17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (4156)

421. mál, stofnsamningur Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í forföllum utanrrh. leyfi ég mér að fylgja hér úr hlaði tillögu um að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd stofnsamning Evrópustofnunar fjarskipta um gervitungl, EUTELSAT, sem lagður var fram til undirritunar. Í júní 1977 stofnuðu 17 aðildarríki CEPT, Evrópuráðs Pósts og síma, samtök í þeim tilgangi að reka fjarskiptatungl er fyrst og fremst þjónuðu Evrópu. Stofnsamningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd í París 27. ágúst 1985 með fyrirvara um fullgildingu.

Allsherjarþing þar sem öll þátttökuríki eiga sæti með jöfnum atkvæðisrétti fer með æðsta vald innan EUTELSAT-stofnunarinnar og tekur afstöðu til allra meginmála og hefur endanlegt ákvörðunarvald.

Þátttaka Íslands er fjárhagslega hagkvæm og áhættulítil. Það er gert ráð fyrir að hlutafjáreign verði tengd notkun hvers ríkis á fjarskiptatunglunum þar með talinn sjónvarpsflutningur milli landa. Lágmarkshlutafjáreign er 0,05%. Stofnfé Íslands sem lagt var fram sem hlutafé á árinu 1985 var tæpar 615 þús. kr. en arðsemi þess er áætluð 14% á ári. Fyrir Póst- og símamálastofnun er fjárhagslegur ávinningur af því að koma á sambandi við önnur lönd um fjarskiptatungl EUTELSAT en afnotagjöld þess eru lægri en gjöld Alþjóðastofnunar fjarskipta um gervihnetti, eða INTELSAT, fyrir sambærilega þjónustu.

Með þátttöku í EUTELSAT og byggingu nýrrar jarðstöðvar á Íslandi mun enn fremur skapast meira öryggi fyrir alþjóðlega símaþjónustu. Í gervitunglum EUTELSAT og þeim jarðstöðvum sem skipta við þau eru notaðar nýjustu tækniaðferðir og er aðgangur að þessari tækni mjög gagnlegur.

Herra forseti. Ég legg til að þessari till. verði vísað til hv. utanrmn.