17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4398 í B-deild Alþingistíðinda. (4141)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Frsm. fjvn. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Mér er mjög ljúft að verða við tilmælum hæstv. forseta um að haga máli mínu á þann veg að tefja ekki mjög þessa umræðu. Að sjálfsögðu gæti ég haft sitthvað að segja um þær umræður sem hér hafa farið fram, en ég mun láta það liggja á milli hluta.

Hæstv. sjútvrh. vék nokkuð í máli sínu að þeim vinnureglum sem notaðar hafa verið við að ná fram ákvörðunum um skiptingu framkvæmdafjár á milli einstakra kjördæma og hann lýsti þeirri skoðun sinni að ástæða gæti verið til að bæta um þær vinnureglur á þann máta að reisa skorður við því hversu mikil skerðing á skiptitölu tiltekins kjördæmis gæti orðið að hámarki ef skerðing yrði á skiptitölu þess kjördæmis á fleiri en einu áætlunartímabili í röð.

Ég vil lýsa skoðunum mínum í sambandi við þessa hugmynd hæstv. ráðh. með svipuðum hætti og gert var af hæstv. samgrh. Ég tel að það geti verið full ástæða til þess að það sé gert og ég mun, þrátt fyrir að fjvn. hafi lokið afgreiðslu þessa máls og hafi ekki hugsað sér að fjalla sérstaklega um vegáætlun frekar það sem eftir lifir þessa þings, athuga hvort ekki fáist vilji fyrir því innan fjvn. að taka þetta mál upp og samþykkja bókun um það efni að reisa skorður við því að skiptitala kjördæma geti skerst meira en um tiltekna hlutfallstölu á tveimur áætlunartímabilum. Við höfum notað þá viðmiðunarreglu að skerða ekki skiptitölu meira en um 2% á einu áætlunartímabili, en það hefur ekki haggað því að skiptitalan hefur getað skerst einnig á því næsta og þar er eðlilegt að reisa skorður við þannig að það fari ekki yfir ákveðna prósentutölu áður en farið er að vinna þessa skerðingu til baka.

Ég vildi aðeins koma hingað í þennan ræðustól til að lýsa því yfir að ég mun taka þetta upp í fjvn. og leitast við að móta samkomulag um reglu sem notuð yrði til frambúðar í þessu tilliti og mundi ég þá láta senda þá bókun bæði hæstv. samgrh., hæstv. sjútvrh. og að sjálfsögðu til Vegagerðar ríkisins.