16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4351 í B-deild Alþingistíðinda. (4113)

209. mál, sjómannadagur

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér kemur nú frá Nd. breytt, þar er breytt einu orði, var til umfjöllunar hér hjá okkur í hv. deild og í sjútvn. þessarar hv. deildar og um það fjallað allrækilega. Við fengum til fundar við okkur hagsmunaaðila, leituðum víða umsagnar bæði bréflega og munnlega og einn af þeim þáttum sem við leituðum hvað víðast eftir var um þá afstöðu manna vítt um landið hvenær sjómannadagur skyldi haldinn þau ár sem hvítasunnuna ber upp á fyrsta sunnudag í júní.

Þær upplýsingar sem ég fékk, og ég held að hafi verið það sama með aðra nefndarmenn, voru allar á einn veg, að valin yrði sú leið að halda sjómannadaginn helgina á undan, þ.e. síðustu helgi í maí í stað þess að færa þá hátíðahöldin fram á aðra helgi í júní. Rökin fyrir því að talið var æskilegra að þannig yrði haldið á málum að það yrði bundið í lögum voru þau í fyrsta lagi að þar sem bátaútgerð er, þar eru vertíðarskil fyrri hlutann í maí og sjómenn eru til staðar heima við, ekki farnir frá í nýtt úthald og eðlilegur tími til hátíðahalda, til þess að halda sjómannadaginn hátíðlegan, frekar en þegar kemur fram í júní. Þá væri bæði það að sjómenn væru horfnir frá þeim veiðiskap sem þeir hefðu verið á og ný vertíð byrjuð eða jafnvel að menn væru komnir til annarra starfa. Og á hinn veginn að með því að sjómannadagurinn færðist aftur, það gæti verið aftur til 14. júní, væri dagurinn farinn að nálgast svo mikið 17. júní, að hátíðahöldin á hvorum deginum fyrir sig skemmdu fyrir hinum.

Þessa skoðun fengum við held ég gegnumgangandi hvar sem var á landinu þar sem við leituðum eftir skoðunum manna nema hér í Reykjavík. Þar heyrðist það sjónarmið að þetta skyldi vera á þann veg sem nú hefur verið samþykkt í Nd. En staðreyndin er sú að sjómannadagurinn hér á landi er fyrst og fremst hátíðisdagur úti um þorpin, vítt og breitt úti um fiskiþorpin á landinu en ekki hér í Reykjavík. Hátíðahöldin eru kannske ekki mikið fjölmennari hér í Reykjavík en hátíðahöld vestur á Hellissandi í 600 manna byggð. Þar er öll byggðin saman komin til hátíðahalda á þessum degi en hér í Reykjavík er hópur manna, oftast nær náttúrlega sjómenn og þeirra aðstandendur, en því miður alltaf allt of fámennt miðað við það sem er í öðrum byggðum.

Mér finnst því að hér hafi verið beitt ansi miklum þrýstingi af þeim hópi hér í Reykjavík sem fer með þessi mál að breyta til um þá samþykkt sem hér var gerð í hv. deild, fyrst farið var að lögfesta ákveðinn dag fyrir sjómannadag, að það skyldi ekki vera tekið tillit til þessarar almennu beiðni vít, um landið, en farið eftir ráðum manna hér í Reykjavík, þess hóps sem var alls ekki þyngri að mínu mati á þeim metum sem hér skyldi vegið eftir heldur en sá hópur vítt um landið sem lagði til að hin dagsetningin væri valin.

Ég staðfesti það sem formaður sjútvn. sagði hér áðan að við í sjútvn. deildarinnar munum þó fella okkur við þetta til þess að forða því að þetta góða mál falli upp fyrir og verði ekki samþykkt hér á þinginu nú. Við vitum það að ef við færum að breyta þessu núna erum við orðin með það knappan tíma að það yrði erfitt að koma því til samþykktar í gegnum þingið og kannske litlar líkur fyrir því og við vitum alls ekki hvernig sá leikur færi þegar menn færu að safna liði, hvor fylkingin fyrir sig, þannig að ég vildi láta mína skoðun koma hér í ljós og það hvernig að þessu máli var unnið hér í vetur þegar verið var að undirbúa samþykkt málsins hér í deildinni.

Ég harma að þannig skuli hafa verið unnið að málinu í Nd. að það væri ekki leitað til sjútvn. deildarinnar hér um það þegar farið var að breyta þessu frá því að frv. var samþykkt hér, en það var í engu leitað til okkar eða formanns nefndarinnar um það hvernig hefði verið unnið að þessu máli. Formaður sjútvn. þessarar hv. deildar vissi ekki um þessa breytingu fyrr en hún var lögð hér fram sem þskj.

Þetta kallar vitaskuld á það; og ég vænti þess að þeir sem koma hér á þing að kosningum loknum, að þeir muni leggja til breytingu á þessu þegar næsta þing kemur saman.