17.03.1987
Neðri deild: 68. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (4252)

Afgreiðsla þingmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessarar deildar hafa verið í dag og í gær fjölmörg málefni frá stjórnarflokkunum, ríkisstjórninni. Tugir mála hafa farið hér í gegn og verið afgreidd. Meðal þeirra mála hins vegar sem voru til meðferðar í gær var frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem fór samhljóða í gegnum Ed. og var vísað til hv. heilbr.- og trn. í gær, að ég tel, 76. mál þingsins. Það gerir ráð fyrir því að þær breytingar verði á lögunum um almannatryggingar að Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp geti tilnefnt fulltrúa í tryggingaráð. Þetta mál var samhljóða afgreitt í Ed.

Nú ber hins vegar svo við að ég sé ekki að þetta mál hafi verið afgreitt frá hv. heilbr.- og trn. g vil spyrja hverju það sæti að þetta mál fæst ekki afgreitt úr þeirri nefnd eða er ætlunin að afgreiða það þaðan í fyrramálið? Þetta er frv. sem hv. 2. þm. Austurl. Helgi Seljan flutti í Ed. og náði þar samhljóða afgreiðslu.

Ég vil spyrja hv. formann heilbr.- og trn. og hæstv. forseta þessarar deildar hverju það sæti að það eina þingmannamál sem hefur hlotið þá náð að komast hér inn á dagskrá til einhverrar afgreiðslu síðustu sólarhringa er ekki hér inni. Ef það er ætlun stjórnarmeirihlutans að stoppa þetta mál er eins gott að það komi fram strax. Og það er eins gott að hann komist ekki upp með að læðupokast með afstöðu sína, heldur er eins gott að hún liggi fyrir með formlegum hætti. Ég hef reyndar grun um að formaður tryggingaráðs og formaður þingflokks Sjálfstfl. leggist gegn þessu máli. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt nú þegar á þessum næturfundi þegar á að fara að taka hér fyrir 10 stjfrv. til afgreiðslu að upplýsingar um þetta mál liggi fyrir og hver er meiningin varðandi afgreiðslu þess.