17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

Afgreiðsla þingmála

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Ég vildi vekja athygli forseta á því að í dag hefur verið dreift á þskj. 959 till. til þál. um undirbúning lífeyrissjóðsréttinda þeirra sem sinna heimilis- og umönnunarstörfum. Hinn 15. okt. s.l. var lagt fram á Alþingi þingmál nr. 49, till. til þál. um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Þessari till. var vísað til nefndar 28. okt. 1. flm. þessarar till. er hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hefur í félmn. Sþ. gert ítrekaðar tilraunir til að fá þetta mál afgreitt. Þar hefur því gjarnan verið borið við að málið væri í athugun, einkanlega að ég hygg hjá þingflokki Sjálfstfl., og er vitanlega ekkert við því að segja, allt saman eðlilegt og gott um það. En þegar það svo gerist að flutt er hér og dreift er á þinginu í dag till. sem er nánast alveg sama efnis og till. sem lögð var fram 15. okt. get ég ekki orða bundist um að vekja athygli á þessum sérstæðu vinnubrögðum.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð, herra forseti, vegna þess að þess þarf ekki, en ég vek hins vegar athygli á því að nú er mjög skammt eftir. Ef starfa á samkvæmt þeirri áætlun að ljúka þingi á föstudag sé ég ekki að vinnist tími til að afgreiða till. á þskj. 959, 428. mál, sem er nánast sama efnis og samhljóða þskj. 49. Ég vek athygli á því að þá hlýtur að vera kominn grundvöllur fyrir því að afgreiða fyrrnefndu till. úr nefnd, till. á þsk . 49, vegna þess að hér er fjallað um sömu mál. Ég ítreka að mér þykir hér einkennilega og mjög sérkennilega að málum staðið og beini því til hæstv. forseta að hann hafi áhrif í á átt að till. á þskj. 49 fái afgreiðslu, verði afgreidd úr nefnd vegna þess að það virðist ekki vera efniságreiningur um málið.

Ég ætla ekki, þó að það væri vissulega hægt, að hafa fleiri orð um þessa uppákomu, en kýs að láta það bíða betri tíma þó að e.t.v. væri ástæða til.