17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4391 í B-deild Alþingistíðinda. (4137)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það leynir sér ekki að það er farið að styttast í kosningar. Einn ræðumaður tímasetti þær eftir fimm vikur hér frá og það hygg ég að stemmi við dagatalið. Aðrir stjórnmálaatburðir eru enn þá nær, þ.e. framboðsfundir sem hljóta að hefjast mjög fljótlega eftir að þessu þingi lýkur. Það er vissulega greinilegt að menn eru að hita sig upp fyrir þau átök sem þar eru fram undan.

Það vekur athygli við þessa umræðu að þeir sem deila á þá vegáætlun sem liggur fyrir tala einkum um brigð í sambandi við þá framkvæmd vegna þess að ekki hefur komið það fjármagn til áætlunarinnar sem langtímaáætlun gerði ráð fyrir. Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt. Menn tala hins vegar ekki um það sem hefur unnist á þessum fjórum árum. Það er slæmur kostur að það skuli ekki liggja fyrir hvernig staða framkvæmdanna er. Ég hef spurst fyrir um það hjá Vegagerðinni hvað mikið væri óunnið af þeim verkefnum sem ákveðin voru á þessu fjögurra ára tímabili, fyrsta hluta vegáætlunar, og það liggja ekki fyrir um það upplýsingar. Það er þannig ekki gott að henda reiður á því. En ég vildi leggja til að vegáætlun væri sett upp með þeim hætti að það væri hægt að rekja hvernig verk ganga áfram. Mér sýnist nefnilega að það hafi verið unnið þrekvirki á síðustu fjórum árum að ná fram jafnmiklum breytingum í vegakerfinu og raun ber vitni um. Það er því meira þrekvirki að það hefur alls ekki verið eytt því fjármagni sem gert var ráð fyrir að til þess þyrfti. Ef þetta fjármagn hefði komið, þessar viðmiðunartölur, og ef því hefði verið eytt hefði enginn maður talað um svik, jafnvel þótt framkvæmdirnar væru í líkum dúr og þær eru.

Menn varast það og þá sérstaklega stjórnarandstaðan að tala um jákvæðu hliðarnar á þessu máli sem vissulega skipta hér sköpum. Það er líka deilt á það í þessari umræðu að nú skuli ekki vera skipt upp meira fjármagni fyrir næstu fjögur ár. En hvað skyldi stjórnarandstaða hafa sagt ef það hefði verið skipt upp meira fjármagni en markaðir tekjustofnar segja fyrir um? Ætli það hefði þá ekki verið talað um kosningavegáætlun? Ætli það hefði þá ekki verið talað um að stjórnin ætlaði þeim er við taka stærri hlut í þessum efnum en hún hefur sjálf lagt til.

Það er að sjálfsögðu, eins og kom fram hjá hæstv. samgrh., hægur vandinn að hækka þessa tölu, m.a.s. við næstu fjárlagagerð ef mönnum sýnist svo. Hér er sem sagt valinn sá kosturinn að skipta einungis mörkuðum tekjustofnum sem getur varla verið deilumál að ekki getur öðruvísi farið en að muni skila sér inn til þessara verkefna alveg án tillits til þess hverjir kunna að stjórna landinu.

Það er, eins og ég sagði áðan, farið að hitna víðar undir hinum pólitísku pottum en á Vestfjörðum eins og við máttum heyra á ræðu síðasta ræðumanns. Þess ber greinilega merki í ræðum okkar Austfirðinga líka. Það sem hefur í þeim efnum vakið helst nokkra athygli er það sem bent hefur verið á í þessari umræðu um hlutfallslega skiptingu í Austurlandskjördæmi næstu fjögur árin innbyrðis. Það kemur þar í ljós að fyrstu þrjú árin er Austurland undir sinni prósentu og þá sérstaklega árin 1988 og 1989. En á þessu eru ákveðnar skýringar. Það sem skiptir kannske aðalmáli í þessu sambandi er að þm. Austurlands eru sjálfir örlagavaldurinn í þessum efnum. (KP: Allir?) Já, já, allir og fleiri Austfirðingar en bara alþm.

Þannig er nefnilega mál með vexti að það hefur verið mikil áhersla lögð á að tengja nyrstu byggðir Austurlands við Fljótsdalshérað og þá að sjálfsögðu samgöngukerfið sem því fylgir með því að leggja veg úr Jökulsárhlíð yfir til Vopnafjarðar yfir Hellisheiði. Þetta er mikil framkvæmd. Þessi vegagerð í heild sinni er áætlað að kosti 200-300 millj. kr. og til þess að komast yfir Hellisheiði og tengja vegina þar saman, sem eru þá í raun og veru bráðabirgðavegir sitt hvorum megin heiðarinnar, er talið að þurfi um 100 millj. kr.

Það hafa verið miklar áherslur frá Austfirðingum um að þessi vegaframkvæmd yrði að raunveruleika og þegar gengið var frá langtímaáætlun eins langt og það náði voru gerðir fyrirvarar um að við þessi tímamót, þ.e. við upphaf 2. áfanga langtímaáætlunarinnar, yrði tekið sérstaklega til athugunar að setja þessa vegaframkvæmd í framkvæmdaröð. Það hafa vissulega borist áherslur um það víðar að en aðeins úr byggðunum norðan við Hellisheiði. M.a. hefur Samband sveitarfélaga á Austurlandi lagt mikla áherslu á þessa vegagerð. Á síðasta aðalfundi sambandsins var ekki nema eitt - ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með það - áhersluatriði í sambandi við vegamál á Austurlandi og það var vegarlagning yfir Hellisheiði.

Þegar þm. Austurlands komu til fyrsta fundar við Vegagerð ríkisins fylgdu þeir sameiginlega þessari áherslu eftir. Og hvað skyldi það þýða að þessi ákvörðun hafi verið tekin um innbyrðis skiptingu innan kjördæmisins? Vegagerð ríkisins hefur þá vinnureglu að hún leitast við að hafa almenn verkefni og bundin slitlög með sem jöfnustum hætti á milli ára. Þar er leitast við að fylgja þeirri meginreglu að þessir tveir framkvæmdaflokkar taki ekki breytingum á milli ára. Í Austurlandskjördæmi er núna verið að ljúka við sérverkefni sem eru í rauninni lokaáfangi í að tengja Austurland við veginn um Austur-Skaftafellssýslu með lagningu bundins slitlags úr Geithellnahreppi og yfir í Bæjarhrepp, en síðan kemur ekki sérverkefni til sögunnar í Austurlandskjördæmi fyrr en á síðasta tímabili þessarar áætlunar, árið 1990. Þá er sett inn fjárveiting til vegarlagningar yfir Hellisheiði upp á 38 millj. kr. Á árinu 1988 og árinu 1989, hvoru ári fyrir sig, er fjárveiting til þessara framkvæmda 1 millj. kr. til að undirbúa þetta verkefni sem ekki er tæknilega hægt að dómi Vegagerðar ríkisins að vinna fyrr en á árinu 1990. Þetta gerir að verkum að þessi framkvæmd dregur fjármagn til sín á síðasta ári langtímaáætlunarinnar. Þetta er skýringin á því hvers vegna þetta hlaup er í skiptingu fjármagnsins í Austurlandskjördæmi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta veit og skilur hæstv. sjútvrh. og ég er sannfærður um að hann ber ekki brigður á þetta, en miðað við fyrri reynslu af hv. 5. þm. Austurl. frá því að hann var ráðherra í síðustu ríkisstjórn og með tilliti til hans embættisverka þar þarf enginn að láta sér koma á óvart þó að jafneinfaldar skýringar sem þessar snúi á haus í kollinum á honum. Þetta er þessi skýring.

Ég hafði orð á því á fundi með formanni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og framkvæmdastjóra þess sambands, sem fleiri þm. Austurlands sátu og þar sem þeir voru enn með áherslur um að þessi framkvæmd skyldi ganga fram á þessu áætlunartímabili, að ég hefði ekki orðið þess var á aðalfundi sambandsins, þar sem ræðumenn lýstu stuðningi sínum við þessa framkvæmd hver á eftir öðrum, að það hefði verið talað um hvað ætti að taka til baka úr vegagerðarframkvæmdum á Austurlandi ef þessi framkvæmd yrði tekin með. Þeir könnuðust vel við að það hefðu ekki verið neinar tillögur uppi um það. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess þegar áhugamenn eru að berjast fyrir sínum stóru áformum að það séu gerðar tillögur um hvað sé strikað út og hvað sé fært til baka. Vitanlega er ekki hægt að gera því skóna að almennt sé það gert. En það ætti ekki að vefjast fyrir reyndum þm. að þegar bætt er við á vegáætlun framkvæmd sem nemur 40 millj. kr. þurfi hún að draga til sín fjármagn. Auðvitað hefði þetta dæmi litið öðruvísi út í Austurlandskjördæmi ef Vopnafjarðarleiðin hefði verið lögð af og þá hefði Hjörleifur Guttormsson getað talað við vonda menn í fjvn. sem ekki hefðu viljað laga veginn yfir Hellisheiði. Það er því út af fyrir sig kannske vandmeðfarið í þessum efnum.

En annað er það að ég óttast ekkert að tala við hv. 5. þm. Austurl. um fjárveitingar í Austurlandskjördæmi og ég er m.a.s. ekkert hræddur að bera saman síðasta ár hans ríkisstjórnar og þeirrar sem nú er að skila af sér fyrir Austurlandskjördæmi. (HG: Hvert var síðasta ár hennar?) Ég held að ég sé búinn að skýra þetta með fullnægjandi hætti. (Menntmrh.: Ertu viss um það?) Ég skil vel efasemdir félaga míns og samstarfsmanns míns, Sverris Hermannssonar. Hann hefur reynslu af því eins og ég að það gengur misjafnlega vel að koma a.m.k. 5. þm. Austurl. til vits þegar fjármál eru annars vegar eins og hans embættisferill ber skýrast vott um. (HG: Ef menn geta miðlað viti er það mest um vert.) Ég held að hv. þm. hafi ekki af miklu að miðla í þeim efnum eins og reynslan sýnir. Það er hægt að tína fleiri en einn skuldamilljarð til. Hér var tilgreindur 1 skuldamilljarður frá hans dögum. Þeir eru held ég nokkru fleiri en sá eini. En það ræðum við betur síðar.

Þetta læt ég nægja sem skýringu frá minni hendi í þessum efnum. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að skiptiprósentan í Austurlandskjördæmi er með þessum hætti. Því valda sameiginlegar óskir Austfirðinga um að það verði byggður vegur yfir til Vopnafjarðar og sameiginlegar áherslur frá þm. kjördæmisins um að það verk skuli verða hafið á þessu kjörtímabili. Þetta er ástæðan fyrir því en ekki að fjvn. hafi verið að mismuna Austurlandi til hins verra eins og fram hefur komið í þessari umræðu.