18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (4307)

236. mál, tryggingasjóður loðdýraræktar

Frsm. atvmn. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. atvmn. um þáltill., 236. mál, og brtt. á þskj. 930. Brtt. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1. Fyrirsögn orðist þannig:

Till. til þál. um aðgerðir til tryggingar loðdýraræktar gegn verðsveiflum.

2. Tillgr. orðist þannig:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna og gera tillögur um með hvaða hætti megi best tryggja hag loðdýrabænda gegn verðsveiflum á loðskinnamörkuðum.“

Með þessum breytingum leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.

Umsagnir þær sem bárust voru ekki margar, en þær voru allar jákvæðar. Það er ljóst að þessi nýja atvinnugrein getur ekki búið við slíkt óöryggi sem verið hefur. Hér er aðeins gert ráð fyrir nefndarskipun að vísu. Ýmsir hefðu kannske viljað sjá einhvers konar sjóð standa, en það var talið rétt í nefndinni að láta hæstv. ríkisstjórn um það hvernig þessi nefndarskipun væri í staðinn.

Það má benda á að ýmsir verðjöfnunarsjóðir eru til í íslensku atvinnulífi og þó að þeir hafi sumir hverjir, eins og Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins, verið nokkuð umdeildir er það rétt að atvinnugreinum er mikill styrkur að sveiflujöfnunarsjóðum til að jafna verðsveiflur milli ára á útflutningsmörkuðum.