17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4459 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

416. mál, tollskrá

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. sem er til umræðu. Brtt. er á þskj. 986. Efni hennar er á þann veg að ég legg til að niður verði felldur tollur af skíðastöfum og bindingum, skíðum og skíðaskóm.

Íslendingar eru eina þjóðin á Norðurlöndum sem lætur sér detta í hug að hafa toll á skíðum en tvímælalaust má flokka þá íþrótt til heilsuræktar. Hún er því mjög útgjaldasparandi fyrir íslenska ríkið. En hver sá sem skoðar íslensk fjárlög hlýtur að gera sér grein fyrir því að kostnaður vegna heilbrigðiskerfisins heldur stöðugt áfram að vaxa í hlutfalli við heildarupphæð fjárlaganna. Það blasir við að hér er um að ræða þá íþróttagrein sem flestir Íslendingar stunda. Þessi íþróttagrein hefur einnig þá sérstöðu að það hlýtur að verða að líta svo á að þeir sem hana stunda séu að mörgu leyti sáttari við íslenskt veðurfar en aðrir því að þeir fagna snjó og þeir fagna vetri. Það gerðu fornmenn einnig því að þá héldu þeir út til leika. En í margar aldir hafa Íslendingar aftur á móti ekki haldið út til leika yfir vetrartímann.

Mér er það ljóst að það er yfirleitt ekki litið mildum augum ef stjórnarþingmenn leggja til einhverja breytingu á tollalöggjöf til lækkunar á tollum. Ég tel mig aftur á móti hafa fært hér rök fyrir því að aukin útivera Íslendinga muni stuðla að bættu heilsufari í landinu og þar með draga úr útgjöldum ríkisins þannig að ég er sannfærður um að þegar upp er staðið er þetta til góðs. Mér þykir rétt að geta þess að í lok bréfs, sem Hreggviður Jónsson, formaður Skíðasambands Íslands, hefur undirritað kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þá er rétt að minna á það að núorðið fara stórir hópar til útlanda á skíði og flestir þeirra kaupa búnað sinn þar, einnig að stór hluti af verslun með skíðavörur er nú í höndum erlendra kaupmanna.“

Þetta eru sömu rökin og notuð eru fyrir þeirri tollabreytingu sem hér hefur verið lagt til að verði framkvæmd.

Ég hef ekki hugsað mér að hafa þetta mál lengra en vænti þess að deildin hugleiði það að hér er í reynd hreyft stóru máli, stóru máli fyrir íslenska íþróttamenn sem jafnframt er stórt mál til farsældar fyrir Íslendinga ef fleiri þeirra njóta vetraríþrótta. Ég er sannfærður um það í dag að mörg heimili telja sig ekki hafa ráð á því að koma upp skíðabúnaði fyrir þá unglinga sem þar eru. Og þeim mun fjölmennari sem heimilin eru þeim mun líklegra er að þau hiki við að koma upp skíðabúnaði fyrir barnahópinn. Ég tel þess vegna að þetta sé líka hvað það snertir verulegt réttlætismál.