17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4396 í B-deild Alþingistíðinda. (4139)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar athugasemdir sem ég tel rétt að koma á framfæri. Mér þykir verst að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er horfinn úr salnum, en það kemst vonandi til skila það sem ég ætlaði við hann að segja.

Það er mesti misskilningur hjá honum að ég hafi byrjað á því að efna hér til umræðna eða illdeilna um skiptingu vegafjár milli kjördæma. Það er komið frá Austfjörðum sjálfum. Það var hæstv. sjútvrh. sem tók það fyrstur upp að deila á hversu illa væri farið með Austfirðinga í þessum efnum. Það er ekki komið frá mér. Það á við aðra.

Í öðru lagi: Ég skildi hins vegar ekki hv. þm. Hjörleif Guttormsson þegar hann sagði: Ég vil fá meira fé, en ég vil ekki taka það frá neinum. Það kemur ekki heim og saman við það sem ég hef í kollinum og hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan að hann væri klár, kollurinn á mér. Það kemur ekki heim og saman þegar menn vilja meiri peninga úr því sem er um að ræða en ekki taka þá frá neinum. (Sjútvrh.: Þetta er eins og tillaga þín í fiskveiðimálum.) Það er rangt hjá þér, Halldór Ásgrímsson, og ekki fyrsta vitleysan sem hæstv. ráðh. segir hér. Því miður er landsbyggðin víða að blæða fyrir aðgerðir hæstv. sjútvrh. í fiskveiðimálum, ef hæstv. ráðh. vill fara að ræða um það hér undir vegáætlun. (VI: Taka það með.) Það er sjálfsagt að taka það með, já. Slæmt kann mönnum að hafa fundist í vegamálum, en helmingi verri hefur stjórnin verið í fiskveiðimálum undir handarjaðri Austfirðingsins Halldórs Ásgrímssonar og kemur engum á óvart.

Menn þurfa ekki að ásaka mig fyrir að hafa átt upphafið að því að tala um að menn væru að rífast að því er varðaði skiptingu vegafjár. Auðvitað greinir menn á um þetta og allir vilja fá meira, en málin eru svona eigi að síður.

Hæstv. samgrh. lét að því liggja að hann vonaðist til þess að áhugi manna til meiri peninga í vegaframkvæmdir entist lengur en fram að kosningum. Ég veit ekki við hverja hæstv. ráðh. á. (HS: Þú skilur það kannske seinna.) Það dreg ég í efa. Ég skildi hæstv. ráðh. samt svo að þeirra einstaklinga væri trúlega að leita á svipuðum slóðum og ég var að nefna að hafa haft með hendi stjórnun fiskveiða. Mér skilst að það hafi verið innan hæstv. ríkisstjórnar mikil andstaða frá einstökum ráðherrum um að auka fjármagn til vegaframkvæmda.

Hæstv. ráðh. tók það mjög illa upp að við skyldum tala um að afgreiða vegáætlun til eins árs nú miðað við að kosningar eiga sér stað núna í apríl. Er óskynsamlegt að ætla nýkjörnu þingi og nýrri ríkisstjórn að taka við ákvörðun um vegaframkvæmdir næstu þrjú árin eftir að hún er komin að völdum um mitt ár 1987? Menn hafa hálft ár fyrir sér til að ákvarða. Ný ríkisstjórn hlýtur í stjórnarsáttmála að gera samkomulag um hvernig hún ætlar með vegamálin að fara eins og önnur mál. Það er ósköp skiljanlegt og er að mínu viti mjög skynsamlegt að ætlast til þess að nýir aðilar taki við málum. Ég sá ekki að hæstv. núv. samgrh. færist það neitt sérstaklega illa þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og fleiri skildu við óafgreidda vegáætlun 1983. Hvað þá þegar menn hafa hálft árið fyrir sér til að ákvarða hlutina í áframhaldinu. Ég held að þetta eigi ekki við. (EgJ: Viturlega mælt.) Átti þm. von á einhverju öðru?

En aðalástæða þess að ég kom upp aftur var sú eindæma ræða um vegáætlun sem hv. 5. þm. Vestf. flutti áðan. Ég er búinn að vera viðloðandi á hv. Alþingi frá 1971 og hef, að ég tel, fylgst með velflestum umræðum um vegamál. Ég man ekki eftir einni einustu ræðu sem flutt hefur verið um vegamál á þann veg sem hv. 5. þm. Vestf. talaði áðan, það var með slíkum eindæmum, enda kom hann ekki nálægt umræðuefninu. Það sem þvældist mest fyrir brjóstinu á honum voru framboðsmál vestur á fjörðum og ég er ekki hissa þó að það þvælist mest fyrir hv. 5. þm. Vestf.

Hann vísaði því til Alþýðusambands Íslands að það hefði ráðið ferðinni í því hversu lítið væri veitt til vegamála. Við skulum hafa í huga að þessi hv. þm. er búinn að vera stjórnarþm. í nærri sjö ár, hefur ráðið ferðinni í nær sjö ár sem stjórnaraðili að því er varðar vegaframkvæmdir og annað. Ég er því ekki hissa þó að hv. þm. komi sér hjá því að víkja einu orði að vegamálunum sem slíkum.

Það er út af fyrir sig rétt að áhrifamenn innan Alþýðusambands Íslands voru andvígir því að nýta sér lækkun bensínverðs til að setja fé í vegaframkvæmdir. En þeir ku hafa verið fleiri sem voru þeirrar skoðunar sem eru þó valdameiri að mínu viti en valdamenn innan ASÍ. Þeir munu hafa verið innan ríkisstjórnar, innan stjórnarflokkanna, í sama pakka og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að tala um hver væri stefna Alþfl. í vegamálum. Því miður hefur Alþfl. ekki haft tækifæri til þess í reynd undangengin allmörg ár að sýna í verki hver stefna hans er í vegamálum, en það er kannske að koma að því og af því eru menn hræddir. Það eru fleiri en hæstv. sjútvrh. sem eru farnir að titra á beinunum yfir því að þurfa að yfirgefa stólinn. En það skyldi ekki vera, ef Alþfl. fengi að ráða einhverju í vegamálum, að það yrði betur fyrir því séð en gert hefur verið í tíð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar í nær sjö ár sem stjórnarliða? Ég er ekki hissa á því þó að mönnum verði sárt um ef staðreyndir eru raktar og upp rifjað það sem gerst hefur á undangengnum árum.

Við skulum ekki gleyma því heldur að Framsfl. hefur átt samgrh. á þessu tímabili, hálfgerðan fósturpabba hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, núv. hæstv. forsrh. Menn skulu ekki gleyma því. Eftir allan þennan tíma með svona lið sem meðreiðarsveina standa málin ekki betur en nú er þannig að þessum hv. þm. ferst ekki að brigsla öðrum sem ekki hafa enn fengið tækifæri til að segja til um það í reynd hvað þeir mundu gera.

Nei, ég held að menn, ekki síst þeir sem ætla sér að vinna traust þeirra sem verst eru settir í samgöngumálum yfirleitt þurfi annars konar viðbrögð en hér voru sýnd af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að því er þetta mál varðar, enda sýnist mér hafa komið í ljós að það þarf að styrkja það traust sem hann ætlar sér að eiga frá því sem verið hefur, ætlar sér að halda áfram.