17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4383 í B-deild Alþingistíðinda. (4134)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. samgrh. gæti fært sig inn í þingsalinn eða a.m.k. í dyrnar þannig að ég fengi að vera þeirrar náðar aðnjótandi að berja hans æruverðugu ásjónu augum. (KP: Formaður Alþb. er með hann.) Hann hlýtur að geta séð af honum smástund.

Mér fundust ummæli hæstv. samgrh. óskaplega geðvonskuleg þegar hann kom upp og eiginlega agnúaðist út í að menn hefðu verið að ræða samgöngumál og vegamál og gerði því skóna að þetta væri allt saman sýndarmennska og uppgerðaráhugi sprottinn af því að það nálgast alþingiskosningar. Þetta er heldur ómerkilegur skætingur þegar hæstv. ráðh. tekur þannig á málefnalegri umræðu um samgöngumál og bendir til þess að ráðherrann hafi annaðhvort farið öfugu megin fram úr í morgun eða sofið illa í nótt nema hvort tveggja væri. Svo er það til viðbótar alveg ljóst að ráðherrann er með vonda samvisku. Honum líður illa út af þessari vegáætlun. Það er skiljanlegt. Við höfum samúð með ráðherranum og við vorkennum honum fyrir að þurfa að leggja slíkt plagg hér fyrir og fram. En það er ekki hyggilegt af honum, að ég tel, að taka málefnalegum umræðum þm. um þetta mál með þeim hætti sem hann gerði í geðvonsku sinni í upphafi máls síns. En það rjátlaðist af honum og hann komst niður á jörðina og fór að ræða þessi mál málefnalega eftir því sem á leið í hans ræðu.

Ég vil til að mynda mótmæla því svo það liggi ljóst fyrir og ég vísa til föðurhúsanna að hvað mig varðar sé hérna um einhvern nýtilkominn sýndarmennskuáhuga að ræða. Ég bendi hæstv. samgrh. á að á hverju einasta þingi sem ég hef setið hef ég flutt eina eða fleiri till. sem snerta samgöngumál með einum eða öðrum hætti. Ég hef rætt um þau mál í hvert skipti sem vegáætlun hefur komið til umfjöllunar og við fleiri tækifæri, svo sem við afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu fjáröflunar til vegamála hef ég rætt þetta tiltekna efni. Ég lagði fyrir á tveimur þingum till. til þál. um langtímaáætlun í jarðgangagerð. Þeirri till. var á síðasta þingi vísað til ríkisstjórnarinnar og mér er ekki örgrannt um að hæstv. samgrh. hafi farið í smiðju til tillöguhöfunda þegar hann hefur verið að sækja sér efni í ræður í jarðgangaáætlanir til að halda á fundum sínum úti um landið. A.m.k. bar svo merkilega við að á fyrsta sumri eftir að nefnd till. var lögð fram á Alþingi hóf hæstv. samgrh. fundaferð um landið og hafði þá þann boðskap fram að færa að hann hefði áhuga á því að láta gera langtímaáætlun um jarðgangagerð. Honum láðist hins vegar, hæstv. ráðh., að geta þess að þetta mál hefði þegar verið flutt á Alþingi af tveimur hv. þm. En látum það liggja á milli hluta og má vera óbætt utangarðs mín vegna.

Ég minni hæstv. samgrh. á að fyrir þessu þingi liggur einnig till. frá mér og fleiri hv. þm. um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og meiri háttar mannvirkjagerðar. Ég minni á að fyrir tveimur þingum fékk ræðumaður samþykkta þáltill. um bætta merkingu akvega. Ég minni á að ræðumaður hefur átt aðild að tillöguflutningi um reglugerð um auglýsingar meðfram vegum. Svona gæti ég talið áfram ef hæstv. samgrh. hefur áhuga á. En þetta ætti kannske að duga honum til að vera ekki með skæting uppi með það að hv. þm. hafa ekki áhuga á samgöngumálum nema rétt fyrir kosningar og kannske á jólum og páskum. Ég mótmæli, herra forseti, svona geðvonsku og skætingi og vona að hæstv. samgrh. hafi ekki uppi frekari tilburði til að óvirða ræðuhöld hv. alþm. um vegáætlun og samgöngumál af því tagi sem hann gerði hér áðan.

Ég vil svo í lokin bæta því við, svona rétt til þess að hnykkja á þessu að nýlega var afgreidd úr samgn. Nd. flugmálaáætlun með eindregnum stuðningi ræðumanns og með hvatningu hans og það kom í minn hlut þó stjórnarandstæðingur væri að reka á eftir því að sú áætlun yrði afgreidd út úr nefndinni til þess að hún dagaði ekki uppi í önnum þingsins á síðustu dögum. Enn frekar mótmæli ég því þeim ummælum hæstv, samgrh. að áhugi minn og annarra hv. þm. á samgöngumálum sé sýndarmennskuáhugi einn. Það sæmir ekki hæstv. ráðh. og reyndum þm. að tala með þessum hætti. Þetta er ekki framboðsfundur á Vestfjörðum, hæstv. samgrh.

Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur rakið ítarlega hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur staðið að framkvæmd langtímaáætlunar um vegagerð á sínu kjörtímabili og þá dapurlegu niðurstöðu, sem nú blasir við, að framlög hafa að raungildi lækkað ár frá ári allan tímann sem þessi ríkisstjórn hefur farið með fjármál og að fjárveitingunum miðar þannig aftur á bak en ekki á rétta leið. Þetta er dapurleg niðurstaða. Það kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns, sem er þingreyndur maður, að hann tók svo stórt upp í sig að segja að þetta væri ein dapurlegasta niðurstaða sem hann hefði horft framan í á öllum sínum þingferli. Ég tek ekki svo djúpt í árinni, en það eru óneitanlega mikil vonbrigði að sjá endurskoðaða áætlun til næstu fjögurra ára þar sem slíkt vonleysi ríkir yfir vötnunum eins og raun ber vitni og menn treystast ekki til að skipta til framkvæmda nema stórskertu fé frá því sem áætlað var. Þetta eru þeim mun meiri vonbrigði, herra forseti, þegar tekið er tillit til þess að samgöngumálin sem málaflokkur fara vaxandi að mikilvægi nánast í öllu tilliti. Það er ljóst að þörfin fyrir greiðar og góðar samgöngur er vaxandi. Kröfurnar fara mér liggur við að segja dagvaxandi. Mig hryllir satt best að segja við því að á þessum sömu dögum og hæstv. Alþingi er að samþykkja ný umferðarlög þar sem m.a. er gert ráð fyrir auknum hámarkshraða á vegum skuli vera til meðferðar langtímaáætlun um vegamál þar sem meira og minna er skorið niður frá þeim áformum sem áður voru uppi höfð.

Ég óttast sérstaklega vaxandi hættu á því að þeir kaflar sem út undan eru á hringveginum og víðar í vegakerfi landsmanna fari eftir því sem uppbyggingunni miðar áfram annars staðar að stinga sífellt meir í stúf og verða hlutfallslega lakari en áður var. Svona slysakaflar, eins og stundum eru nefndir, til að mynda vegarkafli í Norðurárdal, verða þeim mun hættulegri sem ástand veganna að öðru leyti batnar. Þetta liggur í hlutarins eðli. Vegakaflar sem fyrir 10-15 árum, jafnvel fyrir 5-8 árum, þóttu ekkert afbrigðilegir eða sérstaklega slæmir eru nú titlaðir sem sérstakir slysakaflar einfaldlega vegna þess að akstursmátinn hefur breyst á þeim hluta vegakerfisins sem kominn er í betra horf. Þess vegna er mjög slæmt að mínu mati að ekki skuli samhliða stefnumörkun og afgreiðslu nýrra umferðarlaga gengið fastar fram í því verkefni að útrýma þessum hættulegu köflum á þeim hluta vegakerfisins sem mesta umferð ber. Það er einnig, eins og ég áður sagði, í mikilli mótsögn við þá niðurstöðu við setningu umferðarlaga að leyfa hærri hámarkshraða. Þó gert sé ráð fyrir að það sé bundið við þann hluta vegakerfisins sem í skástu ástandi er er engin spurning að þetta eykur hætturnar á því að slysum fjölgi á þeim slæmu vegarköflum sem eftir liggja og með sama áframhaldi tekur fleiri, fleiri ár, jafnvel áratugi, að koma í skikkanlegt horf. Hvað öryggi að öðru leyti varðar í vegamálunum óttast ég, eins og hv. 5. þm. Austurl. vék reyndar að, að sú mikla áhersla sem lögð er á bundið slitlag komi niður á því að uppbygging vega og undirbygging sé látin mæta meiri afgangi en áður var ætlað, slitlag lagt á lélegri vegi, vegi sem ekki standast staðal eins og svo er kallað, vegi sem ekki fullnægja m.ö.o. þeim öryggiskröfum sem á að setja á hringveginum og umferðarmeiri vegum. Þeir eru lagðir bundnu slitlagi, jafnvel af mjórri gerðinni, áður en búið er að byggja þá upp í það horf sem áætlað var. Þetta er mjög varhugaverð þróun frá sjónarmiði umferðaröryggis séð. Það er óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessu, ekki síst þegar haldnar eru langar hólræður um að svo og svo vel hafi nú miðað með að leggja bundið slittag. Það er gott í sjálfu sér og gleðilegt, en það alvarlega er ef það kemur niður á öryggi í umferðinni eins og viss hætta virðist á með sama áframhaldi.

Ég vil þá lítillega nefna, herra forseti, mál sem oft hefur komið hér til umræðu og það er útboð í vegagerð og verklag og vinnulag í þeim efnum. Loksins hillir undir það, ef það er ekki þegar orðið að veruleika, að afgreidd verði út úr þinginu þáltill. um úttekt á þeim málum og ber að fagna því þó seint sé. Ég hef verið talsmaður þess að setja ætti skýrar reglur um vinnulag í þessum efnum og væri bráðnauðsynlegt að svo yrði gert. E.t.v. er óhætt að vona að í kjölfar þeirrar úttektar, sem nefnd þáltill. mun hafa í för með sér, skapist aðstæður hér til að setja slíkar reglur þannig að Vegagerð ríkisins hafi skýrar reglur sér til leiðbeiningar um hvernig hún skuli standa að útboðum verka. Ég hef þar helst talið koma til greina að miða ætti við að verk af ákveðinni stærð, þ.e. stærstu verkefni í vegagerð, ætti að bjóða út í opnum útboðum um allt land. Verk af millistærð, miðlungs verkáfanga, kæmi til greina að bjóða út svæðisbundið eða staðbundið með einhverjum hætti þannig að möguleikar heimamanna yrðu þar sérstaklega tryggðir til að annast slík minni verkefni, enda liggur það væntanlega í hlutarins eðli að hagkvæmni þess fyrir verktakaflokka að ferðast um landið þvert og endilangt er bundin því að verkin séu svo stór að flutningskostnaður og uppihald verði ekki allt of hár hluti af framkvæmdakostnaði. Í þriðja lagi tel ég að Vegagerðin eigi skýlaust að annast sjálf ákveðin verkefni á þessu sviði, viðhaldsverkefni og smærri verkefni í nýbyggingum vega. Fyrst og fremst til þess að til staðar verði hjá Vegagerðinni á hverjum tíma verkþekking og verkreynsla þannig að hún sé sjálf fær um að meta stöðu slíkra mála, meta verk, taka þau út og fylgjast með að framkvæmd annarra verka sem hún býður út sé með skikkanlegum hætti. Ég sé ekki að þetta verði tryggt með farsælum hætti nema Vegagerðin sjálf haldi uppi vissri þekkingu, vissu afli og vissum möguleikum á þessu sviði. Þess vegna er ég algerlega mótfallinn þeirri þróun sem verið hefur að eiga sér stað, þ.e. ef hún gengur of langt, að Vegagerðin láti alfarið af því að hafa þjálfaða menn og einhver tæki til að geta tekist sjálf á hendur minnstu verkefni í vegagerð.

Ég þekki nánast enga þjóð, hversu langt sem hún er komin í frjálshyggju, sem býr ekki við það að vegagerð, annaðhvort á vegum ríkisins eða fylkja eða sveitarfélaga, annist tiltekin verkefni og hafi vissa verkþekkingu og hef ég þó kynnt mér hvernig þessum málum er háttað hjá ýmsum þjóðum. Það er nánast undantekningarlaust þannig að opinberir aðilar sjá um visst hlutverk á þessu sviði. Mér þykir það vægast sagt sérkennilegt ef við Íslendingar með okkar dreifðu byggðir og erfiðu aðstæður að mörgu leyti getum treyst alfarið á blessun frjálshyggjunnar í þessum efnum. Það hefur þegar sýnt sig að í þessu felast stórar hættur og á þó eftir að versna ef sömu öfl ráða ferðinni sem gert hafa það síðustu árin.

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að þessari umræðu sé markaður naumur tími á síðustu dögum þingsins, og væri út af fyrir sig hægt að láta nokkur orð falla um hvernig stórmálin raðast upp á allra síðustu klukkustundir þinghaldsins, en nokkur orð um Ólafsfjarðarmúlann. Það hefur verið á dagskrá og stefnt að því að hefja þar framkvæmdir á árinu 1988. Það er ljóst af þeirri vegáætlun sem hér á að fara að samþykkja að ef það á að takast með skikkanlegum hætti þarf að afla verulegs viðbótarfjármagns strax á árinu 1988 til þess að framkvæmdir geti gengið eðlilega fyrir sig. Því hagar þannig til með jarðgangagerð, alla vega á Íslandi, að þar þarf helst, ef vel á að vera, að hefja framkvæmdir á miðju sumri eða ekki mikið seinna meðan veður eru þokkaleg þannig að unnt sé að komast inn í fjallið og ganga frá munnum áður en frost og vetrarhörkur ganga í garð. Þetta þýðir að verkið þarf að hefjast á miðju ári eða upp úr miðju ári 1988. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hægt sé að halda áfram á fullri ferð út árið. Þetta sýnist mér kalla á a.m.k. 20-40 millj. kr. viðbótarfjármagn strax á árinu 1988. Til þess að framkvæmdir geti síðan gengið eðlilega fyrir sig með fullum afköstum hjá einum vinnuflokki með eina tækjasamstæðu sem nær a.m.k. að meðaltali rúmlega einni sprengingu á sólarhring þarf að bæta við, eftir því sem mér sýnist, upphæð á bilinu 70-100 millj. kr. á hvoru árinu fyrir sig, 1989 og 1990, og enn til viðbótar 1991 og e.t.v. eitthvað lengur einhverju fjármagni til að ljúka verkinu og greiða upp þær eftirstöðvar sem verða kynnu.

Þetta þýðir að talsvert meira en orðin tóm þurfa að koma til miðað við þá vegáætlun sem hér er verið að afgreiða. Ég tel ekki ástæðu til að gera lítið úr þeirri bókun sem náðst hefur samstaða um og allir fulltrúar í virðulegri fjvn. skrifa undir með þeim fyrirvörum þó að sjálfsögðu sem þeir hafa á um stuðning við nál. að öðru leyti. Ég treysti því og ég lýsi því yfir að það er skilningur minn á þessari bókun að með því skuldbindi viðkomandi aðilar sína flokka til að standa við þessa yfirlýsingu. Ég vil að það komi fram í þessari umræðu og ekki seinna en við þessa umræðu ef skilningur einhverra er annar en þessi. Ef skilningur einhverra flokka eða einhverra þm. er annar en sá að með undirskrift sinni undir nál. fjvn. skuldbindi viðkomandi flokkar sig til að standa að og styðja þá bókun þarf það að koma hér fram. Annað væru brigður og þá þyrfti það að liggja ljóst fyrir. Stuðningur minn við þessa vegáætlun er algerlega bundinn því að þessi skilningur sé réttur, að fulltrúar allra flokka sem undirrita nál. fjvn. skuldbindi sína flokka þar með til að styðja framgang samþykktar um aukna fjáröflun til framkvæmda í Ólafsfjarðarmúla þegar þær hefjast á árinu 1988. Ef svo er ekki er öll samstaða af minni hálfu a.m.k. farin veg allrar veraldar hvað varðar afgreiðslu þessarar vegáætlunar.

Ég hef verið mikill talsmaður þess að samstöðunni yrði haldið um langtímaáætlun í vegagerð. Það hefur ekki staðið upp á okkur þm. Norðlendinga eða Norðurlands eystra þau ár sem vegáætlunin hefur verið við lýði að styðja að framgangi hennar að því er ég best veit. Þess vegna kæmi það úr harðri átt ef Ólafsfjarðarmúlinn, sem hafður var síðastur í röð svonefndra Ó-verkefna, yrði skorinn niður þegar hin tvö verkin hafa verið kláruð. Slíkt gengur ekki og þess vegna reiðum við okkur á þann drengskap og á þann stuðning að engar brigður verði á því að staðið verði við anda langtímaáætlunarinnar, að samstaðan verði ekki rofin og að við megum treysta því að þessi bókun haldi þegar til kastanna kemur.

Ég vil svo að lokum segja að ég er reyndar sammála hæstv. samgrh. um að erlendar lántökur eru ekkert bannorð í mínum huga frekar til vegagerðar en til annarra þarfra verkefna. Það er þó augljóst mál að það er óhagstæður kostur fyrir vegagerðina sem málaflokk og sérstaklega óhagstæður og varhugaverður kostur fyrir einstök kjördæmi að fara út á þá braut að taka í stórum stíl lán til framkvæmda sem síðan þurfa að greiðast af framkvæmdafé viðkomandi kjördæma á síðari árum. Það er mjög óhagstætt að stefna inn á það sérstaklega með tilliti til þess að það mundi skapa ýmsa erfiðleika við áframhaldandi framtíð langtímaáætlunarinnar við vegagerð ef farið yrði inn á þá braut vegna framkvæmda í einstökum kjördæmum. En ég tek það aftur fram að í mínum huga eru þó erlendar lántökur ekkert frekar bannorð til vegamála en til annarra framkvæmda. Það má út af fyrir sig segja að það geti komið þannig út hjá því opinbera ef lánveitingarnar ganga ekki til vegamálanna og hærri fjárveitingar eru til þess málaflokks að þær komi einhvers staðar annars staðar niður og má þá einu gilda. En ljóst er þó að fáar framkvæmdir ef nokkrar eru jafnhagkvæmar, jafnþarfar og jafnnauðsynlegar og framkvæmdir á sviði samgöngumálanna.

Herra forseti. Ég hef þá farið yfir það helsta sem ég vildi koma á framfæri við afgreiðslu þessarar vegáætlunar. Ég ítreka þann skilning minn á nefndri bókun í nál. frá fjvn. á þskj. 946 og að sá skilningur er algjör forsenda þess stuðnings sem ég get veitt þessari vegáætlun.