17.03.1987
Efri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4415 í B-deild Alþingistíðinda. (4165)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Frsm. samgn. hefur fjarvist og þar af leiðandi tók ég það að mér að mæla hér fyrir þessari till. samgn., sem er brtt. við frv. til laga um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum.

Eins og nál. og brtt. bera með sér er lagt til að á frv. verði gerðar breytingar frá því sem afgreiðslan var í Nd. Alþingis, en þar skipta tvær breytinganna helst nokkru máli.

Í fyrsta lagi er lagt til að skipan skipulagsnefndar fólksflutninga verði færð til þess horfs sem nú er, þ.e. að Félag sérleyfishafa tilnefni tvo menn eins og er núna að óbreyttum þeim lögum, en í Nd. var lagt til að Ferðamálaráð skipaði annan þessara manna. Það kom fram við umfjöllun í nefndinni að ekki hafði verið leitað umsagnar eða samráðs við sérleyfishafa og það varð að samkomulagi að gera þessa breytingu á.

Hin breytingin er við 5. mgr. og er þess efnis að samgrh. geti sagt upp sérleyfi vegna sérstakra skipulagsbreytinga sveitarfélaga þannig að fimm ára veiting gildi þar ekki skilyrðislaust um, en þó verður jafnan að gilda sú regla að aðlögunartími verði minnst tvö ár, þannig að frá uppsögninni þar til sérleyfishafi skilar af sér til annars aðila verði minnst að líða tvö ár.

Með tilvísan til þessara brtt. og svo tveggja annarra, sem skýra sig sjálfar, legg ég til að frv. verði samþykkt.