16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (4101)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. í þessari deild eru nú ekkert óvanir því að fá landbúnaðarmál til umræðu svona á síðustu dögum þingsins en eins og fram hefur komið er hér um að ræða framlengingu um tvö ár til viðbótar þeim ákvæðum sem eru í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Auk þess sem þetta er framlenging um tvö ár þá er tilfærsla árið 1990, þ.e. að í stað þess að árið 1990 eigi útflutningsbætur að vera 4% af heildarverðmætum landbúnaðarvara er í þessu frv. lagt til að þær verði 5%. En aftur á móti það sem varið er til nýrra búgreina er ætlast til að verði 4% árið 1999 í stað 5%. Það getur vel verið að rökin fyrir þessu hafi komið fram í ræðu hv. 11. landsk. þm., ég hef þá misst af því, mér fannst ansi mikill tími fara í það hjá honum að tala um nýjar búgreinar og annað slíkt. Þess vegna varð ég mjög undrandi á því að sjá þetta, en eins og fram hefur komið hér þá er þetta mál alveg nýtt af nálinni, er lagt fram í nefnd í morgun. Reyndar bauðst okkur að kynna okkur þetta mál á þingflokksfundi í dag en því miður var tíminn það naumur, um 10 mínútur sem menn höfðu til þess að koma sér ofan í þetta mál og þær tölur sem því fylgdu. En ég sé nú ekki að það sé ýkja flókið því þetta er eina breytingin sem hér um ræðir, það er sem sagt flutningur um 1% frá því fjármagni sem átti að vera til nýbúgreina yfir í útflutningsbætur og ákvæði 38. gr. sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði 36. og 37. gr. skulu tekin til endurskoðunar að liðnum fjórum árum frá gildistöku þessara laga með tilliti til aðstæðna í markaðsmálum og uppbyggingar nýrra búgreina.“

Það er einfaldlega verið að breyta þessu ákvæði um að þetta skuli endurskoða eftir tvö ár í staðinn fyrir fjögur.

Ég sé ekki þessa brýnu nauðsyn á því að koma þessu máli nú í gegnum þingið og að markaðsaðstæður í dag segi okkur fremur hvernig þessi hlutföll skuli vera árið 1991 og 1992 get ég ekki fallist á að séu ýkja mikil rök. En það getur vel verið að hv. 11. landsk. þm. sjái þau rök, hann er mjög kunnugur þessum málum, en mér þætti vænt um að heyra rökin fyrir því. Ég efast ekki um að hæstv. landbrh. hefur þau líka á takteinum en það er sem sagt eina breytingin sem er um að ræða á þessu, tilfærsla árið 1990 og flýting 38. gr. laganna um tvö ár. En þessi ákvæði á að endurskoða samkvæmt lögunum 1989.