18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4481 í B-deild Alþingistíðinda. (4317)

305. mál, Þjóðhagsstofnun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þar sem ég tók nokkurn þátt í umræðum um þessa till. þegar hún var rædd fyrsta sinni langar mig til að leggja örfá orð í belg. Þau verða ekki mörg.

Í fyrsta lagi var hér um að ræða till. um að hefja þegar í stað undirbúning þess að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Nú hefur hv. allshn. sameinaðs þings komið með brtt. sem er í rauninni allt annars efnis, þ.e. að fela ríkisstjórninni að endurskoða starfsemi Þjóðhagsstofnunar og meta hvort ekki sé hagkvæmt að fela öðrum verkefni hennar. Þetta er í rauninni allt annað mál og finnst mér sjálfsagt að verkefni þessara stofnana eins og annarra séu endurskoðuð og tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að auðvitað hlýtur að koma til þess í beinu samhengi við samþykkt þessarar till. að verkefni þeirra stofnana annarra, sem fjalla um svipuð mál eða sömu og Þjóðhagsstofnun gerir, verði endurskoðuð í leiðinni. Þetta er till. um eins konar hagkvæmnisrannsókn á vissum þætti í starfsemi hins opinbera sem er sjálfsögð og eðlileg. Nefndin hefur sem sagt snúið málinu í þá veru sem bent var á í umræðunum að eðlilegt væri og raunar breytt nafni till. í samræmi við það. Þess vegna lýsi ég stuðningi við þá brtt. sem allshn. hefur lagt fram.