17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4356 í B-deild Alþingistíðinda. (4126)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Frsm. fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur lokið athugun sinni á till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1987-1990. Afgreiðsla nefndarinnar birtist í sameiginlegu nefndaráliti á þskj. 946 og í brtt. sem allir nefndarmenn standa að og fluttar eru á þskj. 937. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa þó skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að hafa óbundnar hendur við afgreiðslu málsins á hv. Alþingi.

Í störfum sínum hefur nefndin notið mikilvægrar aðstoðar Snæbjarnar Jónassonar vegamálastjóra og nokkurra annarra starfsmanna Vegagerðar ríkisins. Eru þeim hér með færðar þakkir fyrir.

Þegar þáltill. var lögð fram voru allar tölur á verðlagi 1987 í samræmi við fjárlög þessa árs. Að höfðu samráði við Þjóðhagsstofnun hefur verið áætlað að verðlag hækki um 6% á milli áranna 1987 og 1988. Í brtt. nefndarinnar kemur þetta fram á þann hátt að allar tölur, sem snerta árin 1988-1990, eru hækkaðar um 6% frá því sem þáltill. greinir.

Fjvn. gerir óverulegar tillögur um breytingar á útgjöldum til einstakra framkvæmdaþátta. Aðeins er lagt til að á árinu 1987 verði 3 millj. kr. fluttar af viðfangsefninu „vetrarviðhald“ yfir á liðinn „aðrir fjallvegir“. Aðrar tillögur um tilfærslu fjár á milli einstakra framkvæmdaþátta hefur nefndin ekki gert.

Sú vinnuregla hefur gilt sem endranær í starfi fjvn. að nefndin hefur tekið ákvörðun um skiptingu framkvæmdafjár á milli einstakra kjördæma. Eru þær ákvarðanir teknar að loknum allítarlegum útreikningum og síðar tillögum frá Vegagerð ríkisins. Síðan hefur það komið í hlut þingmanna einstakra kjördæma að ákveða skiptingu framkvæmdafjár á einstök verkefni í hverju kjördæmi. Tillögur nefndarinnar um skiptingu framkvæmdafjár eru byggðar á þessum ákvörðunum þingmannahópa.

Í áliti nefndarinnar á þskj. 946 er allítarlega greint frá þeim reglum sem notaðar eru í tillögum nefndarinnar við skiptingu framkvæmdafjár á milli einstakra kjördæma og tæplega ástæða til að fara um það mörgum orðum hér. Rétt er þó að vekja athygli á því að sama skiptiregla er notuð nú og áður bæði að því er varðar skiptingu á fé til stofnbrauta og þjóðbrauta. Reglan sem notuð hefur verið við skiptingu stofnbrautafjár er þó endurmetin, en hún byggir sem fyrr á þremur þáttum, þ.e. kostnaði við endurbætur stofnbrauta, ástandi þeirra og arðsemi framkvæmdanna. Eðlilegt verður að telja að slíkt endurmat fari fram að loknu hverju fjögurra ára tímabili langtímaáætlunar. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að slíkt endurmat varðandi þjóðbrautir fari fram á miðju fjögurra ára áætlunartímabili eða næst að tveimur árum liðnum.

Mér þykir og rétt að ítreka að fjvn. hefur ekki að þessu sinni fremur en áður haft af því afskipti hvernig stofnbrautafé hvers kjördæmis skiptist á einstök ár innan áætlunartímabilsins. Vegagerðin annast það að raða þessu niður á einstök ár til samræmis við þau verk sem þar eru í gangi hverju sinni og á hverjum stað.

Í brtt. nefndarinnar kemur fram að gert er ráð fyrir því að hægt verði að hefjast handa við gerð jarðganga um Ólafsfjarðarmúla á árinu 1988. Nefndinni er ljóst að til þess að sú jarðgangagerð geti gengið með eðlilegum hraða þarf aukið fjármagn á árunum 1989 og 1990 umfram það sem fram kemur í brtt. nefndarinnar. Má ætla að til þess að þetta verk geti gengið fyrir sig með eðlilegum hraða muni þurfa til þess aukið fé sem nemur 90-100 millj. kr. á ári í tvö ár.

Með tilliti til yfirlýsinga sem gefnar hafa verið um þetta mál, m.a. í fyrri gögnum fjvn., samþykkti nefndin yfirlýsingu sem birt er í áliti nefndarinnar á þskj. 946. Yfirlýsingin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því samkomulagi sem gert var um svokallaða Ó-vegi var út frá því gengið að fyrst yrði lokið við veginn um Ólafsvíkurenni, síðan við veginn um Óshlið, en í beinu framhaldi yrðu gerð jarðgöng gegnum Ólafsfjarðarmúla. Gert var ráð fyrir sérstakri fjárútvegun í þessu skyni. Samkvæmt vegáætlun verður byrjað á jarðgöngum gegnum Ólafsfjarðarmúla árið 1988. Fjvn. lýsir þeim vilja sínum að aflað verði sérstaks framkvæmdafjár til þessa verkefnis til þess að jarðgangagerðin geti haldið áfram viðstöðulaust og með eðlilegum hraða að mati Vegagerðar ríkisins“.

till. til þál. um vegáætlun, sem hér er til síðari umræðu, tekur til annars tímabils langtímaáætlunar í vegagerð. Samkvæmt tillögunni er á þessu ári varið til vegagerðar samtals 2150 millj. kr. sem er í samræmi við fjárlög. Hin þrjú ár þessa áætlunartímabils er skipt fjármagni til ýmissa viðfangsefna Vegagerðar ríkisins sem nemur samtals 7250 millj. kr. og því samtals á þessum fjórum árum 9400 millj. kr. Er gert ráð fyrir að það sé sú fjárhæð sem fáist frá mörkuðum tekjustofnun Vegagerðar. Er þá ekki að sinni ráðstafað því fé sem þar er umfram upp að því marki sem menn settu sér að ná í langtímaáætlun, en það var að verja til vegagerðar um 2,4% af þjóðarframleiðslu á ári. Eigi að síður er hér um mikla fjármuni að ræða, enda bíða mörg viðfangsefni úrlausnar.

Á síðasta ári lauk fyrsta tímabili langtímaáætlunar. Við lok á því tímabili er eðlilegt að menn líti til baka og virði fyrir sér þann árangur sem náðst hefur. Að mínu áliti höfum við unnið stórvirki í vegagerð á síðustu fjórum árum. Þetta blasir raunar við augum allra, sem ferðast um land okkar og njóta þess að aka um sífellt batnandi vegakerfi. Úrtölumenn og bölsýnisdýrkendur reyna þó að telja fólki trú um að lítið hafi verið aðhafst á þessu tímabili. Þeir þrástagast á að ekki hafi verið staðið að fullu við þá fyrirætlan að verja 2,4% af þjóðarframleiðslu til vegagerðar á þessu tímabili. Þeir láta í veðri vaka að litlu skipti þótt þjóðarframleiðslan hafi farið stórum vaxandi hin síðustu tvö árin og þannig orðið næsta óraunsæ viðmiðun miðað við það sem gert var ráð fyrir í upphafi.

Víst er rétt að nokkuð skortir á það fjármagn sem upphaflega var ætlað til þessara framkvæmda. Hitt skiptir þó meginmáli að litlu munar að þeim verkefnum hafi verið lokið sem að var stefnt á því tímabili sem nú er liðið og sums staðar hefur unnist betur en áætlað hafði verið.

Ef nánar er litið á fjármagnshlið þessara mála er talið að á fyrsta tímabili langtímaáætlunar hafi verið varið til nýrra framkvæmda um 78% af því fjármagni sem upphaflega var gert ráð fyrir og til sumarviðhalds um 86% af því fjármagni sem langtímaáætlun gerði ráð fyrir. Samtals vantar því liðlega 11/2 milljarð kr. miðað við upphaflegar áætlanir um fjármagnsútvegun. Sé á hinn bóginn litið á hvernig verkin hafa þokast áfram er talið að ekki skorti nema 100-200 millj. kr. til þess að þau séu í jafnvægi við það sem áætlanir stóðu til um.

Hér er sannarlega mikill munur á. Þetta er að vísu vandmetið til fulls m.a. vegna þess að þó að nokkuð vanti á að öll verk hafi verið unnin sem áætlað var að vinna á fyrsta tímabili langtímaáætlunar hafa á móti önnur verk komist í framkvæmd sem ætlað var samkvæmt fyrri áætlun að vinna á öðru og þriðja tímabili langtímaáætlunar. Enn fremur hefur verið farið fram úr áætlunum fyrsta tímabils í bundnum slitlögum sem svarar til 150-200 millj. kr. framkvæmdakostnaðar.

Á fyrsta tímabili langtímaáætlunar var lagt bundið slitlag á stofnbrautir sem nam alls 635 km, en það er 154 km lengra en áætlanir sögðu til um. Auk þessa var lagt bundið slitlag á þjóðbrautir sem nam alls 136 km á fyrsta tímabili, en um það stóðu litlar áætlanir við upphaf langtímaáætlunar. Heildarlengd bundinna slitlaga var í árslok 1986 orðin 1423 km eða sem nokkurn veginn samsvarar hringveginum. Þar af eru að vísu 233 km einbreiðir eða 3,8 m á breidd. Framfarir hafa verið miklar. Við sem oft förum um vegina gleðjumst yfir hverjum kafla sem lagður er bundnu slitlagi. Við sjáum greinilega hversu miklu munar með hverju árinu sem líður.

Við sem fáumst við stjórnmál ættum ekki endilega að kvarta undan því að ýtrasta fjármagni skuli ekki hafa verið varið til þessara verkefna heldur ættum við að lofa þá framkvæmd verka sem komast áfram og er lokið fyrir stórum minna fé en upphaflega var áætlað. Það er þetta sem hefur gerst. Hagsýni og sparnaður, samfara miklum framkvæmdum, einkenna að mínum dómi fyrsta tímabil langtímaáætlunar sem lauk um síðustu áramót. Fyrir þetta eiga þeir lof skilið sem fyrir málum hafa staðið, allt frá æðstu stjórnendum til þeirra sem verkin hafa unnið. Þeir sem ekki viðurkenna þetta og tala í nöldurs- eða niðurrifstón eru tæpast líklegir til að gera betur.

Land okkar er stórt og strjálbýlt og það er a.m.k. sums staðar býsna erfitt til vegagerðar. Vegirnir eru lífæðar byggðanna og greiðar samgöngur eru nauðsynleg forsenda nútímalífshátta. Við eigum vissulega ærin verk að vinna á þessu sviði og ég tel að okkur beri hiklaust að halda áfram framkvæmdum við vegagerð með sambærilegum þrótti og gert hefur verið á síðasta áætlunartímabili. Að því verður að vinna á því tímabili sem um er fjallað í þeirri till. til þál. um vegáætlun sem hér er til síðari umræðu.

Ég sé ástæðu til við þetta tækifæri að flytja hæstv. samgrh. þakkir fyrir ötula baráttu fyrir auknum og bættum framkvæmdum við vegagerð á Íslandi á síðari árum. Við sem tíðum erum á ferð á vegum landsins höfum fundið framfarirnar. Með þeirri vegáætlun, sem hér er til afgreiðslu, er að því stefnt að þær haldi áfram.

Ég legg til, herra forseti, að till. þessi til þál. um vegáætlun fyrir árin 1987-1990 verði samþykkt með þeim breytingum sem fjvn. ber fram á þskj. 937.