17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4389 í B-deild Alþingistíðinda. (4136)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur staðið um hríð umræða um vegamál. Það hefur heyrst á sumum að vegirnir væru fyrir dreifbýlið, en ég vil halda því fram að vegirnir séu fyrir þjóðina alla. Og vegirnir eru undirstaða þess að Íslendingar geti tekið á móti aukningu á erlendum ferðamönnum til landsins sem er eitt það arðbærasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur á næstu árum, þ.e. að þjóna erlendum ferðamönnum og fá þannig gjaldeyri.

Engu að síður er mikið hik á mönnum að lýsa því yfir hvert stefni í þessum málum. Við höfum vissulega náð verulegum árangri í lagningu á bundnu slitlagi. Það skyggir þó á þá ánægju að viðhald malarveganna hefur verið allsendis ófullnægjandi. Hluti af árangrinum í lagningu á bundnu slitlagi byggist á því að það hefur verið tekið af því fjármagni sem með eðlilegum hætti hefði átt að fara í að tryggja að malarvegirnir væru akfærir.

Það er búið að berja á því mjög oft að erlendar lántökur séu af hinu illa, en hvar væri þessi þjóð stödd ef hún hefði aldrei tekið nein erlend lán? Vissulega er hægt að standa þannig að erlendum lántökum að manni sýnist að þær hafi orðið til lítils gagns. Mér verður hugsað til þess þegar ég horfði áðan á hv. 5. þm. Austurl. tala um vegamál hvort það hefði ekki verið betra fyrir þá Austfirðinga ef sá milljarður sem fór í rannsóknir á virkjunum fyrir austan hefði farið í vegina þar. Ætli það væri ekki ögn betra ástandið í málum Austfirðinga ef þannig hefði verið að málum staðið? Satt best að segja er það stundum umhugsunarefni þegar einstakir ráðherrar fá hálfgert víðáttuæði í rannsóknum fram í tímann, eins og gerðist með hv. 5. þm. Austurl. þegar hann var iðnrh. þessa lands. (KP: Var ekki hv. þm. stuðningsmaður hans? Er það misskilningur?) Ég hélt að hv. 3. þm. Vestf. hefði ekki skaðast á minni. En mun þó koma að því síðar í umræðunni.

Ég tel að það blasi við ef horft er á gjaldskrárákvarðanir Landsvirkjunar að mjög mikið af erlendum skuldum muni greiðast upp fram til næstu aldamóta. Þessi þjóð þarf að taka ákvarðanir um erlendar lántökur til að koma vegunum á Íslandi í viðunandi horf. Það er rými til þess vegna þess að það er engin skynsemi sem mælir með því að halda áfram orkuframkvæmdum með þeim hraða sem áður hafði verið talið rétt vegna sölumöguleika á orku til stóriðjuvera.

En það er fleira sem leitar á hugann þegar hugleidd er staðan í vegamálum. Við höfum tvær stjórnarandstöður í þessu landi. Önnur situr í þingsölum og er ekki valdamikil þannig að það er varla hægt að standa í því að skamma hana mikið hvað vegamálin snertir. Hin stjórnarandstaðan situr í ASÍ og hún er valdamikil. Hún lagðist ásamt atvinnurekendum mjög hart gegn því að þegar orkuverð lækkaði á alheimsmarkaði og þar var rými til að taka fé til vegamála væri það gert. Það er kátbroslegt og um leið umhugsunarefni fyrir óbreyttan stjórnarþingmann að sitja undir því að fyrst hamast stjórnarandstaðan sem hefur völdin, mótar stefnuna og hefur sitt fram með hótunum um ófrið í landinu verði ekki að þeim kostum gengið, og svo kemur stjórnarandstaðan, hin valdalausa, og hellir sér yfir menn í þingsölum fyrir að standa ekki við áform í vegamálum.

Þannig er staðan í þessum málum. Og hvað er það fleira sem er að gerast? Hv. 3. þm. Vestf. tekur að sér það hlutverk fyrir Alþfl. að ræða um vegamál. Það vill svo til að það liggur fyrir skjalfest hver stefna Alþfl. er í vegamálum. Sú stefna var mótuð þegar þeir voru einir í ríkisstjórn og lögðu fram fjárlagafrv. í sölum Alþingis. Hæstv. fjmrh. Tómas Árnason hafði lagt til að það yrði varið 21 milljarði 963 millj. til vegamála. Og svo tók Alþfl. við. Hann lagði til að það yrði varið til vegamála 19 milljörðum 463 millj. Hann skar vegamálin niður um 21/2 milljarð. Svo kemur hv. 3. þm. Vestf. og prédikar hér eins og hann einn allra Íslendinga hafi áhuga á vegaframkvæmdum í þessu landi. Hvað hefur sá, hv. 3. þm. Vestf., afrekað? Hann er búinn að gera sérstakt friðar- og kærleiksbandalag við aðilann sem sat í fjármálaráðherrastólnum og skar vegamálin niður um 21/2 milljarð og hann mun það sem eftir er þessa vetrar leggja allt kapp á að vinna þessum manni fylgi til að koma honum inn á Alþingi eftir friðarsamkomulagið fyrir vestan. Tvo og hálfan milljarð skar hann niður, en hér stendur hann upp og prédikar af fullri hörku: Við viljum peninga í vegi. Hver trúir því að það sé eitt einasta orð að marka af málflutningi svona manna? Það er ekkert orð að marka af svona málflutningi.

Herra forseti. Ég gat þess áðan að það væri takmarkað hvað vert væri að leggja á sig að skamma þá stjórnarandstöðu, hina valdalausu, sem hér er í þingsölum. En það er aftur á móti ærið umhugsunarefni fyrir Alþingi Íslendinga í hvaða herkví hún hyggst láta ASÍ og VSÍ reka sig í hinum ýmsu málum. Við vorum að ræða frv. til húsnæðislaga. Þá kom í ljós að ASÍ og VSÍ samþykktu ekki þetta og samþykktu ekki hitt. Þá færi allt úr böndunum. Það hlýtur að vera að Alþingi Íslendinga þurfi að manna sig upp í að endurheimta það vald sem það hafði og það þor sem það hafði til að taka ákvarðanir, hvort sem þessir aðilar væru því vinveittir eða ekki. Og af því hæstv. samgrh. er genginn í salinn þykir mér rétt að koma því á framfæri að ég tel að þrátt fyrir það frv. til vegamála sem hér liggur fyrir. . . (KP: Það er þáltill.) Það er rétt hjá hv. 3. þm. Vestf. og sér að kollurinn er í lagi að nokkru leyti í það minnsta. (KP: Hann hefur alltaf verið það.) Það er ekki sök hæstv. samgrh. að svo hefur farið að úr þessum málaflokki hefur verið dregið. Það vita allir að það hefur verið hinn utanaðkomandi þrýstingur sem menn hafa gefið eftir fyrir. Sá þrýstingur er þeirrar stjórnarandstöðu sem er utan þingsins og hefur fengið að ráða of miklu í ákvörðunum um fjárveitingar til vegamála á Íslandi.