17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4380 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn séu hálfdaprir yfir þessari vegáætlun eins og hún lítur út miðað við það sem hefur verið stefnt að á undanförnum árum. Það er staðreynd, sem þýðir ekki fyrir neinn að mæla á móti, að í þessu felst mikið afturhvarf t.d. miðað við langtímaáætlun og miðað við þau fyrirheit sem gefin hafa verið í sambandi við vegamál.

Þeir sem búa úti á landsbyggðinni líta á vegina sem lífæðar byggðanna og þegar þetta afturhvarf birtist í þingsölum á kosningaári hlýtur það að skapa óhug hjá þeim sem hafa gert ráð fyrir og fengið fyrirheit um auknar vegaframkvæmdir fyrir sín byggðarlög. Ég efast ekkert um að hæstv. samgrh. hafi reynt að gera sitt til þess að þessi niðurstaða yrði önnur en blasir við. En fyrst þetta liggur fyrir fyrir kosningar og ef einhver með annað hugarfar yrði í stóli samgrh. eftir kosningar á hverju ættum við þá von?

Það er alveg sama hvernig litið er á þetta mál. Þetta er það minnsta af þjóðartekjum. Prósenttala af þjóðartekjum er komin ofan fyrir 1,5% að upplýst hefur verið hér í umræðum og hefur aldrei verið svo lág á þessum áratug a.m.k. Ég var dálítið undrandi yfir ræðu formanns fjvn. áðan, hvað hann var ánægður með þessa niðurstöðu. Ég vil ekki trúa því að formaður fjvn. sé jafnánægður í hjarta sínu og honum mæltist hér í ræðustól. Ég trúi því ekki. En honum hefur kannske verið falið að mæla svo sem við hlýddum á.

Hæstv. samgrh. sagði áðan að það yrði að koma fjármagn í Ólafsfjarðarmúla, í jarðgöngin þar, og ég veit að hann vill stefna að því. En miðað við þau loforð sem voru gefin áttu framkvæmdir að hefjast á næsta ári í Ólafsfjarðarmúla, 1988, og það var búið að setja á blað á því verðlagi og samkvæmt áætlunum sem þá lágu fyrir 50 milljónir á því ári til þeirra framkvæmda. Nú er stórlækkuð talan, ný áætlun. Það er auðséð að það er afturhvarf í vegáætlun og eins og þetta mál sé komið í biðstöðu. Og þetta gerist á kosningaári. Það er hörmulegt að það skuli koma í ljós að hæstv. ráðh. tekst ekki að fá meira fjármagn í framkvæmdir í vegamálum þrátt fyrir öll fyrirheitin, þrátt fyrir að allir flokkarnir stóðu að langtímaáætlun, þrátt fyrir að það er viðurkennt að það sé mjög hagstætt ár fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Þrátt fyrir allt þetta er niðurstaðan þessi.

Í mínum huga, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðh. hefur komið með, og ég veit að hann talar af heilum hug, er Ólafsfjarðarmúlinn kominn í biðstöðu. Hve lengi verður framtíðin ein að skera úr. Það er ekki búið að naglfesta þetta mál, eins og ég taldi að hefði verið gert þegar var samið um Óvegina þrjá. Það sýnir þessi áætlun sem hér liggur fyrir. Það er ekki líklegt að núverandi hæstv. ráðh. verði samgrh. eftir kosningar að hans eigin sögn. (Samgrh.: Örugglega ekki.) Örugglega ekki, segir ráðherra. Hvern skyldum við þá fá í stólinn? Ef það væru menn með þau sjónarmið, sem eru hér allt of mikið á ferðinni, að það sé nóg fjármagn í vegina, jafnvel hjá sumum landsbyggðarmönnum ef það má marka tal þeirra.

Það er auðséð að landsbyggðin hefur ekki þann skilning sem hún þarf að hafa í þingsölum og þessi niðurstaða er í sjálfu sér alveg furðuleg miðað við langtímaáætlunina. Svo er því haldið fram að þrátt fyrir samdráttinn hafi þessum vegamálum þokað fram furðuvel. Það er að vísu rétt. En hv. þm. verða að athuga að í sambandi við útboðin er komin upp önnur staða en var á fyrsta tímabili langtímaáætlunar. Það er ekki boðið niður nú eins og þá var. Það fást ekki jafnstórir áfangar fyrir takmarkað fé og hefur verið á síðustu árum. Það viðurkennir Vegagerðin og það sjáum við á niðurstöðu útboðanna.

Ég hefði viljað að það yrði öðruvísi gengið frá þessum málum, þ.e. því loforði að hefja framkvæmdir í Ólafsfjarðarmúla á árinu 1988. Það var sagt einu sinni að einn frægur Íslendingar hefði ætlað að selja Bretum norðurljósin. Svona yfirlýsingar á kosningaþingi minna mig á að það sé ekki svo ólíkt að lofa því nú að það skuli verða útvegað fjármagn eftir kosningar og þegar þessi frægi Íslendingur reyndi að selja Bretum norðurljósin.

Ég er með fyrir framan mig tölur um hvernig þetta hefur þróast frá 1980 í sambandi við framkvæmdamátt þess fjármagns sem fer til nýbygginga. Á árinu í ár er þetta lægsta talan á öllum þessum árum frá 1980, ef þessi tala er rétt. Hún var lesin upp í þessum ræðustól áðan. Þetta er umhugsunarefni.

Ég vona að hæstv. samgrh. sé þar að hann hlusti á mál mitt. Ég endurtek að ég vil fara þess á leit við hæstv. ráðh. að hann reyni að ganga frá þessu máli á þann veg að það sé meira naglhald í því en mér sýnist vera. Svarið verður kannske það sem ég er hræddur um. Loforð hafa reynst lítils virði í þessu efni. Og þó að hann sé allur af vilja gerður að beita sér fyrir því heyrðist mé.r á máli hans áðan að hann treysti sér frekar til að koma þessum málum áfram ef hann væri í stjórnarandstöðu en samgrh. Það mátti lesa í það sem hann sagði. Þá sjáum við hvernig ástandið er í hans flokki. Hann gat um að það væri ekki gott heldur mín megin. Miðað við það sem hann sagði var hægt að lesa þannig í málið. (Samgrh.: Það eru tveir flokkar í ríkisstjórninni og hvorugur góður.) Ég veit það. Það er líklega svo. Þetta er góð yfirlýsing hjá hæstv. ráðh., að hvorugur þeirra sé góður. Þá er hann búinn að játa að það sé ekkert naglhald í þeirri yfirlýsingu sem hann var í sjálfu sér að gefa áðan, þetta er hans persónuleg ósk, en nær ekki lengra. (KP: Vissi hv. þm. þetta ekki?) Ég vildi bara fá þetta staðfest. Ég hafði grun um það.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég veit að Ólafsfirðingar t.d. verða ekki hressir með þessa niðurstöðu. Það var rætt um að ef yrði afgangur af því fjármagni sem ætlað var í Ólafsvíkurenni og Óshliðina ætti það að flýta framkvæmdum og ganga til jarðganganna í Ólafsfjarðarmúla. Ekki hef ég á reiðum höndum hvað mikill afgangur verður af því miðað við áætlanir og verðlagsbreytingar, en ég hygg þó að það sé töluverð fjárhæð. Ef ég man rétt mun það vera a.m.k. tveir tugir milljóna, en þetta er eftir minni og vil ég ekki fullyrða að þetta sé rétt. En nú blasir við að þó að væri samið um að þetta yrði gert, og það er ekki hægt að fara í jarðgangagerð í Múlanum öðruvísi en gera það á u.þ.b. tveimur árum, klára a.m.k. jarðgöngin sjálf, að til þess mundi þurfa, ég veit ekki hvað, átta ára framlög miðað við það sem er á þessari fjögurra ára áætlun. Þá sjáum við hvernig málið stendur. Fyrir utan þau vonbrigði sem eru annars staðar og hæstv. sjútvrh. gat um í máli sínu áðan og fleiri hv. þm. hafa látið á sér heyra hvað snertir þessa vegáætlun. Þetta er í sjálfu sér eitt dapurlegasta mál miðað við forsöguna sem ég hef staðið frammi fyrir á mínum þingferli.