16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Varðandi það sem hér hefur komið fram vil ég aðeins nefna það hér í sambandi við ræðu hv. 2. þm. Austurl. að auðvitað væri freistandi að setja hér á umræður um ýmsar upplýsingar um þessi mál, en ég ætla nú ekki að gera það. Ég vil aðeins segja það í sambandi við afgreiðslu mála að eins og mál standa í dag er búið að gefa út svör við öllum umsóknum sem komu frá 1. sept. til 1. jan. og verið er að vinna núna að útskrift fyrir janúarmánuð þannig að stofnunin er komin í þá stöðu að geta svarað eins og lögin gera ráð fyrir.

Það sem er náttúrlega alveg ljóst er að lífeyrissjóðamálið er einn þungapunkturinn í þessu öllu saman eins og gerðist á vettvangi aðila vinnumarkaðarins. Því að eins og hér hefur komið fram þá er það náttúrlega hörmuleg saga í raun og veru hvað hefur verið haldið laust á þessum málum á undanförnum árum, að það skuli þurfa að koma í ljós þegar á reynir að svo gífurlegur fjöldi fólks í landinu hefur sáralítinn eða engan lífeyrisrétt þegar upp er staðið þrátt fyrir það að við höfum haft lög frá 1980 og endurtekin frá 1982, sem gera ráð fyrir því að allir séu í lífeyrissjóðum, allir Íslendingar greiði í lífeyrissjóði. En því miður var það ekki og ég tel að það sé af því góða í þessu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisins að það skuli vera tekið á þessu atriði, að efla lífeyrissjóðakerfið og nota það í þessum tilgangi, þ.e. inn í húsnæðiskerfið. Jafnhliða er samkomulag hjá aðilum vinnumarkaðarins um það að auka innstreymið í lífeyrissjóðina, ekki aðeins að allir greiði í þá, heldur einnig það að lífeyrissjóðsiðgjaldið verður framvegis miðað við öll laun og eflir þar af leiðandi sjálfkrafa lífeyrissjóðakerfið núna alveg til ársins 1990 sem gerir það að verkum að innstreymi fjármagnsins verður gífurlega mikið.

Eitt af því sem ég tel ástæðu til að nefna aðeins, af því að hv. 2. þm. Austurl. var að tala um að margir væru í miklum vandræðum sem væru búnir að kaupa og væru búnir að byggja fyrir fram er að megintilgangur þessa nýja kerfis er einmitt sá að koma í veg fyrir að fólk fari af stað í fjárfestingar, hvort sem það eru kaup eða byggingar, fyrr en það hefur lánsréttinn í höndunum. Þetta er náttúrlega ákaflega mikilvægt atriði, og er fyrirbyggjandi um leið og það smátt og smátt vinnur á þeirri óreiðu sem því miður hefur oftast verið á þessum vettvangi og orðið mörgum til tjóns. Þannig að þegar fram í sækir a.m.k. mun þetta virka ákaflega jákvætt. Um þetta hafa verið miklar auglýsingar og tilkynningar og aðvaranir í sambandi við málið og skal ég ekki rekja það nánar.

Auðvitað getum við verið sammála um það að félagslega kerfið þyrfti að vera miklu öflugra en það er og flestir eru nú sammála um það. Í þessari lotu töldu aðilar vinnumarkaðarins að það væri samt eðlilegra að láta það ganga fyrir að auka lánveitingar hins almenna manns þannig að þær færu að nálgast það að geta verið um 70% af byggingarkostnaði. Það tókst með þessu og ekki hvað síst það sem kannske mestu máli skiptir að það er rúmlega þrefaldað fjármagn til kaupa á notuðu húsnæði sem kemur ákaflega mörgum að einhverjum notum og gerir það að verkum að nýting á húsnæði í landinu verður miklu, miklu öflugri og betri eftir þessa aðgerð. Og það er sannarlega af því góða. En auðvitað get ég tekið undir það og hef víst gert það áður að ég tel að félagslega kerfið þurfi að vera miklu öflugra. Þó er það samt ekki verra en svo að á vegum Byggingarsjóðs verkamanna eru 400-500 íbúðir ýmist í byggingu eða kaupum á hverju einasta ári.

Varðandi það sem margir kvarta yfir varðandi endursölu eða endurkaup á verkamannabústöðum get ég sagt frá því að í síðustu viku var að enda mikil endurskoðun sem búin er að fara fram alveg frá því í byrjun fyrra árs milli aðila um það að gefa út nýja reglugerð um verkamannabústaðakerfið sem tekur virkilega vel á þessu vandamáli sem hér hefur verið talað um.

Vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv. vil ég einnig geta þess að núna um langt skeið hefur verið, og fer vaxandi, aukinn þungi á lánum til bygginga fyrir aldraða og öryrkja, ekki síst þjónustuíbúðir. Þetta er mjög ánægjulegur þáttur sem aðilar, bæði sveitarfélög og félagasamtök, leggja alveg gífurlega mikla áherslu á, að það hefur náðst alveg ótrúlegur árangur á þessu sviði, sem betur fer. Við hljótum öll að gleðjast yfir því hvað þetta ætlar að reynast vel. Sömuleiðis eru í undirbúningi margar íbúðir fyrir öryrkja, sérhannaðar íbúðir sem vissulega er mikil þörf á að efla hér.

Varðandi svo að lokum, virðulegi forseti, það sem kom fram í fsp. frá hv. 8. þm. Reykv., upplýsingar um það hvað er að gerast í Húsnæðisstofnun. Það er mjög stutt í það að þessi fréttatilkynning frá stofnuninni verði gefin út um stöðu mála núna. Þar kemur einnig fram það sem liggur fyrir hjá ráðgjafarstofunni, sem ég geri ráð fyrir að hann hafi átt við, hverjir hafa fengið synjun og hvers vegna. Þetta er mikilvægt atriði og hefur aldrei staðið til að halda þessum upplýsingum leyndum, síður en svo. Ég vonast til að það dragist ekki mikið úr þessu að stofnunin gefi út opinbera tilkynningu um þetta mál.