17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (4228)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. las hvað eftir annað voru það þingflokkarnir sem gáfu það fyrirheit í fyrsta lagi að setja á fót nefnd sem athugaði hvernig jafnað yrði á milli landshluta og í öðru lagi að knýja fram ákveðnar aðgerðir til að jafna á milli landshluta. Það var ekki ég sem gaf það fyrirheit eða fyrrv. formaður Alþfl. eða Sjálfstfl. Það voru þingflokkarnir sem gáfu það fyrirheit. Hins vegar var mikið undan því kvartað síðan að þessi nefnd væri ekki skipuð svo að ég tók það á mínar herðar að kalla saman formenn þingflokkanna og óska eftir að nefndin yrði skipuð, það yrðu tilnefndir menn í nefndina. Hún tók síðan við öllum þeim gögnum sem lágu fyrir og eflaust þeirri merkilegu tillögu, sem hv. þm. gat um áðan, um mismunandi skattheimtu eftir því hvar menn búa á landinu. Nefndin skilaði síðan þeirri skýrslu sem hv. þm. vísaði í. Þeirri skýrslu var samstundis komið á framfæri við þingflokkana á Alþingi sem höfðu gefið fyrirheitið. Ég sendi reyndar skýrsluna einnig í Byggðastofnun og óskaði eftir því að Byggðastofnun tæki málið til sérstakrar athugunar. Það voru engin fyrirheit um að forsrh., sem reyndar var ekki sá sem hér stendur þegar þetta frv. var flutt, tæki þessi mál í sínar hendur.

Ég vil hins vegar segja að ég tel að æðimargt hafi verið gert til að reyna að jafna muninn sem ég tek undir að er of mikill og þarf að halda áfram að jafna. Ég bendi á t.d. að það er nú komið langleiðina að framkvæma lög um heilbrigðiskerfið sem samþykkt voru 1973, búið að byggja glæsileg sjúkrahús á Akureyri, Ísafirði og víða um land. Ég bendi á lög sem voru samþykkt 1981 um sjálfvirkan síma á alla bæi. Það er búið að framkvæma það. Ég flutti reyndar það frv. á sínum tíma og ég held við hljótum að viðurkenna að það er hið besta mál. Ég bendi á langtímaáætlun í vegamálum sem hér var lögð fram 1981 og 1982. Framkvæmd hennar hefur verið haldið áfram að magni til nokkurn veginn eins og lagt var til. Hv. þm. ætti að geta þess. Hann hefur m.a. staðið að því að koma þessum ágætu málum í framkvæmd. Af hverju gleymir hv. þm. þessu?

Þannig get ég reyndar nefnt fjölmargt fleira sem er verið að gera og verður haldið áfram að gera þó ég taki undir það að sá fólksflótti sem hefur verið af landsbyggðinni er áhyggjuefni. Af því að sérstaklega er talað um hitaveiturnar minni ég á að nefnd er starfandi sem ég hygg að sé þessa dagana, í þessari viku örugglega, að skila áliti. Þarna eru nokkrar hitaveitur sem hafa sérstöðu, en ef ég man rétt er hitinn á Húsavík ódýrari en í Reykjavík. Af hverju ekki að geta þess? Og hvernig ætti að taka það inn í skattakerfið? Kannske að menn sem flytja á milli Húsavíkur og Akureyrar ættu þá að fá mismunandi frádrátt eftir því hvar þeir búa, eftir því hvað hitaveitan er dýr?

Ég efast ekki um að sú nefnd sem var skipuð hefur tekið hina merku tillögu hv. þm. til athugunar, en hún fann ekki náð fyrir augum nefndarinnar og út af fyrir sig skil ég það vel. Ég held að það sé nánast óframkvæmanlegt að hafa skattinn breytilegan eftir því hvort menn búa á Húsavík eða Akureyri. Hins vegar lagði nefndin fram mjög athyglisverðar tillögur sem allir þingflokkar hafa fengið, m.a. sá sem hv. þm. hefur hingað til setið í, og ég hef ekki orðið var við að hv. þm. hafi tekið málið upp þar. Það á fyrst og fremst að taka það upp þar. Það er gerð tillaga um að stofna til þriðja stjórnsýslustigsins og færa verkefni til þess stjórnsýslustigs. Þetta tel ég hið merkasta mál. Ég hef sagt á fjölmörgum stöðum þar sem ég hef talað að ég er fylgjandi þriðja stjórnsýslustiginu. Ég veit ekki enn þá hvort hv. þm. er það.

Ég held því að það sé nær að leita samstöðu í þeim þingflokkum sem lofuðu að skipa nefnd og grípa til aðgerða. Ég vísa því algerlega á bug að það sé nokkuð út af fyrir sig sem að ríkisstjórninni snýr í þessu máli sérstaklega. Það voru þingflokkarnir sem gáfu þetta fyrirheit. Ég tók að mér að koma nefndinni á fót og skýrslunni hefur verið skilað. Hún hefur legið hjá þingflokkunum í nokkurn tíma. Ég vona svo sannarlega að hún fái þar afgreiðslu fljótlega á næsta þingi.