16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu kom til umfjöllunar landbn. deildarinnar í morgun og þar var borin fram ósk frá hæstv. landbrh. um það að nefndin flytti þetta mál sameiginlega. Úr því varð ekki. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni töldum ekki rétt að málið kæmi á þann veg hér inn í hv. deild, töldum reyndar að það hefði verið eðlilegast að þetta mál hefði verið flutt af hæstv. landbrh. en ekki af nefnd þar sem þetta er í eðli sínu stjfrv. og stjórnaraðgerð sem hér er verið að leggja til á síðustu dögum þingsins. En einhverra hluta vegna, og eftir því sem hv. 11. landsk. þm. upplýsti hér áðan í ræðustól, þá var þetta gert til þess að auðvelda framgang málsins. (EgJ: Flýta afgreiðslunni.) Flýta afgreiðslunni. g sé ekki neitt sem verður þess valdandi að afgreiðsla málsins verði fljótari fyrir það að meiri hl. nefndarinnar flytur þetta hér heldur en ef það hefði verið á þann veg að hæstv. ráðh. hefði flutt þetta mál sjálfur. Þetta fer til nefndar og verður unnið á alveg nákvæmlega sama veg og það verður gert nú.

Hitt getur verið að hafi verið hvati að þessu máli að hv. 11. landsk. hafi haft áhuga fyrir því að ná þeirri aðstöðu að mæla fyrir þessu máli hér og mér sýnist að sú hafi verið raunin á, að málið hafi verið lagt hér fyrir hv. deild að ósk þeirra sjálfstæðismanna að það yrði ekki lagt fram af ráðherrunum sjálfum heldur yrði það lagt fram og mælt fyrir því af hv. 11. landsk. þm., formanni landbn. Og er það dálítið merkileg aðferð sem hér er notuð. Það er fyrst rætt við stjórnarandstöðuna um það að við látum það vera hér í deildinni að eyða miklum tíma í þetta mál. Það er leitað eftir því að málið fái eins fljóta meðferð hér í þinginu og mögulegt er og svo heyrum við allt í einu hér úr ræðustól flutta „generalprufu“ af framboðsfundi á Austfjörðum. Það er flutt hér langloka um staðreyndir eða ekki staðreyndir sem Sjálfstfl. á sjálfsagt eftir að boða landslýð að þannig hafi verið haldið á landbúnaðarmálum undanfarin ár, sem hv. 11. landsk. þm. flutti hér úr ræðustól áðan og lítið kom við því máli sem hér er lagt fram.

Mér finnst þetta dálitið merkileg vinnubrögð. Ég taldi að þetta mál mundi verða lagt hér fram með þeirri grg. sem fylgir frv. og hv. 11. landsk. þm. nefndi að væri skýr og þar af leiðandi þyrfti ekki að flytja hana hér úr ræðustól heldur flutti sína eigin ræðu, þ. e. útlistun Sjálfstfl. á því hvernig landbúnaðarmálin hefðu gengið á undanförnum árum.

Um þetta frv. má vitaskuld margt segja og kannske fyrst og fremst er það staðfesting á því hvernig landbúnaðarstefna hæstv. ríkisstjórnar hefur gengið á undanförnum árum. Nú á síðustu dögum þings fyrir kosningar hleypur ríkisstjórnin til og flytur þetta frv. hér um það að lengja aðlögunartímann í sambandi við búvöruframleiðsluna, skerðingu búvöruframleiðslunnar og stjórnun búvöruframleiðslunnar, um tvö ár. Þetta er viss viðurkenning á því sem við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram og við Alþýðubandalagsmenn höfum haldið fram að sá aðlögunartími sem markaður var samkvæmt búvörulögunum væri of stuttur. En það er ekki tekið nema þetta litla skref, tvö ár. Ég tel að hér hefði þurft að stíga skrefið til fulls, eins og menn hafa held ég flestir búist við að verði, að þetta verði ekki aðeins frestur eða framlenging um tvö ár til viðbótar, þ.e. að árin verði sjö, heldur þurfi þarna að vera tíu ára aðlögunartími.

Við eigum eftir að fjalla um þetta í landbn. í fyrramálið, þó að við vitum það allir að það er þegar raunverulega búið að ganga frá þessu máli og við vitum það að stjórnarandstaðan mun koma með nál. um þetta mál. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að eyða hér löngum tíma og vil standa við mitt loforð um það að málflutningur hér í deildinni verði sem stystur þó að á annan veg hafi verið farið með frsm., að hann hafi talið ástæðu til þess að hefja hér umræður um landbúnaðarstefnuna eins og hún hefur gengið fyrir sig á undanförnum árum.

Ég vil lýsa því yfir að við Alþýðubandalagsmenn hér í deildinni munum gera okkar í því að þetta mál gangi hér fram, og það eins fljótt og mögulegt er, og við munum leggja hér fram brtt. um það að þessi tími verði ekki lengdur um tvö ár heldur muni hann vera lengdur um fimm ár. En þó að sú brtt. okkar verði ekki samþykkt hér í deildinni munum við þá standa að þessu frv. þar sem þetta er ákveðið skref í þá átt að koma á móti þörfum bænda um það að aðlögunartíminn verði lengdur.