17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (4199)

197. mál, veiting prestakalla

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langa tölu úr því sem komið er um þetta mál. Ég vil benda þeim á sem skortir rök gegn þeirri skipan sem hér er lögð til að það er hægt að fletta fram og aftur í þingtíðindum, t.d. eins og ég sagði í gær frá framsóknaráratugnum, og sjá þar upp og ofan síður á tugum blaðsíðna gild rök fyrir þessu þótt við teflum þeim ekki fram nema að litlu leyti nú í lok þessarar umræðu, við lokaafgreiðslu málsins. Það þýðir ekkert um að fást. Menn hafa flotið að þessu meðvitundarlitlir, eins og ég segi, en menn þurfa ekki að eiga langa setu fram undan á Alþingi til þess að þeir munu verða vitni að því að forráðamenn klerkastéttarinnar munu koma aftur fyrir hið háa Alþingi og biðja hið háa Alþingi eins og guð sér til hjálpar, sem ég vona að þeir biðji nú, (GHelg: Það er nú annað hvort.) að frelsa sig frá þeirri skipan sem hér er verið að leggja til. Menn þekkja lítið til sóknarnefnda ef þeir halda það að þessum málum verði bjargað með því að vísa þeim til þeirra.

En eins og ég segi, ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta. Við höfum blessunarlega t.d. verið laus við flokkapólitík í prestskosningum. (Gripið fram í: Laus við?) Já, blessunarlega, kannske einstaka Skagfirðingar sem hafa flogist á, en það er þá alveg undantekning. Út af einum presti á þessari öld hafa Sauðkræklingar flogist á. Það er allt og sumt. Og menn minnast þess, það eru þrír áratugir liðnir síðan og hann man þetta, þessi ungi maður, enn. (KP: Hvaða ungi maður?) Stefán Guðmundsson, hv. 5. þm. Norðurl. v.

En Danir hafa reynslu af þessu, þeir hafa sára reynslu af þessu, þar sem veitingarvaldið var í pólitískum höndum og eins og upplýst var hér um árið að þar fékk áratugum saman enginn maður tekjugott prestakall nema hann væri af því sauðahúsi sósíaldemókrata og þá fer nú að fara um menn ef slíkt skyldi koma upp á hjá okkur. En ekki fleiri orð um það.

Ég verð, þótt ég eigi mjög örðugt með að sætta mig við orðinn hlut, þá ætla ég samt að gera það og hafa ekki uppi ýfingar vegna þessa máls meir. En í örlitlu atriði til sátta legg ég til ásamt hv. þm. Páli Péturssyni, Ólafi G. Einarssyni, Kjartani Jóhannssyni, Pétri Sigurðssyni og Svavari Gestssyni að aðeins verði hliðrað til ef sóknarbörn sjá sig nauðbeygð til að biðja um kosningar á presti og útnefningin af hálfu sóknarnefndar og þeirra sem til eru kvaddir hefur farið þannig úr hendi að sóknarbörnin sjá sig tilneydd að grípa til sinna ráða. Vegna þess að eins og þetta er nú í 5. gr. frv. er þetta í mörgum tilfellum með öllu óframkvæmanlegt.

Því er það að í stað þess sem í 5. gr. er nú lagt til, að 25 af hundraði þurfi til að óska þess að almennar prestskosningar fari fram, þá verði það 10 af hundraði eða 500 af atkvæðisbærum sóknarbörnum í prestakallinu. Það þýðir að í hinum fjölmennari er nægjanlegt að hafa 500, en sum eru það fjölmenn að 10% gætu sjálfsagt skipt þúsundum eða einu þúsundi a.m.k.

Að svo búnu mun ég ekki frekari afskipti hafa af eða hindra framgang þessa máls. Það er komið sem komið er og óeðlilegt að beita slíkum ráðum þótt þau séu tiltæk, en bið þess vegna hv. deild svo vel að gera að fallast á þessa tillögu því að ég held að þó í litlu sé, þá sé það þó örlítið gengið til móts við þá sem erfiðast eiga með að sætta sig við orðinn hlut að kalla má.