17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (4230)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég kann því illa að það sé sagt að ég muni ekki það sem hefur gerst þarna og ég bið afsökunar á því að ég kveð mér aftur hljóðs.

En ég vísa í það, sem hv. þm. las sjálfur áðan, að í grg. stóð: „þingflokkar sem að frv. þessu standa hafa orðið ásáttir um“. Í grg. birtum við það sem þingflokkarnir höfðu orðið ásáttir um. Hv. þm. las þetta sjálfur. Það stendur hér: „Í grg. frv. segir: „Þingflokkar sem að frv. þessu standa hafa orðið ásáttir um að beita sér fyrir aukinni valddreifingu, virkara lýðræði“, o.s.frv. Síðan kemur fram: „Steingrímur Hermannsson forsrh. beitti sér fyrir því að þingflokkarnir tilnefndu nefnd í málið.“ Það sem við gerðum, sem frv. fluttum, var að við greindum frá því sem þingflokkarnir við meðferð málsins höfðu orðið ásáttir um. (SV: Formennirnir stjórna ekki þingflokkunum.) Nei, það eru formenn þingflokkanna sem stjórna þingflokkunum. Ég hugsa að formaður okkar þingflokks kynni því illa að heyra svona tal. En ég verð að segja annað. Það er furðulegt ef skatturinn er ekki misjafn ef frádráttarliðir eru misjafnir. Ef menn á Akureyri fá meiri frádrátt vegna dýrari hitaveitu en þeir sem búa á Húsavík borga þeir á Akureyri lægri skatta af sömu launum. Það liggur í hlutarins eðli.