04.11.1986
Sameinað þing: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

99. mál, skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af Húsnæðisstofnun

Fjármálaráðherra ( Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við 1, lið fsp. vil ég taka þetta fram: Áætlað er að skuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af Húsnæðisstofnun á árinu 1986 nemi alls 2,1 milljarði kr. Þá er tekið mið af skuldabréfakaupum þeirra til loka októbermánaðar og þeim samningum sem Húsnæðisstofnun ríkisins hefur gert við um 65 lífeyrissjóði um skuldabréfakaup þeirra á þessu ári. Til viðbótar framangreindri fjárhæð er ætlað að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af ríkissjóði á þessu ári fyrir 925 millj. kr. og af þeirri fjárhæð er áætlað að Húsnæðisstofnun ríkisins fái 300 millj. kr. endurlánaðar frá ríkissjóði sem ætlaðar eru til lánveitingar þeim húsbyggjendum sem eiga við greiðsluerfiðleika að etja, sbr. lög nr. 3/1986, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum.

Að því er varðar 2. lið fsp. er rétt að taka fram að í lánsfjáráætlun fyrir árið 1986 er heimild fyrir stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins að taka lán hjá lífeyrissjóðunum að fjárhæð 1530 millj. kr. Mun verða leitað eftir viðbótarheimild Alþingis fyrir lántökum til handa Húsnæðisstofnun ríkisins að því marki sem þarf til þess að lánveitingar lífeyrissjóðanna til Húsnæðisstofnunar geti numið 55% af ráðstöfunarfé þeirra á árinu 1986, enda verði eftir þeirri heimild leitað af hálfu Húsnæðisstofnunar.

Að því er varðar 3. lið fsp. er rétt að taka fram að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur lagt til við félmrh. að þeir aðilar sem áttu að fá lán samkvæmt eldra lánakerfi frá 1. sept. til áramóta fái afgreiðslu samkvæmt nýja lánakerfinu, enda hafi þeir óskað eftir því. Félmrh. hefur samþykkt þessa tillögu stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Áætlað er að meginhluta þessa umframfjár, sem nú er gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnun fái frá lífeyrissjóðunum, verði varið í þessu skyni. En að öðru leyti er rétt að leggja á það áherslu að það er stjórn Húsnæðisstofnunar sem tekur ákvörðun um hvernig útlánum er háttað.