17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4354 í B-deild Alþingistíðinda. (4122)

Svör við tveim fyrirspurnum til menntmrh.

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel mig tilknúinn að vekja athygli hæstv. forseta á því að ekki hafa borist til þingsins svör við tveimur fsp. sem fram voru bornar á síðasta ári og yfirstandandi þingi og óskað skriflegs svars. Um er að ræða fsp. sem borin var fram við hæstv. menntmrh. 14. okt. s.l. um fjölda réttindalausra við kennslustörf og í öðru lagi fsp. borin fram við hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. um húsnæðismál Þjóðskjalasafns lögð fram 10. des. s.l.

Nú er gert ráð fyrir að þingstörfum ljúki einhvern næstu daga og ég hlýt að vekja athygli hæstv. forseta á því hvernig á stendur með þessar fsp. sem ekki hefur borist svar við og æskja eftir liðsinni forseta að svar verði fram lagt eða óskað eftir því við hæstv. ráðherra að þeir svari þessum fsp. áður en þingi lýkur. Ég treysti fulltingi hæstv. forseta í því efni.