18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4475 í B-deild Alþingistíðinda. (4304)

84. mál, auglýsingalöggjöf

Frsm. allshn. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. til þál. um auglýsingalöggjöf. Flm. hennar er Steingrímur J. Sigfússon. Þessi till. var nokkuð rædd í nefndinni og voru nefndarmenn sammála um að nauðsynlegt væri að hefja nú þegar undirbúning að því að gerð verði heildarlöggjöf um auglýsingar á Íslandi. Slík löggjöf er ekki til enn sem komið er. Með þeim gífurlegu breytingum sem eru að verða á allri fjölmiðlun er mikil þörf að kanna auglýsingar og koma þeim í þann farveg sem heppilegur er. Auglýsingar eru í sjálfu sér upplýsingar, en þær geta líka fólgið í sér neytendavernd.

Tillgr. eins og hún hljóðar hjá hv. flm. gerir ráð fyrir að kosin verði nefnd níu þm. til að undirbúa í samráði við helstu hagsmunaaðila heildarlöggjöf um auglýsingar, en nefndinni fannst þetta kannske vera fullákveðið og leyfir sér að flytja brtt. svohljóðandi, með leyfi forseta:

"Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að undirbúa heildarlöggjöf um auglýsingar.“

Nefndin telur að með þessu móti sé unnt að ná þeim markmiðum sem felast í upphaflegu tillögunni og leggur til að hún verði samþykkt með þessari breytingu.