17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4426 í B-deild Alþingistíðinda. (4200)

197. mál, veiting prestakalla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð núna við 3. umr. þessa máls. Hér er fjallað um frv. til laga um veitingu prestakalla, ekki afnám prestskosninga. Ég bendi á að af 22 greinum frv. fjalla 14 um kosningu. Þetta er ekki nýtt af nálinni. Hv. þm. þekkja öll rök málsins með og móti. Þetta hefur lengi verið ágreiningsefni. Það var sett nefnd í málið árið 1977 sem útbjó það frv. sem hér liggur fyrir.

Þetta mál hefur verið margrætt á prestastefnum og er mikið áhugamál kirkju- og kennimanna. Það hefur einnig verið rætt á mörgum kirkjuþingum þar sem sæti eiga bæði kennimenn og leikmenn. Því er ekki að neita að um þetta efni eru skiptar skoðanir. Þetta frv. er því málamiðlun.

Ég ætla aðeins að víkja að tveim mönnum sem létu ljós sitt skína svolítið í gærkvöldi um þetta mál. Það var hv. 3. þm. Vestf. sem talaði um þetta frv. og var nú held ég kominn alla leið upp að háa c, en hann fer svo létt með hæðina að um það þarf ekki að hafa mörg orð. En ég vil benda þeim ágæta manni, sem ræddi svo mikið um að það væri eitthvert sérstakt áhugamál menntafrömuða í þessari deild, ekki veit ég nú við hverja hann átti, að koma þessu frv. fram, ég vil benda honum á að lesa betur 5. gr. frv. En ekki get ég fallist á tillögu hans um þjóðaratkvæði.

Um hæstv. menntmrh. er það að segja að hann ræddi í gærkvöldi um það hvernig Alþingi léti leiða sig í þessu máli og síðan brá hann á það gamalkunna ráð að telja nefndarmenn sem unnið höfðu að gerð þessa frv. meðvitundarlitla, m. ö. o. ekki starfi sínu vaxna, en hann grípur oft til þess ráðs þegar hann kveður upp um álit sitt á þeim mönnum sem komast að annarri niðurstöðu en hann sjálfur um menn og málefni.

Þó verð ég að taka fram að ég tel þá tölu, sem greinir í 5. gr., 25%, þar sem rætt er um það að skrifleg ósk þurfi að berast frá 25% atkvæðisbærra sóknarbarna í prestakallinu, ég tel hana alls ekki heilaga. Maður gæti vel hugsað sér 20%, 15%, en ég held að ég muni þó ekki styðja þessa 10% tillögu þeirra félaga sem þar hafa safnast saman.

Ég vil að lokum benda á það sem okkur væri hollt að hugleiða einstöku sinnum að ég held að við séum mjög heppnir Íslendingar að eiga þjóðkirkju sem rúmar líklega 95% þjóðarinnar. Með því erum við blessunarlega lausir við ofsatrúarmenn og átök sem fylgja jafnan sértrúarsöfnuðum og við höfum næg dæmi um í sögunni, bæði fyrr og nú. Ég held að okkur hv. alþm. sé líka hollt að hlusta stöku sinnum á rödd kirkjunnar manna, einkum þegar hún er samhljóða eins og hún er í þessu máli.

Ég legg til að þetta frv. verði samþykkt í þeim búningi sem því var sniðinn í hv. Ed.