17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4430 í B-deild Alþingistíðinda. (4203)

197. mál, veiting prestakalla

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Í framhaldi af því sem síðasti ræðumaður talaði um lýðræði, þá hafa menn stundum gert sér leik að því á undanförnum misserum að tala um að upp sé að renna ný öld með alls konar nýjum græjum sem geri fólki kleift að taka ákvarðanir um hitt og þetta. Það er talað um að upp sé að renna öld þátttökulýðræðisins þar sem fólk hafi aukið val bæði um menn og málefni og menn muni ætla til þess sérstaka stund heima hjá sér á kvöldin hjá tölvunni sinni að láta áhugamál sín og skoðanir í ljós við valdhafana og þannig sé upprunninn sá tími að fólk hafi miklu meiri áhrif á það hvað gerist hvunndags í lífi þess og hver fari með ýmiss konar umboð fyrir það.

Af þessum sama toga er umræða sem lengi hefur verið hér um að nauðsynlegt sé að taka upp þjóðaratkvæði í ýmiss konar málum. Og á einn og annan hátt hafa menn sem sagt talið að á það skorti nokkuð hérlendis, og reyndar miklu víðar, að áhrif fólks og skoðanir komist á reglulegan og reglubundinn hátt til skila svona rétt á milli kosninga. Ég er á þessari skoðun. Ég tel að það sé ekki nóg að almenningur hefur einungis á reglubundinn hátt kosið um alþm., hundahald, presta og áfengi í þessu landi. Ég hef talið að þarna mætti frekar auka heldur en hitt.

Nú er það svo að maður hefur heyrt ýmiss konar rök gegn prestskosningum og ein eru þau að þar verði ýmsar skvettur sem fólki þyki miður og við séum betur án. Ég held að það verði nú að segja þá um prestskosningarnar eins og alþingiskosningar að ef menn þola ekki hitann í eldhúsinu þá eiga þeir ekki að fást við matartilbúninginn. Það er óumflýjanlegur fylgifiskur þess að hafa skoðanir að þeim skoðunum og þeim sem halda þeim fram sé boðið upp á ýmislegt. Þetta er nú einungis það sem fylgir því að beita sér fyrir mönnum og málefnum. Mér finnst það ekki rök gegn prestskosningum að þar sé hart tekist á.

Af 33 ára búsetu í Kópavoginum minnist ég þess að í eitt einasta skipti barði upp á dyrapalli foreldra minna manneskja sem hafði boðið sig fram til þjónustu fyrir borgarana. Þar létu aldrei sjá sig þeir sem buðu sig fram í bæjarstjórn og þar létu aldrei sjá sig þeir sem buðu sig fram til þess að þjóna Kópavogsbúum og öðrum Reyknesingum á Alþingi, en þar barði einn daginn að dyrum maður sem bauð sig fram við prestskosningar í Kópavogi. Mér er þetta mjög minnisstætt vegna þess að mér þótti þetta gott. Þetta var í eina skiptið sem ég og fjölskylda mín höfðum á þeim tíma raunverulegt tækifæri til þess að kynnast manneskjunni, til þess að kynnast skoðunum og heimssýn þeirrar manneskju sem okkur stóð til boða að kjósa til starfa í þjónustu okkar. Og mér þykir það eins og ég segi illa farið ef þessu á að snúa við.

Fólk hefur nefnilega til þess ýmsar aðferðir að kjósa sér menn til þjónustu. Flest búum við við þær aðstæður að við getum t.d. kosið okkur lækni. Við gerum það á þann hátt að við veljum okkur þann lækni til samstarfs sem við teljum að muni reynast eða hafi reynst okkur vel og þó að nýtt skipulag í heilbrigðisþjónustu sé upp tekið víðast þá vona ég að því verði aldrei skorinn svo þröngur stakkur að fólk hafi ekki til þess möguleika við skipulag heilbrigðisþjónustunnar að velja við hvaða lækni það vill eiga nánust samskipti. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt. Ég held að í staðinn fyrir að fækka þeim sviðum þar sem beinar kosningar eru á starfsmönnum eigi að fjölga þeim. Ég tel að það sé eðlilegt að þegar fram fara sveitarstjórnarkosningar sé valið í almennum kosningum til miklu fleiri starfa á vegum bæjarfélagsins en nú er. Þar má þá t.d. telja ýmist formenn eða jafnvel nefndarmenn í skólanefndum, í heilbrigðisnefndum eða fræðslunefndum eða öðrum þeim nefndum sem starfa á vegum sveitarfélaganna og inna þjónustu af hendi eða stjórna og móta þjónustu sem innt er af hendi fyrir borgarana. Þar held ég að eigi að stefna til aukinnar þátttöku borgaranna frekar en að takmarka þessa þátttöku.

Ég held einmitt að það sé kannske eitt af því sem hefur verið hollt prestastéttinni að þar hefur ekki verið fylgt einhvers konar punktakerfi eftir starfsaldri eða fjölda ára þjónandi við einhverjar tilteknar erfiðar kringumstæður úti á landi. Það eru þá punktakerfi eins og manni virðist stundum vera höfð í gangi við það að skipa sýslumenn eða dýralækna. Í prestskosningum er það vilji fólksins sem hefur ráðið því hvernig menn og hvaða fólk er ráðið til starfa og þetta hefur tryggt nýju fólki, ungu fólki og áhugasömu fólki og duglegu fólki aðgang og tryggt því að komast t.d. inn í brauð hér á þéttbýlissvæðinu þar sem margt af hinu yngra og áhugasamara fólki innan þjóðkirkjunnar telur að mjög brýnt sé að starfa vegna ýmiss konar félagslegra vandamála sem hér steðji að.

Ég ætla ekki að gera þessi orð mín fleiri. Ég ætla að fara að óskum forseta, sem hafa verið margendurteknar hér í dag, að menn fari nú sparlega með ræðutíma. Ég tel að það að afnema eða setja einhverjar tilteknar skorður eða búa til einhverja sérstaka útgáfu af lýðræði í sambandi við prestskosningar sé spor í öfuga átt. Ég tel að þar sé verið að minnka réttindi fólks og þar sé verið að skera á eina af þeim taugum sem hafa haldið ákveðnu lifandi sambandi milli fólksins í landinu og kirkjunnar og hennar þjóna.