17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (4220)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1003 hef ég gefið út nál. fyrir 1. minni hl. fjh.- og viðskn. og er nál. á þessa leið:

„Það er engin lausn á vandamálum ríkisbankanna að gera þá að einkabönkum eins og stefnt er að með frv. þessu. Þvert á móti er ljóst að íslenskir atvinnuvegir og almenningur þurfa að hafa sterka ríkisbanka sem hafa víðari sjóndeildarhring en hið lokaða einkabankakerfi þar sem ekki er unnt að koma við neinu lýðræðislegu aðhaldi.

Stjórnkerfi ríkisbankanna er hins vegar allt of veikt. Þess vegna væri eðlilegra að svara þeim vandamálum sem sköpuðust í Útvegsbankanum með því að opna stjórnkerfi bankanna og tryggja þeim lýðræðislegt aðhald. Það mætti gera með því í fyrsta lagi að koma hér á almennum yfirheyrslum yfir ríkisstofnunum á vegum þingnefnda, eins og lengi hefur tíðkast í Bandaríkjunum með góðum árangri, og í öðru lagi með því að skylda bankana til þess að birta yfirlit um stærstu viðskiptamenn bankans reglulega og í þriðja lagi með því að setja reglur um að útlán bankanna til einstakra fyrirtækja fari aldrei fram úr tilteknu hlutfalli af eiginfjárstöðu.

Undirritaður er andvígur því frv. sem hér liggur fyrir af þeirri grundvallarástæðu að frv. mun, ef að lögum verður, opna fyrir eignaraðild útlendinga að íslenska bankakerfinu. Fram kom í viðtali við bankastjóra Útvegsbankans í morgun að danskur banki hefur lýst áhuga sínum á því að kaupa sig inn í Útvegsbankann og þar með að kaupa sig til áhrifa í íslenska bankakerfinu á ný. Má segja að það varpi skýru ljósi á grundvallaratriði þessa máls að danskir bankar skuli sýna áhuga á því að kaupa sig inn í bankakerfið [á Íslandi] á nýjan leik. Hér er komið að meginatriðinu í efnahagslegu sjálfstæði þjóðar, þ.e. því hvort útlendingar hafa hér úrslitatök í efnahags- og atvinnulífi.

Meginástæðurnar fyrir andstöðu undirritaðs við frv. um að gera Útvegsbankann að hlutafélagsbanka eru þessar:

1. Frv. opnar útlendingum aðild að bankakerfinu á Íslandi.

2. Frv. markar fyrsta skrefið á þeirri leið að afnema þjóðbankakerfið og afhenda einkaaðilum þjóðbankana.

3. Í frv. er ekki tekið á skipulagsvandamálum bankanna.

4. Frv. eða ákvæði þess duga ekki til þess að leysa vandamál Útvegsbankans. Lausafjárstaða hans er neikvæð um 1000 millj. kr. þó að nýtt fé upp á 1000 millj. kr. komi inn í bankann samkvæmt frv.

Afstaða Alþb. hefur verið sú að það eigi að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Sú leið, sem valin er, er versta leiðin að allra mati, m.a. að dómi bankastjórnar Seðlabankans.

Þá ber að gagnrýna ríkisstjórnina harðlega fyrir seinagang í þessu máli. Allt árið 1986 var bankinn látinn búa við óvissu þannig að hann fékk þá í sinn hlut 500 millj. kr. minna í innlánum en ella hefði verið að mati bankastjóra bankans sem komu til fundar við fjh.- og viðskn. í morgun.“

Um þetta Útvegsbankamál mætti hafa hér langt og ítarlegt mál. Staðreyndin er sú að fá mál hafa verið meira rædd á undanförnum misserum og í sjálfu sér ástæðulaust að endurtaka þá umræðu hér. Það væri þó fróðlegt að rifja það upp hvernig stjórnarflokkarnir hringsnerust í þessu máli og hvernig síðan lendingin varð þegar ákveðið var að velja þá leið sem Seðlabankinn taldi ekki aðeins versta heldur jafnvel beinlínis hættulega, þá leið sem var svo að segja stimpluð með þremur eiturkrossum frá bankastjórn Seðlabankans vegna þess að hún taldi að hér væri ekki verið að taka á skipulagsvandamálum bankanna og að Útvegsbankinn sé í rauninni þrátt fyrir endurreisnina of lítill til að axla allar þær byrðar sem á þann banka eru lagðar og verða lagðar. Og það held ég að sé kannske kjarni málsins.

10. nóv. s.l. var gefin út tilkynning frá Seðlabankanum um endurskipulagningu bankakerfisins og lausn á fjárhagsvanda Útvegsbanka Íslands. Í bréfi bankastjóranna til viðskrh. þann dag segir svo:

„Í miðjum ágúst s.l. fól viðskrh. bankastjórn Seðlabankans að leggja fram grg. og ákveðna tillögu í ofangreindu máli en ferill þess og aðdragandi er rakinn í meðfylgjandi grg. Í henni er jafnframt gerð grein fyrir og tekin afstaða til fjögurra aðalhugmynda sem til umræðu hafa verið þannig:

1. Samruni Útvegsbankans, Iðnaðarbankans og Verslunarbankans í hlutafélagsbanka er stofnaður yrði samkvæmt ákvæðum viðskiptabankalaga, nr. 86/1985, með væntanlegri aðild sparisjóða, fyrirtækja og einstaklinga.

2. Sameining Búnaðarbanka og Útvegsbanka.

3. Skipting og samruni Útvegsbanka við Landsbanka og Búnaðarbanka.

4. Endurreisn Útvegsbankans.

Það er eindregin tillaga bankastjórnar Seðlabankans að fyrsta tilgreinda leiðin verði farin. Er gerð ítarleg grein fyrir þessari tillögu í meðfylgjandi grg. og með henni lögð fram drög að samkomulagi aðila um framkvæmd hennar ásamt drögum að frv. til laga um hana ásamt fylgiskjölum um tölulega úttekt til stuðnings þeirri lausn sem bankastjórnin ber hér fram. Verði þessari leið engu að síður hafnað er ekki um annað að ræða en að leysa vandamál Útvegsbankans annaðhvort með sameiningu við Búnaðarbankann eða með skiptingu og samruna hans við Landsbankann og Búnaðarbankann. Síðustu leiðinni, þ.e. endurreisn Útvegsbankans, er hins vegar alfarið hafnað í meðfylgjandi grg."

Það er þess vegna alveg ljóst að það er ein leið sem er talin verst og er í raun og veru hafnað. Og um þá leið segir í grg. bankastjórnar Seðlabankans:

„Að mati Seðlabankans er endurreisn Útvegsbankans langversti kosturinn sem fyrir hendi er í bankamálum. Svo veigamiklar röksemdir mæla gegn þessari leið að telja verður að hún komi alls ekki til álita. Helstu röksemdirnar eru tvíþættar:

1. Alls enginn áfangi næðist í nauðsynlegum skipulagsbreytingum bankakerfisins.

2. Þetta yrði dýrasti kosturinn fyrir ríkissjóð. Við þessar röksemdir bætist svo það að engan veginn verður séð hvaða hagsmunum það á að þjóna að endurreisa bankann og óneitanlega hræða gengin spor í því efni. Er þar átt við margendurteknar árangurslausar tilraunir um langt árabil til að koma rekstri og fjárhag bankans á réttan kjöl. Skal nú vikið nokkru nánar að framangreindum atriðum.

Eins og gerð var grein fyrir hér á undan mundi nást nokkur árangur í einföldun og hagræðingu bankakerfisins með því að sameina Búnaðarbanka og Útvegsbanka þótt slík skipulagsbreyting sé ekki lengur í takt við tímann. Þessi lágmarksárangur mundi ekki nást ef Útvegsbankinn yrði endurreistur. Endurreisn bankans yrði jafnframt dýrasta leiðin fyrir ríkissjóð vegna þess ef bankinn á að starfa áfram verður ríkissjóður að standa einn að alhliða fjárhagslegri endurskipulagningu hans og viðskiptastaða bankans og sérþekking starfsmanna, t.d. í gjaldeyrismálum, mundi ekki nýtast sem viðskiptavild í samningum við aðra banka.

Útvegsbankinn hefur um langt árabil átt við stórfelld vandamál að glíma í starfsemi sinni. Stærstu vandamálin hafa verið mjög neikvæð lausafjárstaða, ófullnægjandi rekstrarafkoma og verulegir ágallar á dreifingu útlána til einstakra lánþega og atvinnugreina. Síðasttalda atriðið hefur nú leitt til útlánatapa sem hafa nánast þurrkað út eigið fé bankans. Sé litið á umfang innlánsviðskipta er Útvegsbankinn langminnsti ríkisbankinn og heildarinnlán stærstu hlutafélagsbankanna eru farin að nálgast innlán Útvegsbankans. Í árslok 1985 voru innlán Útvegsbankans ekki nema 53% af innlánum Búnaðarbankans og tæp 30% af innlánum Landsbankans. Á sama tíma voru innlán bankans einungis 30% umfram innlán Iðnaðarbankans. Hlutdeild Útvegsbankans í heildarinnlánum banka og sparisjóða er nú innan við 10%. Minnt skal á að á seinni árum hefur farið fram töluverður tilflutningur útlánsviðskipta í sjávarútvegi frá Útvegsbankanum til annarra innlánsstofnana og útibú bankans á Seyðisfirði var yfirtekið af Landsbankanum. Einnig þarf að hafa í huga að Útvegsbankinn hefur ekki lengur þá sérstöku aðstöðu að hafa ásamt Landsbankanum einkarétt til gjaldeyrisviðskipta.

Þegar litið er til framangreindra atriða um stöðu Útvegsbankans í bankakerfinu og þróun hennar er vandséð hvaða hagsmunum það mundi þjóna að endurreisa bankann. Það eru ljóslega ekki hagsmunir ríkissjóðs að leggja fram stórfellda fjárhæð af almannafé til að slík fjárhagsleg endurskipulagning geti átt sér stað. Endurreisn bankans er heldur ekki hagsmunamál fyrir lánshæf fyrirtæki og einstaklinga sem nú eru í viðskiptum við bankann. Hagsmunum slíkra aðila hlýtur að vera betur borgið í viðskiptum við stóran og sterkan banka en lítinn banka sem ætti undir högg að sækja í vaxandi samkeppni. Ef einhverjir af núverandi innstæðueigendum hjá Útvegsbankanum leggja áherslu á að njóta viðskipta við ríkisbanka ættu þeir kost á slíku enda þótt Útvegsbankinn hætti rekstri sem sjálfstæð eining.

Að því er varðar hagsmuni starfsmanna er ljóst að tillit yrði til þeirra tekið við framkvæmd bankasameiningar, ekki síst til hagsmuna þeirra sem hafa alllengi verið í þjónustu þeirra banka sem sameinaðir yrðu. Til viðbótar framanrituðu verður að horfast í augu við það að fortíðin varpar töluverðum skugga á þá hugmynd að endurreisa Útvegsbankann með stórfelldu framlagi af almannafé. Margendurteknar tilraunir hafa verið gerðar á síðustu 15 árum til að styrkja stöðu bankans. Hefur hann margoft notið víðtækrar lánafyrirgreiðslu í Seðlabanka umfram það sem aðrir bankar hafa átt kost á. Einnig hefur Seðlabankinn gefið eftir vexti af skuldum Útvegsbankans og veitt honum annan beinan fjárstuðning. Á árinu 1981 fékk Útvegsbankinn 50 millj. kr. nýtt eiginfjárframlag. Verðgildi beinna fjárframlaga ríkissjóðs og Seðlabanka til Útvegsbankans á síðustu 12 árum er 535 millj. kr. á verðlagi í október 1986.

Þrátt fyrir þessi framlög og aðra viðleitni til að koma rekstri Útvegsbankans á réttan kjöl er nú svo komið að bankinn verður ekki rekinn áfram nema til mjög róttækra aðgerða sé gripið. Í því sambandi skal tekið fram að rekstrartap bankans fyrstu átta mánuði þessa árs er tæpar 100 millj. kr.

Niðurstaða Seðlabankans er því sú að ekki verði lengur undan því vikist að gera róttækar breytingar á skipulagi bankakerfisins eins og stefnt er að með þessari tillögugerð bankans.“

Herra forseti. Svo mörg voru þau orð.

Í sjálfu sér er ástæðulaust að bæta neinu við þessa umsögn bankastjóra Seðlabankans nema þá kannske því að hæstv. viðskrh. mun væntanlega halda því fram að hér sé ekki verið að leggja byrðar á ríkissjóð vegna þess að um sé að ræða hlutafé sem eigi að bjóða falt á almennum markaði og ríkissjóður muni smám saman losna við þær skuldbindingar sem því fylgi að eiga hlut í Útvegsbankanum. Engu að síður er það svo að á næstu árum mun ríkið hafa þarna mjög verulegar skuldbindingar og mín trú er reyndar sú að eftir tvö ár þegar aðlögunartíma Útvegsbankans hf. að einkabankakerfi lýkur muni koma í ljós að aðgerðirnar núna til að koma Útvegsbankanum á lappirnar verði þá taldar hafa verið ófullnægjandi. Og menn munu komast að þeirri niðurstöðu að þá þurfi enn að grípa til björgunarráðstafana vegna Útvegsbankans þó að hann hafi bætt við sig stöfunum hf.

Ég held þess vegna að það sé ekki of mikið sagt þegar niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli hefur verið lýst með þeim hætti að þar sé um að ræða átakanlega magalendingu. Það er reyndar mikið afrek satt að segja af ríkisstjórninni að lenda málinu nákvæmlega þarna eftir þessa eindregnu afstöðu bankastjórnar Seðlabankans. Og það er ekki eins og þetta séu neinir venjulegir vikapiltar í bankamálum sem eru að leggja þetta til. Það er fyrrv. hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. Geir Hallgrímsson, það er fyrrv. hæstv. fjmrh. og viðskrh. og varaformaður Framsfl. Tómas Árnason og það er hans hátign Jóhannes Nordal. Þetta lið allt sameinast um það að taka eina leið út úr, líma utan á hana miða eins og á eiturefnaflöskum, merkja með þremur krossum og segja: Hættulegt. Og auðvitað rambaði ríkisstjórnin á þá aðferð, þá aðferð sem var samdóma álit allra að væri sú vitlausasta af þeim öllum.

Nú getur ríkisstjórnin hins vegar komið og hæstv. viðskrh. - hæstv. viðskrh. getur komið og sagt: Já, en það var engin önnur leið fær. Ég kom alls staðar að lokuðum dyrum. Landsbankinn sagði: Ekki ég. Einkabankarnir sögðu: Ekki ég. Og Búnaðarbankinn sagði: Ekki ég. Það er rétt, það er örugglega rétt að hæstv. viðskrh. var þar króaður af. (Gripið fram í.) Landsbankinn sagði kannske ekki mikið. Ætli hann hafi verið spurður mikið? Ætli það hefði kannske ekki verið skynsamlegast að reyna leið fimm sem ekki var einu sinni nefnd í hugmyndaflugi bankastjóra Seðlabankans, þ.e. að reyna að sameina Útvegsbankann og Landsbankann? En það er sérkennilegt til þess að hugsa að það skuli koma fyrir aftur og aftur, ekki einasta núverandi viðskrh. heldur alla viðskiptaráðherra hér í 20 ár, að þegar gerð er tilraun til þess að ná fram sameiningu Útvegsbankans og Búnaðarbankans segir Búnaðarbankinn nei, rétt eins og hann sé einkafyrirtæki. Rétt eins og hann sé í raun og veru sjálfstæður aðili en ekki hluti af ríkinu, sjálfseignarstofnun en ekki hluti af ríkinu.

Ég minnist þess að 1978 og 1979 setti ég nefnd þáverandi vinstristjórnarflokka í það að undirbúa sameiningu þessara banka. Allir þm. þeirra þriggja flokka sem stóðu að þeirri stjórn voru inni á því að fara þessa leið, að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann. En það kom þó í ljós að Búnaðarbankinn átti hauk í horni þar sem var sá ágæti hv. þm. Stefán Valgeirsson. (Gripið fram í: Hvaða ár var það?) Þetta var 1979. Og það er engu líkara en að Búnaðarbankinn hafi eignast lóð og lendur víðar síðan þetta var víðar. Búnaðarbankinn hefur ekki einu sinni verið tilbúinn til þess að taka þátt í þeirri endurskipulagningu bankakerfisins að taka við stöðum eða svæðum þar sem um er að ræða mjög þunga byrði af viðskiptum við atvinnulifið og sérstaklega sjávarútveginn. Búnaðarbankinn hefur þar sloppið alveg ótrúlega vel. Búnaðarbankinn hefur hins vegar haft lag á því að vera í viðskiptum við vissa aðila á þéttbýlissvæðinu þó að hann heiti Búnaðarbanki, aðila sem hafa ákaflega lítið með búnað eða a.m.k. með landbúnað að gera, og hefur bersýnilega haft af því verulegan hagnað og það er satt að segja nokkuð sérkennilegt að upplifa það aftur og aftur í þessu stjórnkerfi að það eru til svona kóngar sem eru bankastjórar í bönkum árum og áratugum saman og reka ríkisbankana eins og sjálfseignarstofnanir. Og mönnum kann að finnast það allt í lagi þegar sæmilega gengur. En þegar fer að halla á, eins og gerðist í Útvegsbankanum, koma menn auðvitað hlaupandi til stóru mömmu og rífa í pilsfaldinn og biðja um hjálp og þannig yrði það líka auðvitað ef eitthvað bjátaði á í Búnaðarbankanum.

Það er ekki þannig, herra forseti, í sambandi við þær athugasemdir sem ég er að gera við þetta frv. í nál. mínu og nefni þar fyrst að það sé verið að opna útlendingum aðild að bankakerfinu á Íslandi. Það er ekki þannig að ég telji að menn standi í biðröðum í erlendum kauphöllum eftir því að kaupa hlutabréf í Útvegsbankanum. Ég hef enga trú á því að kauphallarmenn í London eða Tókýo séu mikið að velta því fyrir sér hvort svo kunni að fara að hérna verði opnað fyrir hlutabréfakaup í Útvegsbankanum á Íslandi. Ég satt að segja hef ekki mikla trú á því að menn standi í biðröðum eftir slíku, það sé ekki talinn þannig bisness að menn séu að leggja mikið á sig vangaveltur í þeim efnum. Hins vegar hefur það þrátt fyrir þetta komið fram hjá bankastjórum Útvegsbankans að þeir héldu því fram á fundi í fjh.og viðskn. Nd. í morgun að einhver danskur banki hefði óskað eftir því að fá að kaupa hlut í Útvegsbankanum ef sú leið yrði opnuð. Það eru auðvitað ekki viðskiptin eða á ég kannske að segja hallinn sem menn eru að sækjast eftir að kaupa hlutabréf í. Það er örugglega eitthvað annað og auðvitað er það fyrst og fremst aðstaða til að koma sinni ár fyrir borð hér á íslenskum peningamarkaði vegna þess að auðvitað eru ýmsir hlutir hér þannig á íslenskum peningamarkaði sem eru arðvænlegir og við höfum orðið varir við það núna á síðustu misserum eftir að voru stofnuð hér ýmis fjármögnunarleigufyrirtæki að útlendir bankar eru nú þegar aðilar að fyrirtækjum sem stunda fjármögnunarleigu en um þá starfsemi er ekki til nein löggjöf í þessu landi eins og kunnugt er. Ástæðan til þess að við leggjum harðast gegn hugmyndinni um það að opna útlendingum aðild að bankakerfinu á Íslandi er auðvitað sú að við teljum að það sé hætta á að þar með missum við ráðin yfir þessu kerfi í hendur útlendinga. Til hvers var þá barist um langa tíð ef niðurstaðan verður sú að útlendingar hirða úrslitaítök í bankakerfinu á Íslandi?

Í öðru lagi nefni ég það í þessu nál. að frv. marki fyrsta skref á þeirri leið að afnema þjóðbankakerfið og afhenda einkaaðilum þjóðbankana. Það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum að alls konar aðilar, m.a. hér í þessum sal, hafa verið með kenningar um það að það ætti endilega að selja ríkisbankana. Það væri alveg höfuðnauðsyn að selja ríkisbankana og það væri t.d. svarið við vandamálum Útvegsbankans að selja ríkisbankana. Þessar kröfur eiga auðvitað rætur í þessu frjálshyggjuofstæki sem hefur verið talsvert við lýði núna á undanförnum árum. Þeir menn sem prédika þetta gera sér gjarnan ekki grein fyrir því að ríkisbankarnir ná hagstæðari viðskiptum á erlendum mörkuðum en einkabankar á Íslandi geta gert. Þeir ná þessum hagstæðari viðskiptum á erlendum fjármagnsmörkuðum vegna þess að þeir eru ríkisbankar. Ég hygg að þarna geti munað að því er varðar lántökukostnað nokkrum prósentum í hvert skipti og það geta verið giska miklar fjárhæðir þegar fram í sækir og allt er lagt saman. En auðvitað er aðalástæðan til þess að við eigum að hafa þjóðbankakerfi sú að við verðum að vera hér með banka sem sinna af myndugleika uppbyggingu okkar atvinnulífs, hvort sem þar er um að ræða sjávarútveginn, iðnaðinn eða einhvers konar nýjar greinar. Bankar sem eingöngu miðast við það að græða á verslun og viðskiptum eru ónýtir bankar fyrir atvinnulífið á Íslandi.

Hins vegar er ljóst að ef við værum eingöngu með hlutafélagabanka mundu bankarnir auðvitað reyna að hámarka sinn gróða, eins og Hannes Hólmsteinn mundi orða það, með því að sækja allir inn í það sem er hagkvæmast, með því að sækja frekar í þá atvinnugrein sem flytur inn svissneskt konfekt í flugvélum frá Sviss en að leggja í saltfiskverkun eða skreið.

Ég hef tekið eftir því að ýmsir talsmenn - (Gripið fram í.) Sumt af henni, já. Hún er góð á Ítalíu. Sjálfstfl. hafa verið að halda þessu fram að það ætti að slátra ríkisbönkunum. Það væri ekki í takt við tímann, eins og það heitir - það er einhver tíska víst í þessu efni; það væri ekki í takt við tímann, eins og segir hér í áliti bankastjórnar Seðlabankans, að hafa ríkisbanka. En auðvitað er það alveg óhjákvæmilegur hlutur í þessu landi að við verðum með þjóðbanka sem eitthvað geta almennilega bankað. Það er það sem hefur auðvitað verið að fara illa með Útvegsbankann að hann er slakur, hann er of lítill til að axla þær byrðar sem hann þarf að axla.

Í þriðja lagi nefni ég það sem röksemd fyrir afstöðu minni í þessu máli að í frv. er ekki tekið á skipulagsvandamálum bankanna og það þarf í sjálfu sér engin frekari rök í þeim efnum, það liggur í augum uppi. Það var það sem Jóhannes Nordal bankastjóri Seðlabankans sagði á fundi fjh.- og viðskn. í morgun, að hérna væri um að ræða tilraun til að laga Útvegsbankann, koma honum svona fyrir vindinn, en hér væri ekki tekið á skipulagsvandamálum bankanna.

Í fjórða lagi nefni ég það að þessar aðgerðir munu tæplega duga til að leysa vandamál Útvegsbankans til frambúðar vegna þess hve staða hans var orðin afleit. Hann tapaði nokkuð miklu á síðasta ári. Ætli hann hafi ekki tapað um 100 millj. kr. eða svo á síðasta ári? En þó er þess að geta að inni í þeim tölum eru 150 millj. kr. sem Útvegsbankinn var í raun og veru að borga í vexti af Hafskipsgjaldþrotinu sem liggur í Seðlabankanum, liggur á þjóðinni þar með, þannig að í raun og veru má segja að hinn almenni rekstur Útvegsbankans fyrir utan Hafskipsmálið hafi verið nokkurn veginn í jafnvægi á s.l. ári þó að það liggi fyrir að bankinn tapaði í innlánum á s.l. ári um 500 millj. kr. samkvæmt upplýsingum bankastjóra bankans og þá miða ég ósköp einfaldlega við það að á undanförnum árum var Útvegsbankinn með svipaða þróun í innlánum og aðrir bankar. Á árinu 1986 jukust innlán í bankana yfirleitt í kringum 20%, ef ég man rétt. Aftur á móti var talan fyrir Útvegsbankann um 9%. Þarna ber á milli um hálfan milljarð króna sem Útvegsbankinn fór verr út úr þessu árið 1986 en ella hefði verið. Auðvitað ber að gagnrýna það alveg sérstaklega í þessu máli hvað þetta hefur allt saman dregist.

Núna getur hæstv. viðskrh. svo komið til mín og sagt á eftir: Heyrðu, en hvað viltu gera? Viltu bara fella þetta frv.? Viltu stoppa málið? Og ég segi: Auðvitað er staðan þannig í þessu máli að það er betra að veifa röngu tré en öngu. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi að reyna ekki, og þó löngu fyrr hefði verið, að stöðva hrun Útvegsbankans því að Útvegsbankinn er þjóðareign og við sem hér erum berum ábyrgð á eignum þjóðarinnar. Hins vegar vil ég og mun láta afstöðu mína til þessa máls koma fram með þeim hætti að ég mun greiða atkvæði gegn 1. gr. frv. og þeirri grein sem fjallar um erlendu bankana því að það er fyrir mér pólitískt stórt grundvallaratriði en að öðru leyti láta ríkisstjórnina um þetta mál. Klúðrið er hennar, magalendingin er hennar og það er því miður ekki á færi okkar í stjórnarandstöðunni að hjálpa ríkisstjórninni upp úr þessu feni. Út af fyrir sig vildi maður það gjarnan. Út af fyrir sig vildi maður gjarnan geta hjálpað til að finna aðrar lausnir á þessu máli.

Ég bendi á það að úr þessum ræðustól hef ég hvað eftir annað á þessu kjörtímabili boðið það fram af hálfu Alþb. að við tækjum þátt í að taka á vandamálum Útvegsbankans sem urðu ekki til með Hafskipsgjaldþrotinu. Það reið að vísu baggamuninn. Vandi Útvegsbankans er hins vegar mikið eldri. Auðvitað hefði maður gjarnan viljað að þannig hefði verið að hlutunum staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún hefði kallað til stuðning úr stjórnarandstöðuflokkunum í þessu máli til þess m.a. að yfirvinna ofurvald smákónganna úr sjálfseignarstofnuninni við Austurstræti, sem virðist þegar allt kemur til alls ráða úrslitum í þessu máli, a.m.k. meiru en heilu ráðherrarnir og heilu ríkisstjórnirnar.

Þess vegna vísa ég ábyrgðinni á þessu máli alfarið á hendur ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Þeir gátu vel leitað til stjórnarandstöðuflokka fyrr í þessu máli. Þeir gátu vel tekið þeim hugmyndum sem fram komu, m.a. frá Alþb., um það að taka á þessu máli og ég held að þetta mál sé nákvæmlega af því tagi að það hafi verið útilokað að vinna það öðruvísi en með öðrum pólitískum aðferðum en venjulega eru tíðkaðar, þ.e. með þverpólitískri samstöðu manna úr öllum flokkum. Það er ekki aðeins það að Alþb. hafi boðið þetta fram og í því sambandi bendi ég á nál. Lúðvíks Jósepssonar í viðskiptabankanefndinni. Ég bendi líka á nál. Kjartans Jóhannssonar í viðskiptabankanefndinni á sínum tíma. Það var því augljóst mál að það var yfirgnæfandi vilji hér á Alþingi í stjórn og stjórnarandstöðu til að leysa þetta mál, höggva á hnútinn myndarlega, stuðla að skipulagsbreytingum í bankakerfinu, ná um þetta samstöðu og einangra plásskóngana úr sjálfseignarstofnuninni. Þá var hægt að leysa málið. En að afhenda þeim lykilinn í málinu eins og var gert með því að einangra þetta mál við stjórnarflokkana, það var dæmt til að mistakast. Það hefur verið reynt áður og það hlaut að mistakast nú eins og áður einnig.