17.03.1987
Neðri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4462 í B-deild Alþingistíðinda. (4245)

391. mál, fæðingarorlof

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með báðum þessum málum sem eru á dagskrá, og stend jafnframt að þeim brtt. sem hér liggja fyrir og hv. formaður heilbr.- og trn. hefur gert grein fyrir. Ég treysti mér ekki til að standa gegn því að fæðingarorlof verði lengt og það er það merkasta sem í þessum frv. er að finna.

Hitt er svo annað mál að vinnubrögð af þessu tagi eru gjörsamlega óþolandi. Nefndinni berast þessi mál á allra síðustu þingdögum og það verður auðvitað að segjast eins og er að nefndin hefur á engan hátt haft tækifæri til að fara ofan í þessi tvö mál. Hér er um gjörbreytingu að ræða á greiðslum á fæðingarorlofi, þ.e. algjörar kerfisbreytingar. Mér er ekki kunnugt um hvort hv. Ed. sendi málin til umsagnar, þó held ég að það hafi ekki verið gert. Ég hygg að kallaðir hafi verið á fund nefndarinnar í efri deild starfsmenn Tryggingastofnunar og einhverjir framkvæmdaaðilar sem e.t.v. höfðu ekki heldur haft tækifæri til þess að kynna sér málið. Og mér er fullkunnugt um það að nokkur kvíði er í starfsmönnum Tryggingastofnunar að taka nú við þessu eftir svo stutta og ófullkomna meðferð.

Þetta er auðvitað ekki til fyrirmyndar. Málið er hins vegar þess eðlis að það er ákaflega erfitt að hindra framgang þess. Ég verð að lýsa því yfir hér og nú að ég treysti hæstv. ráðh., hver sem hann nú kann að verða að kosningum loknum, til þess að leggja í það vinnu með framkvæmdaaðilum, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins, á komandi sumri, þar sem lögin taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót, að þetta verði boðlegt því fólki sem á að starfa eftir þessum lögum.

Þegar núgildandi lög um fæðingarorlof tóku gildi, eða sú breyting á almannatryggingalöggjöfinni var gerð þegar fæðingarorlofsgreiðslur hófust og voru fluttar frá Atvinnuleysistryggingasjóði, tók það hátt á annað ár að búa til reglur, alls kyns reglugerðir og reglur til þess að vinna eftir, vegna þess að ekki var nægilega vel gengið frá því frv. heldur. En að bjóða okkur þm. upp á það að eiga að afgreiða svona veigamikil frv. á örfáum klukkutímum, því hlýt ég að mótmæla. Ég vil ítreka þau orð til hæstv. ráðh., eins og ég áður sagði, að sest verði niður og farið í gegnum þessa bálka þegar þingi lýkur þannig að eftir þessu verði vinnandi þegar lögin taka gildi um næstkomandi áramót.