmanna samkvæmt ákvæðum sem samþykkt voru í Nd.

Ég tel að þetta frv. geri uppboð listmuna mun frjálslegri en verið hefur. Hefur almennt verið tekið vel í það að gera þessa breytingu og fjh.- og viðskn. Nd. varð sammála um afgreiðslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.