18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4479 í B-deild Alþingistíðinda. (4316)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér einungis hljóðs til að bæta aðeins við skýringar hv. 5. þm. Vestf. til þess að menn gerðu sér grein fyrir því með hverju þeir væru að greiða atkvæði. Það má leiða viss rök að því að menn greiði hér atkvæði að nokkru leyti án þess að vita hvað þeir eru að gera. Ég bendi t. d. á að með tilliti til þeirrar till. sem hér á að fara að greiða atkvæði um voru menn rétt áðan að taka undir sjónarmið algerlega gagnstæðrar áttar við þau sjónarmið sem hér er verið að fjalla um þar sem menn sáu samkvæmt skýringum frsm. fyrir síðasta máli brýna nauðsyn þess að draga saman gagnaöflun og ráðgjöf í málefnum fiskeldis, algerlega andstætt því sem menn eru hér að leggja til. Þannig háttar til hjá Þjóðhagsstofnun að þar fer fram heilmikil staðreyndaöflun og staðreyndavinnsla eða úrvinnsla. Þar fer fram ráðgjöf við ríkisstjórn og ráðuneyti og þar fer fram gerð á framtíðarspá fyrir þjóðarhag. Það kom í ljós í umræðum okkar við okkar viðmælendur að staðreyndaöflun og staðreyndaúrvinnsla væri verkefni sem unnið væri jöfnum höndum í Hagstofu Íslands og það væri mjög eðlilegt að Hagstofan ein sinnti því verkefni og eins að þjóðhagsreikningur, sem unninn hefur verið hjá Þjóðhagsstofnun, yrði unninn hjá Hagstofu Íslands.

Ég bendi á þetta vegna þess að ég tel rétt og skylt að menn átti sig á því að með því t.d. að slíkur tilflutningur yrði á verkefnum erum við ekki beinlínis að tala um fækkun starfsmanna hins opinbera heldur tilflutning á þeim frá Rauðarárstíg niður á Hverfisgötu ef húsnæði Hagstofunnar nægir þá þegar þau verkefni hafa verið flutt til hennar sem Þjóðhagsstofnun annast núna.

Eins kom í ljós að efnahagsráðgjöf er orðin með tvennum hætti núna þar sem síðasta ríkisstjórn kaus að ráða sér svokallaðan efnahagsraðgjafa jafnframt því sem Þjóðhagsstofnun hefur annast slíkt verkefni. Í þessari tillgr. eins og hún hljóðar nú breytt, þ.e. að meta hvort ekki sé hagkvæmt að fela öðrum verkefni hennar, felst raunar áskorun á ríkisstjórn að gera upp hug sinn um hvort efnahagsráðgjöf á að fara fram við forsrn. beint, þá með efnahagsráðgjafa og einhverjum mannafla, eða þá eftir sem áður innan Þjóðhagsstofnunar ef menn kjósa svo.

Síðasta og kannske merkilegasta verkefni Þjóðhagsstofnunar er það að spá fyrir um framtíðina. Það urðu menn allir sammála um að erfitt yrði trúlega að komast af án slíkrar spámennsku. Mönnum sagði svo hugur um að einhvers konar spástofnun þyrfti. Hvort sem það yrði í þeirri mynd sem Þjóðhagsstofnun er núna, hvort sem það yrði Þjóðhagsstofnun eða spástofnun sem tengdist Háskóla Íslands eða þá spástofnun sem tengdist forsrn. nánar en nú er sem þar yrði að verki, þá yrði það saint sem áður gagnlegt ríkisstjórn og þingi að fleiri en ein stofnun hér á landi gerði spár fram í tímann þannig að menn hefðu eitthvað við að miða þegar þeir væru að taka ákvarðanir um þau mál sem varða framtíðina.

Ég var ekki viðstaddur þá umræðu sem varð um þessa till. þegar mælt var fyrir henni. Grg. með henni er að innihaldi dálítið stráksleg og mætti gera athugasemdir við það. Þar segir að Þjóðhagsstofnun hafi annast svokallaða efnahagsráðgjöf við ríkisstjórnina sem ekki verður séð að orðið hafi til heilla. Það verður reyndar ekki alveg ráðið af textanum hvort höfundur grg. er að fullyrða að ríkisstjórnin hafi ekki orðið til heilla eða að efnahagsráðgjöfin hafi ekki orðið til heilla. En hvað sem hann hefur meint hlýtur sá hinn sami maður að gera sér ljósa grein fyrir því að ráðgjöf, frá hverjum sem hún kemur, er ekki ráðandi um pólitískar aðgerðir heldur eru það stjórnmálamenn sem bera ábyrgð á endanlegri ákvarðanatöku.

Eins og hv. 3. þm. Reykv. komst að orði í ræðu fyrir nokkrum kvöldum: Embættismenn án stjórnmálamanna eiga í raun og veru ekki að vera til, þ.e. embættismennska er fyrst og fremst þjónkun við stjórnmálamenn og þegna. Það eru ekki embættismenn sem ráða gangi mála heldur stjórnmálamenn og ef stjórnmálamenn telja að þeir ráði ekki gangi mála eiga þeir ekki að vera stjórnmálamenn.

Þess vegna gátum við í nefndinni ekki tekið undir það afdráttarlausa sjónarmið höfunda till. að það væri kjörið tækifæri núna að afnema stofnun hans, þ.e. forstjóra Þjóðhagsstofnunar, eins og þessi stofnun væri eitthvað frekar hans stofnun en annarra. En það veit tillögumaður að nú þegar er búið að skipa nýjan forstöðumann þeirrar stofnunar og núverandi ríkisstjórn virðist ekki beinlínis hafa markað þá stefnu að leggja stofnunina niður ef draga má ályktanir af því að þeir hafa þegar skipað henni forstöðumann.

Aftur á móti töldu menn mjög eðlilegt, bæði núverandi forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og hagstofustjóri, að endurskoðuð yrði starfsemi Þjóðhagsstofnunar og kannað hvort hagkvæmt væri að fela öðrum verkefni hennar án þess að í því fælist nokkurt mat á því hvort slíkt er annaðhvort gerlegt eða hagkvæmt. Þess vegna var líka breytt fyrirsögn till. sem hljóðaði upp á að undirbúið yrði að Þjóðhagsstofnun yrði lögð niður og þetta er einfaldlega till. um Þjóðhagsstofnun. Þá fylgir með að um leið og þessi stofnun verður skoðuð og þá hugsanlega sá tvíverknaður sem þar er unninn skoðast margar aðrar stofnanir sem tengjast mjög svipuðum störfum, sérstaklega á sviði gagnavinnslu sem Þjóðhagsstofnun annast.