16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4350 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Af því að við hæstv. ráðh. höfum deilt ætla ég að taka af öll tvímæli um það að ég ætla mér ekki hér í illdeilur við hæstv. ráðh. Það er bara ekki oft að maður fær tækifæri hér til þess að ræða ákveðin grundvallaratriði. Ráðherra velti líka vöngum, eins og við hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan, yfir því hvernig það mætti vera að svo illa væri komið lífeyrismálum ýmissa hópa hér á landi eins og raun ber vitni. Ég vil þá bara minna á það hér að nú er komin upp nokkuð sterk umræða, að nokkru leyti fyrir tilstuðlan Alþfl., um sameiginlegan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn eða a.m.k. sameiginleg lífeyrisréttindi fyrir alla landsmenn.

Ég trúi því að ef menn skoðuðu lífeyrisréttindi manna hér á landi í dag þá væri vissulega hægt að færa að því mjög sterk rök að lífeyrisréttindum sumra væri þannig fyrir komið að þau brytu hreint og beint í bága við stjórnarskrána, og þá á ég við eignaupptökuákvæði stjórnarskrárinnar, því að það er sitt hvað að greiða í einhvern lífeyrissjóð og öðlast réttindi til þess að fá lán til húsnæðisbyggingar og svo hitt að vera skuldbundinn til þess með lögum að greiða í þennan sama lífeyrissjóð í svo og svo mörg ár til þess að fá síðan lífeyri úr þeim sjóði sem endanlega er svo smánarlegur að hann skiptir litlu eða engu máli. Og að skipa mönnum þetta með lögum er mjög erfitt að rökstyðja þannig að þar sé um almannahagsmuni að ræða að einstaklingur greiði svo og svo mikið af aflafé sínu yfir ævina í einhvern sjóð til þess að fá síðan úr honum í raun og veru aðeins brotabrot af því fé sem hann hefur lagt í sjóðinn einfaldlega vegna þess að það hefur rýrnað jafnmikið og raun ber vitni með tímanum.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þá var ég að mælast til þess í lokaorðum mínum við hæstv. ráðh. hvort hægt væri að fá þessar upplýsingar, sem hann talaði um að væru alveg á leiðinni fyrir nokkuð mörgum dögum síðan, hvort hægt væri að fá þær hér inn í deildina áður en við lykjum afgreiðslu þessa máls, og þá á ég við sem sé upplýsingarnar um stöðu mála í dag, fréttatilkynninguna, sem hann nefndi að væri að koma, og svo upplýsingarnar frá ráðgjafarþjónustunni um rök fyrir synjunum.