17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4433 í B-deild Alþingistíðinda. (4211)

125. mál, opinber innkaup

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. um frv. til laga um opinber innkaup með fyrirvara vegna þess að ég vildi flytja við frv. brtt. um það að skylt sé að taka tillit til tilboða íslenskra aðila umfram erlenda þegar um er að ræða verkefni á vegum Innkaupastofnunar ríkisins. Tillagan er orðuð svona:

„Skylt er að taka tillit til tilboða íslenskra aðila umfram erlenda og heimilt að taka tilboðum þeirra þó að þau séu allt að 15% hærri en tilboð erlendra aðila.“

Margháttaðan rökstuðning má flytja fyrir þessari tillögu. Tillögur af þessu tagi hafa áður verið fluttar og það hefur verið yfirlýst stefna t.d. iðnrn. að íslenskir aðilar eigi að hafa forgang í þessum efnum. Þá minni ég t.d. á frv. sem við höfum flutt hér, ég og hv. þm. Halldór Blöndal, um breytingu á lögum um Fiskveiðasjóð, um að innlend skipasmíði njóti forréttinda umfram erlenda þegar um er að ræða lán úr Fiskveiðasjóði.

Hér er um að ræða algenga aðferð sem er viðhöfð í flestum ríkjum með skylt efnahagskerfi þrátt fyrir aðild þessara ríkja að EFTA, eða Efnahagsbandalagi Evrópu. Auk þess er heppilegt að hafa svona ákvæði inni þegar um það er að ræða að erlendir aðilar eru með undirboð, eða „dumping“.

Ég flutti hér tillögu í sambandi við afgreiðslu tollalaganna um ákvæði sem átti að hafa það hlutverk að vernda innlenda aðila fyrir undirboði erlendra aðila. Þessi tillaga stefnir í sömu átt, að skapa innlendum aðilum stöðu til að keppa við erlenda aðila jafnvel þó um undirboð sé að ræða. Tillagan beinist að því að efla markaðshlutdeild íslensks iðnaðar og íslenskrar þjónustustarfsemi.

Ég vænti þess, herra forseti, að deildin taki þessari brtt. vel.