17.03.1987
Efri deild: 69. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4417 í B-deild Alþingistíðinda. (4173)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. 2. minni hl. landbn. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Þau vandamál sem við er að glíma um þessar mundir í íslenskum landbúnaði eru djúpstæðari og meiri en svo að þau verði leyst með þeim einföldu prósentubreytingum sem gert er ráð fyrir í því frv. sem við erum hér að ræða.

Þær breytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir eiga fyrst að koma til framkvæmda árið 1990. Enda þótt vissulega sé nauðsyn að gera ráðstafanir með góðum fyrirvara í þessum efnum, þá er það skoðun okkar, sem skipum 2. minni hl. landbn., að það sé ekki rétt og ekki eðlilegt að ríkisstjórn sem á tæpar sex vikur eftir af valdatíma sínum taki ákvarðanir á borð við þessa. Það hlýtur að vera bæði rökrétt og eðlilegt að nýtt þing, ný ríkisstjórn móti langtímastefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins. Við sem skipum 2. minni hl. landbn. munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls, en hins vegar ekki tefja fyrir því með einum eða neinum hætti að það nái fram að ganga.