18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

166. mál, sjúkra- og iðjuþjálfun

Frsm. félmn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 936 um till. til þál. um skipulegt átak til aukinnar sjúkra- og iðjuþjálfunar í heilsugæslunni.

Nefndin hefur rætt till. og leggur til að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa sérstaka nefnd til að vinna að skipulegu, samræmdu átaki til þess að koma á sem bestri sjúkra- og iðjuþjálfun sem víðast um land. Kannað verði hvernig tengja megi þessa þætti sem best við kennslu í heilsurækt í efstu bekkjum grunnskólans.

Jafnframt verði athugað hvernig unnið yrði að forvarnarstarfi á vinnustöðum þar sem leiðbeint yrði sem gleggst um grundvallaratriði réttra vinnubragða og vinnustellinga jafnhliða bættri vinnuaðstöðu. Leitað verði samráðs um átak þetta við samtök launafólks og vinnuveitenda svo og þau félög heilbrigðisstétta sem málið varðar sérstaklega.“ - Hér er um nokkra breytingu að ræða frá hinum upphaflega texta.

Fjarverandi afgreiðslu þessa máls voru Friðjón Þórðarson, Árni Johnsen og Jón Kristjánsson, en undir þetta nál. skrifa auk mín Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Helgadóttir og Stefán Valgeirsson.