17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (4142)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er vert að undirstrika enn í þessari umræðu að það hefur tekist að standa við langtímaáætlun á fyrsta tímabili. Því veldur að efnahagsástandið hefur batnað, olía hefur lækkað, hagstæð útboð hafa komið til, einnig hefur viðhaldsfé verið beint mjög í slitlög. En ég undirstrika að það kemur hins vegar niður á viðhaldi malarvega og heflun og getur ekki staðið til langframa. Að standa við langtímaáætlun hefur tekist þótt miklu minna fé hafi verið varið til þessara mála en til stóð. Þetta ber m.a. að þakka því að við höfum átt dugmikinn samgrh.

En svo er það næsta tímabil sem við erum að ræða um og það blasir við að það tekst ekki að halda uppi þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru nema til komi meira fé. Það hefur vantað að stjórnarliðar taki undir tillögur samgrh. síns að veita auknu fé til vegamála. Ef við hefðum farið í 2% í stað 1,5% að loknu þessu ári hefði verið hægt að skipta verulega meira á 1988, 1989 og 1990. Þá litu þessi mál sæmilega út í öllum kjördæmum.

Annars vil ég taka undir það, sem áður er komið fram, að karp á milli kjördæma á ekki að vera aðalsmerki þessarar umræðu heldur að standa saman um auknar fjárveitingar sem koma öllum kjördæmum til góða. Það hefði verið skemmtilegra fyrir stjórnarliða við afgreiðslu vegáætlunar á kosningaári um leið og við getum státað af miklum framkvæmdum að undanförnu að horfa betur til næsta áætlunartímabils en þessi tillaga ber vitni.