17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4376 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður taldi brýna nauðsyn vera á því að ganga frá sem allra fyrst samræmdri áætlun í samgöngumálum. Á þessu þingi gerðist það að samþykkt var langtímaáætlun í flugmálum. Á bak við þá langtímaáætlun liggur löng og ströng og merkileg vinna sem unnin var af sérstakri nefnd undir forustu Birgis Ísl. Gunnarssonar. Með þessari áætlun er tryggt fjármagn til framkvæmda í flugmálum í framtíðinni, tryggðir ákveðnir tekjustofnar. Þar er farið inn á nýja braut og miklu tryggari braut en farið var inn á þegar framlag var á sínum tíma nokkuð aukið til vegagerðar. Þetta er fyrir utan það sem er ætlað í rekstur flugmála. Hann er inni í fjárlögum, kostaður af almennum tekjum þjóðfélagsins, en í vegamálum er ekkert slíkt og hefur ekki verið. Vegagerðin er eina stofnunin sem ekki er inni á fjárlögunum með sinn fasta rekstur. Á því er stór galli sem búið er að nefna hvað eftir annað. Menn koma hver á fætur öðrum og segja að það eigi ekki að gera þetta svona. Það eigi að gera þetta hinsegin. Ég fagna vaxandi áhuga þm. á vegamálum. Ég vona að hann endist fram yfir kosningar. Það er mjög mikils virði að hann endist helst alveg út árið og við afgreiðslu næstu fjárlaga. (SJS: Hvaða skætingur er þetta?) Ef þm. er með eitthvað slæma samvisku get ég ekkert að því gert. (SJS: Frekar að ráðherrann sé með slæma samvisku.) Ég ætla ekki að svara neitt þessum þm. Ég er að segja að það sé ákaflega takmarkaður áhugi nema rétt þegar verið er að afgreiða þessi mál og ég stend við það. Þm. getur blaðrað eins og hann vill fyrir mér, en helst ekki hérna í salnum. Hann blaðri þá frammi. Það fer betur á því.

Svo tala menn um að það ætti að afgreiða vegáætlun til eins árs og það er sérstaklega gaman að heyra þetta frá jafnraunsæjum þm. og Geir Gunnarssyni. Hann var í fjvn. 1983 og Hjörleifur Guttormsson ráðherra í ríkisstjórn. Þeir fóru út í kosningar án þess að afgreiða nokkra vegáætlun. Það var byggt á tekjustofni af umferðinni sem aldrei varð að veruleika. Þegar ég tók við sem samgrh. tók ég ekki við neinni afgreiddri vegáætlun. Hins vegar má segja að það var búið að marka öll útgjöldin í þeirri vegáætlun og allur almenningur og öll byggðarlög á landinu vildu álíta að sú ríkisstjórn sem tæki við mætti ekki skerða eða skera niður þær framkvæmdir sem voru á þessu blaði. Þannig var viðskilnaðurinn, hv. Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. iðnaðar- og orkuráðherra. Þetta var getan í þessum efnum. Það vantar ekki alltaf að það eigi að gera betur. Ég bendi mönnum á að eftir tvö ár á að endurskoða vegáætlun. Hver bannar væntanlegri ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta að breyta eða bæta við? Ég skal alveg taka á mig einn og sér þá ábyrgð hvernig vegáætlun er stillt upp.

Ég var ófáanlegur til annars í ríkisstjórninni en að miða við 2,4% af vergri þjóðarframleiðslu. (Gripið fram í: Á hvaða ári?) Fyrir öll þrjú árin. Fjárlögin eru búin að marka framkvæmdirnar á þessu ári. Þau verða ekki brotin upp. En ég var ófáanlegur til annars. Ég ætlaði ekki að taka það á mig að breyta þeirri ákvörðun. Hitt er svo annað mál að það fékkst ekki samkomulag um að skipta hærri upphæð. Ef menn halda að það sé einhverjir erfiðleikar að skipta hærri upphæð til framkvæmda fara þeir villir vegar því það verður afskaplega létt verk.

Út af athugasemd hæstv. sjútvrh. hér sem þm. Austurlands, þá finnst mér alveg sjálfsagt að þau mál verði tekin þegar til athugunar og umræðu. Ég hef bæði talað við vegamálastjóra og formann fjvn. um að þau mál verði rædd og um þau verði mótuð ákveðin stefna. Hins vegar held ég að sífelldur metingur á milli hinna einstöku kjördæma þjóni ákaflega litlu, en ég skal ekki setja mig upp á móti því heldur vera algerlega inni á því að hér verði ekki til langframa eitthvert misræmi á milli. Hitt hefði ég kosið að það væri meira til skiptanna og þá hefðu sumir menn mátt heldur betur spjara sig að koma manni til aðstoðar, enda bar ég fram tillögu um það á s.l. ári að nota það gullna tækifæri sem gafst þegar bensínverðið var að falla til að nota þrjár krónur á hvern lítra til aukinna framkvæmda í vegagerð sem hefði þýtt um 300 millj. kr. miðað við heilt ár. (KP: Hverjir eru þessir sumir?) Ég ætla ekki að vera með neinn nafnatalningarlista. Það náði ekki fram að ganga í ríkisstjórninni og það hefði verið nóg hefði einn maður verið á móti. Þá var ekki hægt að taka þá ákvörðun. Þannig er það. Maður verður oft og tíðum að búa við ýmislegt annað en maður sjálfur vill koma fram. Ég er ekkert kominn til með að segja að þó Alþfl. eigi eftir að koma í ríkisstjórn muni alveg renna í gegn stórfelld hækkun til vegamála. Þar eru líka sams konar fírar og var verið að nefna áðan undir ræðu hv. 3. þm. Vestf. (KP: Og tekið undir.) og margir tóku undir. En ég skal lofa 3. þm. Vestf. því að þó ég verði hér á næsta þingi í stjórnarandstöðu skal ég með atkvæði mínu stuðla að aukningu fjármagns til vegagerðar. Ég mun ekkert sveiflast til eða frá eftir því hvort ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu og engan spyrja í þeim efnum.

Ég vil taka það hér fram að þegar umræðan varð um langtímaáætlun í vegagerð var ég valinn fyrir minn flokk til að vinna að þessari langtímaáætlun. Þá voru fjórir stjórnmálaflokkar á Alþingi og ég var fulltrúi Sjálfstfl. þar og lagði mig allan fram um að ná samkomulagi við þáverandi stjórnarflokka eða alla flokka á þingi um sameiginlega till. um langtímaáætlun í vegamálum. Ég hélt því ákveðið fram í mínum flokki að þó hann væri þá í stjórnarandstöðu ætti hann ekki að skilja leiðir á milli sín og ríkisstjórnarflokkanna í þeim efnum. Það voru erfið mál að vinna að. Þar voru uppi þau sjónarmið að arðsemin, umferðin ætti að ráða svo að segja öllu. Það hefði þýtt að umferð í gegnum ákveðin kjördæmi, eins og Vestfjarðakjördæmi, hluta Vesturlandskjördæmis, hefði orðið með þeim hætti að framlög þar hefðu farið niður úr öllu vegna legu þessara kjördæma eða hluta af þessum kjördæmum. Þar náðu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna mjög ánægjulegu samstarfi og góð samvinna var á milli okkar allra og vegagerðarmanna.

Ég minni menn á að á s.l. ári voru lagðir um 280 km af nýju bundnu slitlagi og á undanförnum fjórum árum hafa verið lagðir tæpir 200 km á ári að meðaltali. Á undanförnum árum hefur verið lagt einbreitt bundið slitlag á samtals 233 km af umferðarminni vegum. Breidd þess er 3,8 m í staðinn fyrir 5,5-6 m sem er venjuleg breidd. Reynsla af þessu hefur verið jákvæð og það hefur verið ákveðið að halda áfram á þeirri braut.

Ég minni á að bundið slitlag er komið á 1420 km og hefur því lengd þess tvöfaldast á undanförnum fjórum árum. Nú er svo komið að bundið slitlag er komið á um 45% af hringveginum, á um þriðjung leiðarinnar Reykjavík-Ísafjörður, svo dæmi séu tekin, og á leiðinni Reykjavík-Egilsstaðir er bundið slitlag á um 45% leiðarinnar hvort sem farin er syðri eða nyrðri leiðin.

Ég verð að segja að þrátt fyrir þennan samdrátt í fjármagni til vegagerðar hefur náðst þarna betri árangur en menn hefðu búist við. Þar kemur margt til sem ég greindi ítarlega frá við framlagningu þessarar vegáætlunar.

Þjóðvegakerfi landsins er mikið og langt. Það er tæplega 8500 km. Þar af eru um 3800 km af stofnbrautum. Þetta langa vegakerfi er vitanlega mjög misjafnt að gæðum og hefur þó vissulega farið mjög batnandi undanfarin ár. Nú er talið að rúmlega 60% stofnbrauta þoli 10 tonna öxulþunga allt árið og þetta hlutfall hefur hækkað um 10% á síðustu fjórum árum. Sambærileg tala fyrir þjóðbrautir er hins vegar aðeins um 30%. Það má því segja að árangur hefur að vissu leyti verið mjög góður miðað við fjármagn þó maður hefði viljað ná enn meiri og betri árangri. En það hefur verið gert með því að standa við langtímaáætlunina. Það er ekki fyrr en á síðasta ári að það hefur verið horfið frá upprunalegum áætlunum um uppbyggingu vega til að ná þessum árangri og þetta hefur haft sitt að segja.

Ég sagði þegar ég mælti fyrir vegáætluninni að ég hefði viljað nota tækifærið þegar bensínverðið lækkaði, en ég varð ekki var við mikil viðbrögð við þeirri till. Það voru ekki neitt háværar yfirlýsingar frá stjórnarandstöðu, sveitarfélögum eða þeim sem mest knýja á um auknar framkvæmdir í vegamálum. Oft þegar menn hafa komið með kröfugerðir sínar á minn fund hef ég minnt þá á þetta. Þá hafa þeir sagt: Ja, það er nú svona. Við látum okkur ekki miklu varða þegar er verið að tala um að afla peninga til hlutanna. M.a.s. forustumenn t.d. í launþegahreyfingunni og meðal atvinnurekenda voru sumir hverjir ósköp áhyggjufullir ef það ætti að fara inn á þessa braut. Þeir vildu heldur að þetta færi í eyðslu hjá öllum almenningi. En þetta hefði skilast fólki aftur til baka í betri vegum og betri nýtingu og minni reksturskostnaði bifreiða. Þar af leiðandi var skynsamlegt að fara þessa braut.

Ég tel að það verði ekki komist hjá því að leggja aukið framlag til vegamála umfram þessa mörkuðu tekjustofna. Ég hef ekkert farið dult með að ég hef viljað ganga lengra í þessum efnum og ég er ekkert að deila á annan stjórnarflokkinn en ekki hinn. Ég deili í því sambandi á þá báða. Það hafa verið menn í báðum þessum flokkum sem hafa stoppað. Og ég veit að það eru menn líka í flokkum í stjórnarandstöðu sem hafa allt til þessa talið framlög til vegamála vera ærin nóg.

Ég sagði að með því að auka framlög til vegamála eigi fyrst og fremst að skipta fé til þriggja verkefna. Í fyrsta lagi til verkefna á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru grófar áætlanir þar sem vantar framkvæmdir upp á 765 millj. kr. Það er ekki nóg að lækka bíla í verði og láta þeim fjölga ár frá ári. Það þarf líka að sinna umferðinni fyrir þá þannig að það myndist ekki umferðarhætta og umferðartafir þar sem umferðin er mest. Í öðru lagi tel ég brýna nauðsyn bera til að stórauka framlög til brúagerða, sem hefur verið dregið meira úr en flestu öðru, og veguppfyllinga í sambandi við brúagerðir. Þar eru gríðarlega mikil verkefni sem þarf að ganga í. Og í þriðja lagi tel ég að þegar jarðganganefndartillögurnar liggja fyrir þurfi að fá 1/3 af þessum tekjum til jarðgangagerðar. Það verður ekki hjá því komist að byrja á því að stórauka framlög til jarðgangagerðar í Ólafsfjarðarmúla því það dugar ekki að taka það með þeim hætti eins og hér er gert. Það verður að auka þessi framlög. Hjá því verður ekki komist. En í framhaldi af því verður að taka næsta verkefni sem þá verður fyrir valinu og Alþingi tekur ákvörðun um þannig að það verði unnið áfram án þess að hafa hlé í jarðgangagerð í 10-15 ár eins og verið hefur hér á landi í mörg undanfarin ár.

Ég hefði talið hvað snertir það fjármagn sem er komið í Blönduvirkjun, í jarðgangagerðina þar, að arður af því hefði nýst betur í jarðgangagerð til að bæta samgöngur á milli blómlegra byggðarlaga. Ég hefði heldur viljað að það fjármagn hefði farið í Ólafsfjarðarmúla og að hann væri búinn núna. Það er enginn arður af þessu fjármagni árum saman. Þetta er dauð framkvæmd. Af hverju er hún það? Af því að það er enginn markaður fyrir orkuna. Þarna var farið af stað með þessum ógnar hraða.

Allir héldu að menn biðu bara í biðröð eftir því að kaupa orku af okkur Íslendingum og hvað er búið að eyða og búið að fara víða til að selja þessa orku og reyna að fá hingað erlendar þjóðir til að reisa eða stækka stóriðjufyrirtæki? Þetta má helst ekki tala um. Það voru menn sem æddu áfram á þessum árum. Svo tóku aðrir við og lentu í sama forarpyttinum.

Ég tel ekki, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson, að það sé höfuðatriðið að markaðar tekjur þýði eitthvað minna framlag til vegamála. Aðalatriðið er hvert er heildarframlagið til vegamála og það er það sem við deilum ekki um, ekki þeir menn sem taka þátt í þessum umræðum. Það vantar kannske eitthvað af hinum hérna inn á fundinn. Við deilum ekki um að það hefur orðið aukning á þessum árum. En við skulum heldur ekki gleyma því að ríkið hefur misst stórkostlegar tekjur við lækkun á olíu og bensíni. Ríkið hafði ólíkt meiri tekjur af þessu t.d. í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar, en þegar verðlag fór lækkandi lækkuðu tekjur ríkisins stórkostlega. Það gerir ekki að verkum að ég telji ekki að það hefði mátt fara yfir á aðrar leiðir. Og hvað sem hver segir um stórhættu þjóðfélagsins af erlendum lántökum, og ég tek undir að þær eru hættulegar ef það eru tekin erlend lán til að éta þau út eða í einhvern lúxus, en ef það eru tekin erlend lán sem lækka rekstrarkostnað innanlands sem skilar sér aftur í auknum arði finnst mér það engin goðgá að taka ákvörðun um erlenda lántöku til að flýta tilteknum framkvæmdum í vegagerð.

Ég vil svo að síðustu þakka fjvn. fyrir hennar vinnu og að þessum brtt. Það hefur aldrei verið vinsælt verk að standa í því um dagana. Það þekki ég af eigin raun frá því að ég var í þeirri ágætu nefnd. En síðast en ekki síst vil ég að það komi hér fram að ég þakka vegamálastjóra og verkfræðingum og starfsmönnum Vegagerðarinnar fyrir sérstaklega góða og lipra samvinnu í þessum efnum. Ég ætla ekki að kasta rýrð á aðrar stofnanir þó ég segi að það má leita víða eftir svo góðri samstöðu og samvinnu og hefur verið á milli samgrn. og Vegagerðar.